Göngufólk á suðurodda Eyjunnar í Ásbyrgi að haustlagi

Jökulsárgljúfur voru friðlýst sem þjóðgarður árið 1973 og hafa frá 2008 verið hluti af Vatnajökulsþjóðgarði. Svæðið er í Norðurþingi og nær frá Dettifossi í suðri að Ásbyrgi í norðri. Jökulsá á Fjöllum, farvegir hamfaraflóða og augljós merki um eldvirkni setja sterkan svip á svæðið. Vistgerðir eru breytilegar: syðst eru melar og sandar, um miðbikið mó- og votlendi og nyrst er skóglendi einkennandi. Fuglalíf er þar af leiðandi fjölbreytt.

Í Jökulsárgljúfrum eru samankomnar nokkrar af helstu perlum íslenskrar náttúru. Dettifoss er álitinn aflmesti foss Evrópu og má í honum skynja þá krafta sem myndað hafa Ásbyrgi og Hljóðakletta. Andstæður krafts og friðar eru svo óvíða skýrari en í Hólmatungum þar sem tærir lækir og lindir renna út í beljandi jökulá.

Jökulsárgljúfur eru kjörlendi göngufólks og þar eru fjölmargar merktar gönguleiðir, misjafnar að lengd og erfiðleikastuðli. Jökulsárgljúfur eru ekki síður áfangastaður fyrir þá sem vilja njóta íslensks sumars í fallegu umhverfi enda fyrirtaks tjaldsvæði bæði í Ásbyrgi og Vesturdal.

Vatnajökulsþjóðgarður rekur gestastofu í Ásbyrgi. Landverðir í Jökulsárgljúfrum skipuleggja stuttar fræðslugöngur um þjóðgarðinn og er þátttaka gestum að endurgjaldslausu. Hér má finna nánari upplýsingar um dagskrá fræðsluferða.

Vatnajökulsþjóðgarður er samstarfsaðili Fálkaseturs Íslands í Ásbyrgi. Vefsíða setursins er www.falkasetur.is

 

Vegasamgöngur

Norðausturvegur (vegnúmer 85) tengir Húsavík og Ásbyrgi í Kelduhverfi. Leiðin er rétt rúmir 60 kílómetrar og má ætla rúmar 45 mínútur í ferðina sé hún farin í bíl. Norðausturvegur er fær allan ársins hring.

Dettifossvegur (vegnúmer 862) er vestan við Jökulsá á Fjöllum. Vegurinn er um 50 kílómetrar og nær frá þjóðvegi 1 á Mývatnsöræfum niður í Kelduhverfi. Meðfram Dettifossvegi eru helstu áningarstaðir ferðamanna í Jökulsárgljúfrum: Hljóðaklettar, Hólmatungur og Dettifoss.

Vegalengdir

  • Ásbyrgi – Vesturdalur/Hljóðaklettar: 16 km
  • Ásbyrgi – Dettifoss: 35 km
  • Dettifoss – Mývatn: 50 km
  • Hólmatungur - Dettifoss: 7 km
  • Vesturdalur - Hólmatungur: 16 km

 

Almenningssamgöngur

Áætlunarferðir SBA og ferðir Strætó hafa lagst af. Nordic Natura, Fjallasýn og fleiri fyrirtæki eru tilbúin að aðstoða einstaklinga og hópa sem þurfa á þjónustu að halda.

Gisting, matur og eldsneyti

Gistiheimili og hótel eru í nágrenni Jökulsárgljúfra - sjá vef Markaðsstofu Norðurlands. Kaffisjálfsali er í Gljúfrastofu. Veitingasala er í versluninni Ásbyrgi, Veggur grill við Dettifossveg og Hótel Skúlagarði.