Aðvaranir

Göngufólk á suðurodda Eyjunnar í Ásbyrgi að haustlagiÍ Jökulsárgljúfrum eru samankomnar nokkrar af helstu perlum íslenskrar náttúru. Dettifoss er álitinn aflmesti foss Evrópu og má í honum skynja þá krafta sem myndað hafa Ásbyrgi og Hljóðakletta. Andstæður krafts og friðar eru svo óvíða skýrari en í Hólmatungum þar sem tærir lækir og lindir renna út í beljandi jökulá.

Jökulsárgljúfur eru draumaland göngufólks og þar eru fjölmargar merktar gönguleiðir, misjafnar að lengd og erfiðleikastuðli. Jökulsárgljúfur eru ekki síður áfangastaður fyrir þá sem vilja njóta íslensks sumars í fallegu umhverfi enda fyrirtaks tjaldsvæði bæði í Ásbyrgi og Vesturdal.

Vatnajökulsþjóðgarður rekur gestastofu í Ásbyrgi og er hún opin á sumrin. Landverðir í Jökulsárgljúfrum skipuleggja stuttar fræðslugöngur um þjóðgarðinn og er þátttaka gestum að endurgjaldslausu. Hér má finna nánari upplýsingar um dagskrá fræðsluferða.

Vatnajökulsþjóðgarður er samstarfsaðili Fálkaseturs Íslands í Ásbyrgi. Vefsíða setursins er www.falkasetur.is

 

Vegasamgöngur

Frá þjóðvegi 1 liggur vegur 85 um Húsavík í Ásbyrgi og er bundið slitlag alla leið. Eru um 65 km frá Húsavík í Ásbyrgi.

Frá vegi 85 liggur vegur 864 framhjá Dettifossi austanverðum að þjóðvegi 1. Vegur 864 er malarvegur og þarf ökuhraði að miðast við aðstæður hverju sinni. Vegurinn lokast í byrjun október og er opnaður seinnihlutann í maí.

Vegalengdir:
Ásbyrgi - Dettifoss: 28 km
Ásbyrgi - þjóðvegur (við Grímsstaði): 60 km

Vestanmegin Jökulsár er vegur 862. Hann er alla jafna fær venjulegum bílum að Dettifossi. Vegfarendur þurfa þó að miðað ökuhraða við ástand vegarins hverju sinni. Vegurinn lokast í byrjun október og er opnaður í lok maí/byrjun júní.

Vegalengdir:
Ásbyrgi - Vesturdalur (Hljóðaklettar): 16 km
Vesturdalur - Hólmatungur: 16 km
Hólmatungur - Dettifoss: 7 km.

Haustið 2010 var opnað fyrir akstur á nýjan, malbikaðan veg frá Dettifossi og áfram suður að þjóðvegi 1. Athuga þarf að þessi vegur er ekki þjónustaður yfir veturinn.

Vegalengdir:
Dettifoss - þjóðvegur 1: ~ 20 km
Dettifoss - Mývatn: ~ 50 km

Almenningssamgöngur

Fastar áætlunarferðir eru frá Akureyri í Ásbyrgi allt árið. Yfir sumartímann eru einnig daglegar ferðir frá Ásbyrgi í Vesturdal og að Dettifossi vestanverðum. Nánari upplýsingar má fá á heimasíðu Strætó og SBA.

Gisting, matur og eldsneyti

Gistiheimili og hótel eru í nágrenni Jökulsárgljúfra - sjá vef ferðaþjónustuaðila á Norðausturlandi. Kaffisala er í Gljúfrastofu. Veitingasala er í versluninni Ásbyrgi.

 

Viðburðir á næstunni