Aðvaranir

Göngufólk á suðurodda Eyjunnar í Ásbyrgi að haustlagiÍ Jökulsárgljúfrum eru samankomnar nokkrar af helstu perlum íslenskrar náttúru. Dettifoss er álitinn aflmesti foss Evrópu og má í honum skynja þá krafta sem myndað hafa Ásbyrgi og Hljóðakletta. Andstæður krafts og friðar eru svo óvíða skýrari en í Hólmatungum þar sem tærir lækir og lindir renna út í beljandi jökulá.

Jökulsárgljúfur eru draumaland göngufólks og þar eru fjölmargar merktar gönguleiðir, misjafnar að lengd og erfiðleikastuðli. Jökulsárgljúfur eru ekki síður áfangastaður fyrir þá sem vilja njóta íslensks sumars í fallegu umhverfi enda fyrirtaks tjaldsvæði bæði í Ásbyrgi og Vesturdal.

Vatnajökulsþjóðgarður rekur gestastofu í Ásbyrgi. Landverðir í Jökulsárgljúfrum skipuleggja stuttar fræðslugöngur um þjóðgarðinn og er þátttaka gestum að endurgjaldslausu. Hér má finna nánari upplýsingar um dagskrá fræðsluferða.

Vatnajökulsþjóðgarður er samstarfsaðili Fálkaseturs Íslands í Ásbyrgi. Vefsíða setursins er www.falkasetur.is

 

Vegasamgöngur

Frá þjóðvegi 1 liggur vegur 85 um Húsavík í Ásbyrgi og er bundið slitlag alla leið. Um 65 km eru frá Húsavík í Ásbyrgi.

Vegur 862 tengir Ásbyrgi við þjóðveg 1 á Mývatnsöræfum. Bundið slitlag er frá þjóðgvegi 1 og norður fyrir Hólmatungur. Frá Hólmatungum að Vesturdal er unnið að uppbyggingu gamla vegarins en hann er engu að síður opinn fyrir umferð.

Frá vegi 85 liggur vegur 864 framhjá Dettifossi austanverðum að þjóðvegi 1. Vegur 864 er malarvegur og þarf ökuhraði að miðast við aðstæður hverju sinni. Vegurinn lokast í byrjun október og er opnaður seinnihlutann í maí.

Vegalengdir:
Ásbyrgi - Dettifoss: 28 km
Ásbyrgi - þjóðvegur (við Grímsstaði): 60 km

Vestanmegin Jökulsár er vegur 862. Hann er alla jafna fær venjulegum bílum að Dettifossi. Vegfarendur þurfa þó að miðað ökuhraða við ástand vegarins hverju sinni. Vegurinn lokast í byrjun október og er opnaður í lok maí/byrjun júní.

Vegalengdir:
Ásbyrgi - Vesturdalur (Hljóðaklettar): 16 km
Vesturdalur - Hólmatungur: 16 km
Hólmatungur - Dettifoss: 7 km.

Haustið 2010 var opnað fyrir akstur á nýjan, malbikaðan veg frá Dettifossi og áfram suður að þjóðvegi 1. Athuga þarf að þessi vegur er ekki þjónustaður yfir veturinn.

Vegalengdir:
Dettifoss - þjóðvegur 1: ~ 20 km
Dettifoss - Mývatn: ~ 50 km

Almenningssamgöngur

Áætlunarferðir SBA og ferðir Strætó hafa lagst af. Nordic Natura, Fjallasýn og fleiri fyrirtæki eru tilbúin að aðstoða einstaklinga og hópa sem þurfa á þjónustu að halda.

Gisting, matur og eldsneyti

Gistiheimili og hótel eru í nágrenni Jökulsárgljúfra - sjá vef ferðaþjónustuaðila á Norðausturlandi. Kaffisala er í Gljúfrastofu. Veitingasala er í versluninni Ásbyrgi.