Fleiri gestakomur í Ásbyrgi í júlí og ágúst en fyrir Covid-19

Tjaldsvæðið í Ásbyrgi. Mynd: Guðmundur Ögmundsson.
Tjaldsvæðið í Ásbyrgi. Mynd: Guðmundur Ögmundsson.

Nýgerð samantekt á gestakomum yfir sumarið á fjölsóttustu áningarstöðum Vatnajökulsþjóðgarðs sýnir að fjöldi gesta í Ásbyrgi var meiri í júlí og ágúst síðastliðnum en í sömu mánuðum árið 2019. Sunnan jökuls voru um 20% prósent færri gestir í sömu mánuðum miðað við fyrir Covid.

Það fór ekki framhjá ferðalöngum sumarsins að veður var með eindæmum gott á norður- og austurhluta landsins. Leiða má að því líkum að veðurblíðan hafi laðað að sér fjölda gesta norður í Jökulsárgljúfur þar sem að í júlí og ágúst voru 12% og 4% fleiri ferðamenn í Ásbyrgi en í sömu mánuðum árið 2019 (tafla 2). Eins voru um 33% fleiri gestir á tjaldsvæðinu í Ásbyrgi í sumar samanborðið við undanfarin tvö sumur, eða um 18.500 manns (tafla 1). Þar af var hlutfall Íslendinga mun hærra síðustu tvö ár, eða allt að 85% (mynd 1).

Tafla 1:  Gistinætur í Ásbyrgi 2019-2021.

  2019 2020 2021 2021 vs 2019
Íslendingar 7.991 11.684 15.585  
Útlendingar 5.858 2.103 2.890  
Samtals 13.849 13.787 18.475 33%

 

 Mynd 1: Gistinætur á tjaldsvæðinu í Ásbyrgi 2019-2021.  

 

Mynd 2: Gestafjöldi á þremur áningarstöðum í Jökulságljúfrum; Ásbyrgi, Dettifossi að vestanverðu og Dettifossi að austanverðu í maí til ágúst 2019 til 2021. 

Við Dettifoss vestanverðan var gestafjöldinn í júlí og ágúst ekki langt frá því sem hann var árið 2019 eða um 45.000 manns. Gestum við Dettifoss austanverðan hefur hins vegar fækkað frá 2019. Ástæða þess er líklega tilkoma nýs Dettifossvegar en sumarið 2020 var lokið við gerð heilsársvegar á milli þjóðvegs 1 á Mývatnsöræfum og þjóðvegs 85 í Kelduhverfi.

Tafla 2: Yfirlit yfir gestafjölda í Jökulsárgljúfrum, við Jökulsárlón og í Skaftafelli í maí, júní, júlí og ágúst árin 2019 til 2021. 

Jökulsárlón 2019 2020 2021 % 2021 vs 2019
Maí 61.354 7.303 18.311 -70%
Júní 92.312 22.097 46.915 -49%
Júlí 114.441 75.530 96.423 -16%
Ágúst 120.439 59.207 89247 -26%
         
Skaftafell 2019 2020 2021 % 2021 vs 2019
Maí 56.652 4.333 13.331 -76%
Júní 84.907 15.939 38.262 -55%
Júlí 108.199 65.674 84.567 -22%
Ágúst 116.870 49.881 86.572 -26%
         
Ásbyrgi 2019 2020 2021 % 2021 vs 2019
maí 7.640 3.301 3.608 -53%
júní 20.145 12.736 13.691 -32%
júlí 33.743 32.030 37.847 12%
ágúst 27.263 26.284 28.395 4%
         
Dettifoss að vestanverðu 2019 2020 2021 % 2021 vs 2019
maí 27.407 1.920 6.894 -75%
júní 41.898 9.882 19.734 -53%
júlí 46.904 27.108 44.401 -5%
ágúst 49.649 27.738 47.141 -5%
         
Dettifoss að austanverðu 2019 2020 2021 % 2021 vs 2019
maí - - - -
júní 18.329 1.006 4.780 -74%
júlí 34.129 14.901 13.680 -60%
ágúst 37.150 15.733 19.463 -48%

 

 

Sunnan jökuls, í Skaftafelli og við Jökulsárlón, voru um 20% færri gestir í júlí og ágúst miðað við sama tíma árið 2019. Engu að síður komu um 90.000 gestir hvorn mánuð á báða staði, eða að meðaltali um 3.000 gestir á dag. Bæði norðan og sunnan jökuls var hins vegar færra um gesti fyrrihluta sumars (tafla 2). Leiða má að því líkum að strangar sóttvarnarreglur á þeim tíma séu stærsta ástæðan fyrir færri ferðalöngum. Ekki er búið að taka saman gögn fyrir hálendissvæði þjóðgarðsins, en í nýútgefinni ársskýrslu fyrir árið 2020 kemur fram að fækkun gesta á hálendinu vegna heimsfaraldurs Covid-19 var minni en talið var fyrir það ár og tilfinning starfsmanna er að svo hafi einnig verið í sumar.

Mynd 3: Gestafjöldi við Jökulsárlón og í Skaftafelli í maí til ágúst 2019 til 2021.

Á sama tíma og þjóðgarðurinn fagnar þeim fjölda sem vill njóta gæða náttúrunnar þá fylgir miklum gestagangi fylgja líka miklar annir og starfsmenn þjóðgarðsins fóru ekki varhluta af því. Mikil orka fór í daglega umhirðu svæða og þjónustu við gesti. Rekstarframlög þjóðgarðsins náðu ekki að tryggja fulla mönnum, m.a. vegna styttingar vinnuviku vaktavinnustarfsfólks. Útfærslur á starfseminni vegna Covid-19 takmarkana tóku einnig tíma og orku frá starfsfólki. Á annasömum dögum var því mikið álag á starfsfólk þjóðgarðsins sem lagði sig engu að síður 100% fram við að veita gæðaþjónustu, við gesti og náttúru þjóðgarðsins.

 Tjaldsvæðið í Skaftafelli á góðum sumardegi 2021 (mynd: Sigrún Sigurgeirsdóttir).

 

 


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?