Beint í efni
S1

Jökulslóð - Gestagata

Gangan eftir Jökulslóð er eins og lifandi sögustund um hopun jökuls. Jökulmótuð landslagsform einkenna leiðina, eins og jökulgarðar og jökulker, og skoða má framvindu gróðurs á ólíkum stigum. Gönguleiðin er hluti af verkefninu Hörfandi jöklar. Á leiðinni eru númeraðar stikur sem vísa í fræðslutexta í bæklingi sem finna má rafrænt hér fyrir neðan.

Vegalengd
4,1 km
Áætlaður tími
1-1,5 klst
Erfiðleikastig
Auðveld
Hækkun
80 m
Tegund
Hringleið
Upphafsstaður
Austan við Skaftafellsstofu

Gestagatan Jökulslóð er hringleið sem liggur inn með Austurbrekkum áleiðis að Skaftafellsjökli. Á leiðinni má sjá ýmis merkileg jarðfræðileg fyrirbæri, t.d. bergganga, gamla árfarvegi, móbergsbjörg og jökulker. Leiðin liggur að jaðarlóninu þar sem gott útsýni er að jöklinum. Þegar gengið er til baka liggur leiðin upp á háan jökulgarð, yfir jökulaurana, framhjá nokkrum eldri jökulgörðum og fyrrum árfarvegum Skaftafellsár. Gaman er að fylgjast með landnámi plantna sem er í fullum gangi á svæðinu þar sem jökullinn hefur hopað síðustu áratugi. Birki, mosi og skófir eru áberandi en einnig má finna t.d. baunagras, holtasóley, krækiberjalyng og lyfjagras.
Hægt er að fara auðveldari gönguleið með því að fara að útsýnisstað (rétt á undan stoppi n. 10) þar sem Skaftafellsjökull og lónið framan við hann blasir við og svo sömu leið til baka. Stígurinn að útsýnisstað er nokkuð sléttur og með lítilli hæðabreytingu.

Fræðsla

Kortabæklingur og kort