Um Skaftafell

Búseta

Skaftafell var stórbýli og þingstaður til forna. Snemma á öldum var staðurinn kirkjujörð og síðar konungsjörð. Bæjarhúsin stóðu fyrrum niðri á sléttlendinu við brekkuræturnar og sér enn til tófta austan við Eystragil þar sem heita Gömlutún. Vegna ágangs Skeiðarár fóru tún smám saman undir sand og á árunum 1830-1850 var bústaðurinn fluttur um 100 metrum hærra upp í brekkuna og reistir þrír bæir. Nú er búið í Hæðum, gistiheimili var rekið í Bölta til ársins 2012 en Sel fór í eyði árið 1946.

Stofnun þjóðgarðs

Um miðja öldina breyttust búskaparhættir í sveitum landsins. Þrátt fyrir þríbýli á Skaftafellsjörðinni var hún erfið ábúðar og var breytt landnýting fyrirsjáanleg. Veðursælt er í Skaftafelli og taldi Skógrækt ríkisins jörðina tilvalda til ræktunar nytjaskóga. Um 1957 hóf stofnunin viðræður við landeigendur um kaup á „skógræktanlegu“ landi jarðarinnar. Ekki varð úr kaupunum þar sem landeigendur „vildu verja landið en ekki breyta því í útlendan skóg“.

Árið 1960 kom fram tillaga um að friðlýsa Skaftafell sem þjóðgarð. Rökin voru m.a. stórfengleg náttúrufegurð, svo sem óviðjafnanlegt útsýni til hæstu fjalla landsins. Þar væri stærsti skriðjökullinn og víðáttumesti sandurinn og gróður gróskumeiri og fjölbreyttari en víðast annars staðar.

Náttúruverndarráð (nú Umhverfisstofnun) samþykkti í febrúar 1961 að mæla með því að stofnaður yrði þjóðgarður í Skaftafelli og féllst menntamálaráðuneytið á tillöguna í maí það sama ár. Þjóðgarður í Skaftafelli var síðan formlega stofnaður 15. september 1967.

Þegar Vatnajökulsþjóðgarður var stofnaður þann 7. júní 2008 rann þjóðgarðurinn í Skaftafelli saman við hinn nýstofnaða þjóðgarð.

Landslag og náttúra

Skaftafellsland er mótað af rofi jökla og vatns. Skriðjöklar setja svip sinn á landið og Skeiðará, Morsá og Skaftafellsá renna frá samnefndum jöklum. Skeiðará er þeirra mest og var mikill farartálmi þar til hún var brúuð árið 1974. Kunnust er hún vegna Skeiðarárhlaupa sem eiga upptök sín í Grímsvötnum, ýmist vegna eldvirkni eða jarðhita. Árið 1362 gaus Öræfajökull mesta vikurgosi sem orðið hefur á Íslandi síðan sögur hófust og eyddi byggð í Öræfasveit. Sveitin fékk þá nafnið Öræfi en hét áður Litla Hérað. Öræfajökull gaus aftur árið 1727.

Veðursæld í Skaftafelli er mikil og oft er betra veður þar í skjóli Öræfajökuls en í nágrenninu. Gróðurfar er fjölbreytt í Skaftafelli, neðanverðar hlíðar eru vaxnar birkiskógi, sums staðar vex reyniviður innan um og botngróður er gróskumikill. Í Bæjarstaðarskógi verður birki hávaxnara en víðast hvar á landinu. Bláklukka, gullsteinbrjótur, og klettafrú, sem eru meðal einkennistegunda Austurlands, finnast víða í Skaftafelli. Gróðurfar hefur tekið miklum breytingum eftir að þjóðgarðurinn var friðaður, bæði að magni og umfangi.

Jökulaurarnir eru nú óðum að gróa upp, bæði framan við Skaftafellsjökul og í Morsárdal, og tegundir eins og geithvönn, ætihvönn, baunagras og eyrarrós, sem varla sjást á beittu landi, eru orðnar algengar. Birki og víðir teygja sig upp úr aurunum og skógur og kjarr hefur aukist í hlíðum. Skordýralíf í Skaftafelli er mjög fjölskrúðlegt samanborið við aðra staði á landinu og um miðbik sumars verður fiðrildið hvítfeti áberandi.

Fuglalíf er talsvert í skógi vöxnum hlíðum og eru skógarþröstur, hrossagaukur, þúfutitlingur og músarrindill algengir. Í Öræfum eru mikilvægustu varpstöðvar skúms við norðanvert Atlantshaf.

Náttúruperlur Skaftafells

Bæjarstaðarskógur er hávaxnasti birkiskógur landsins en lítill um sig. Reyniviður vex sums staðar í skóginum og undirgróður er blómlegur. Á þessum slóðum er talið að bærinn Jökulfell hafi staðið. Hér endaði einnig landnám Þorgerðar landnámskonu en hún teymdi kvígu sína frá sólarupprás til sólarlags frá Kvíá í austri að Jökulfelli í vestri.

Kjós er litskrúðugur fjallasalur með um 1000 metra háum skriðu- og hamraveggjum. Á norðurbrún Kjósarinnar rís hinn sérkennilegi tindur Þumall sem talinn er vera um tveggja milljón ára gamall gígtappi. Lagskipt litskrúð ber vott um nálægð við mikla eldstöð en landslagið er dæmigert roflandslag.

Kristínartindar eru tveir tindar, 979 m og 1126 m háir, sem gnæfa yfir Skaftafellsheiðina. Venjulega er gengið á hærri tindinn. Fara má upp úr skarðinu milli tindanna að sunnan eða leggja upp í gönguna frá Glámu að austan.

Morsárjökull fellur fram af þverhníptum hömrum og í hlýju veðri má oft heyra drunur og bresti langar leiðir þegar fannir og ísflikki steypast fram af hamrastálinu í háum jökulfossi.

Skaftafellsjökull er skriðjökull sem gengur niður úr Vatnajökli austan Skaftafellsheiðar. Hafrafell rís austan hans og skilur á milli Skaftafells- og Svínafellsjökuls en um 1940 umluktu jöklarnir fjallið.

Svartifoss fellur fram af hömrum með óvenju reglulegum bergstuðlum er myndast hafa við hægfara kólnun hraunlags. Umgjörðin um fossinn þykir einstök og var meðal annars reynt að líkja eftir henni í lofti Þjóðleikhússins.