Starfsstöðvar
Hjá Vatnajökulsþjóðgarði starfar samheldinn hópur starfsmanna með fjölbreytta reynslu, sem sinnir margvíslegum verkefnum tengdum náttúruvernd og þjónustu við gesti þjóðgarðsins.

Að staðaldri starfa rúmlega 30 manns hjá þjóðgarðinum en yfir sumartímann fer starfsmannafjöldi yfir 100. Þjóðgarðurinn rekur nú fjórar gestastofur. Þær eru: Gljúfrastofa í Ásbyrgi, Snæfellsstofa á Skriðuklaustri, Skaftafellsstofa í Skaftafelli og Skaftárstofa á Kirkjubæjarklaustri, sem rekin er í húsnæði og samvinnu við Skaftárhrepp, þangað til ný verður byggð.
Yfir sumartímann teygir starfsemi þjóðgarðsins sig vítt um garðinn en á veturna, þegar hálendinu er lokað, einskorðast hún við færri staði. Á kortinu hér sjást landvörslu- og starfsstöðvar þjóðgarðsins. Landvörslustöðvar eru merktar með appelsínugulum kössum. Aðsetur þjóðgarðsins er á Höfn. Margvíslegri stoðþjónustu er sinnt frá skrifstofum í Garðabæ, Höfn, Fellabæ og Akureyri. Krafturinn á bak við þjóðgarðinn liggur ekki einungis í einstakri náttúru, heldur einnig í kröftugu og ánægðu starfsfólki.
Landvörslustöðvar
Landvörslustöðvar eru aðsetur landvarða og jafnframt miðstöðvar fyrir upplýsingjagjöf og fræðslu í formi gönguferða eða annarra miðla eftir aðstæðum.
Landvörslustöðvar eru staðsettar þar sem tryggt er að þær þjóni hlutverki sínu og nái til gesta sem fara um svæðið. Þaðan sinna landverðir daglegu eftirliti innan þjóðgarðsins og á friðlýstum svæðum í umsjá hans. Landvörslustöðvar geta verið reknar í samstarfi við fleiri aðila og þar sem þess er kostur er reynt að nýta bæði húsakost og aðra þjónustu sem þegar er fyrir hendi.
Hlutverk landvarða og annarra starfsmanna getur verið með ólíkum áherslum á milli landvörslustöðva. Það sama á við um aðbúnað starfsmanna á hverjum stað.