Störf í boði
Hjá Vatnajökulsþjóðgarði starfar samheldinn hópur starfsmanna með fjölbreytta reynslu, sem sinnir margvíslegum verkefnum tengdum náttúruvernd og þjónustu við gesti þjóðgarðsins.
Að staðaldri starfa rúmlega 50 manns hjá þjóðgarðinum en yfir sumartímann fer starfsmannafjöldi yfir 120. Höfuðstöðvar þjóðgarðsins eru á Höfn í Hornafirði og aðrar starfsstöðvar eru Ásbyrgi, Mývatnssveit, Skriðuklaustur/Fellabær,Skaftafell, Kirkjubæjarklaustur og á höfuðborgarsvæðinu. Krafturinn á bak við þjóðgarðinn liggur ekki einungis í einstakri náttúru, heldur einnig í kröftugu og ánægðu starfsfólki.
Um Náttúruverndarstofnun
Náttúruverndarstofnun tók til starfa þann 1. janúar 2025 og tekur stofnunin við starfsemi Vatnajökulsþjóðgarðs og þeim hluta Umhverfisstofnunar er lýtur að náttúruvernd og lífríkis- og veiðistjórnun. Stofnunin fer með stjórnsýslu, eftirlit og önnur verkefni á sviði náttúruverndar, sjálfbærrar þróunar og friðlýstra svæða, vernd villtra fugla og spendýra og veiðistjórnunar. Þá sinnir stofnunin samhæfingu í skipulagi svæðisbundinnar stjórnunar og verndar og eftirliti á ofangreindum sviðum.
Yfirlandvörður á Breiðamerkursandi
Náttúruverndarstofnun auglýsir laust til umsóknar starf yfirlandvarðar á Breiðamerkursandi. Um er að ræða fjölbreytt og spennandi starf í einstakri náttúru. Svæðið er aðgengilegt árið um kring og einn fjölsóttasti ferðamannastaður landsins.
Staða yfirlandvarðar er heilsársstaða og heyrir undir þjóðgarðsvörð á svæðinu. Æskilegt er að nýr yfirlandvörður geti hafið störf sem fyrst. Unnið er á vöktum.
Helstu verkefni og ábyrgð
Yfirlandvörður skipuleggur, forgangsraðar og stýrir daglegum verkefnum landvarða og eftir atvikum annarra starfsmanna í samráði þjóðgarðsvörð. Hann sér einnig um þjálfun starfsfólks í samráði við þjóðgarðsvörð og aðstoðarþjóðgarðsvörð, fræðslu og upplýsingagjöf á svæðinu, hefur eftirlit með náttúru og innviðum, sinnir viðhaldi og þjónustu við ferðamenn í samvinnu við aðra landverði á svæðinu. Hluti starfsins felur í sér samskipti við fyrirtæki með starfsemi á svæðinu.
Þjóðgarðsvörður á suðaustursvæði Vatnajökulsþjóðgarðs
Náttúruverndarstofnun auglýsir stöðu þjóðgarðsvarðar á suðaustursvæði Vatnajökulsþjóðgarðs lausa til umsóknar. Leitað er að metnaðarfullum og framsýnum stjórnanda með mikla samskiptahæfni, þekkingu og getu til að leiða starfsemi á svæði sem er þekkt fyrir stórbrotna náttúru, fjölbreytt verkefni og öflugt samstarf við samfélagið.
Þjóðgarðsvörður hefur aðstöðu á Höfn í Hornafirði og annast daglegan rekstur þjóðgarðsins á Breiðamerkursandi og austur að Höfn. Næsti yfirmaður þjóðgarðsvarðar er sviðsstjóri landvörslusviðs. Æskilegt er að viðkomandi geti hafið störf sem fyrst.
Almenn umsókn
Viltu vera á skrá hjá okkur?
Mikilvægt er að taka fram í umsókninni hvar á landinu þú kýst að starfa og hvernig starfi þú leitar að. Eingöngu er ráðið í tímabundnar stöður eftir þessari leið. Allar ótímabundnar stöður eru auglýstar og þarf að sækja sérstaklega um þær.