Vatnajökulsþjóðgarður heyrir nú undir Náttúruverndarstofnun. Heimasíða stofnunarinnar er í vinnslu. Lesa meira

Beint í efni
  • Þjónustugátt
  • Kortasjá
  • Leit
  • Opna

Göngu- og hjólaleiðin Ölduslóð opnuð á 17. júní

Göngu- og hjólaleiðin Ölduslóð var opnuð með viðhöfn á þjóðhátíðardaginn 17.júní.

24. júní 2025

Göngu- og hjólaleiðin Ölduslóð var opnuð með viðhöfn á þjóðhátíðardaginn 17.júní. Eitt af markmiðum Vatnajökulsþjóðgarðs er að styrkja byggð og atvinnustarfsemi í nágrenni þjóðgarðsins og það var því með mikilli ánægju tekið þátt í samstarfi um að gera göngu- og hjólastíg milli Svínafells og Skaftafell, sem liggur í gegnum Freysnes við jökulöldurnar framan við Svínafellsjökul.

Frumkvæði að gerð stígsins áttu íbúar í Svínafelli og Freysnesi, en Sveitarfélagið Hornafjörður tók að sér utanumhald verkefnisins og fékk styrk frá Framkvæmdasjóði ferðamannastaða, meðal annars þurfti að byggja brýr yfir tvær vatnsmiklar jökulár sem eru Skaftafellsá og Svínafellsá. Ölduslóð er hluti af Jöklaleiðinni sem gerð er í áföngum sunnan Vatnajökuls, þar er hægt að njóta útivistar og náttúrufegurðar fjarri umferðinni á þjóðveginum.

Starfsfólk ásamt sjálfboðaliðum fagnar opnun Ölduslóðar við Skaftafell. Mynd: Svanlag Halla Baldursdóttir

Þann 17.júní var safnast saman í Freysnesi þar sem ávarp var flutt og þakkir til þeirra fjölmörgu sem komu að verkefninu, Öræfingakórinn leiddi fjöldasöng og síðan var gengið eftir Ölduslóðinni inn að Svínafelli þar sem hátíðahöld Ungmennafélags Öræfa fara jafnan fram á þjóðhátíðardaginn. Þar var farið í leiki og síðan nutu gestir veitinga í tilefni dagsins.

Margir gestir leggja leið sína í Skaftafell og sé horft til tveggja síðustu ára hafa verið yfir 2.500 gestir á dag þar í júnímánuði. Það gefur því auga leið að erfitt væri að yfirgefa svæðið til að taka þátt í hátíðahöldunum í Freysnesi og Svínafelli: starfsfólkið í Skaftafelli fagnaði opnun stígsins þar, ásamt sjálfboðaliðum Náttúruverndarstofnunar sem hafa unnið að endurbótum göngustíga.