Beint í efni

Formleg opnun Skaftárstofu

Það var blíðskaparveður sem tók á móti gestum Skaftárstofu þann 24. febrúar síðastliðinn þegar nýja gestastofan var opnuð formlega. Gestir komu víða að og mátti þar sjá þingmenn og ráðherra, núverandi og fyrrverandi, vísindamenn, verktaka, heimafólk og aðra velunnara á meðal gesta.

1. mars 2024
Skaftárstofa / Guðrún Stefanía Vopnfjörð Ingólfsdóttir

Það var blíðskaparveður sem tók á móti gestum Skaftárstofu þann 24. febrúar síðastliðinn þegar nýja gestastofan var opnuð formlega. Gestir komu víða að og mátti þar sjá þingmenn og ráðherra, núverandi og fyrrverandi, vísindamenn, verktaka, heimafólk og aðra velunnara á meðal gesta.

Elín Heiða Valsdóttir, varaformaður og fulltrúi Skaftárhrepps í svæðisráði , opnaði samkomuna og afhenti síðan Fanney Ásgeirsdóttur, þjóðgarðsverði vestursvæðis, umsjón dagskrár.

Barnakór Kirkjubæjarskóla flutti tvö lög og aðstoðaði svo Guðlaug Þór Þórðarson umhverfis- orku- og loftslagsráðherra við að opna nýtt húsnæði Skaftárstofu formlega. Guðlaugur fékk forvera sína, þau Guðmund Inga Guðbrandsson og Sigrúnu Magnúsdóttur til að aðstoða sig við opnunina, en þau eiga stóran þátt í því að gestastofan varð að veruleika.

Barnakór Kirkjubæjarklausturs flutti tvö lög / Guðrún Stefanía Vopnfjörð Ingólfsdóttir

Frá vinstri: Fanney Ásgeirsdóttir, Sigrún Magnúsdóttir, Guðlaugur Þór Þórðarson, Guðmundur Ingi Guðbrandsson ásamt börnum úr barnakór Kirkjubæjarklausturs eftir að klippt var á borðann.

Guðlaugur ávarpaði einnig samkomuna og talaði um mikilvægi þess að heimafólk finni til ábyrgðar og umhyggju gagnvart friðlýstum svæðum í sinni heimabyggð og að þeim sé treyst til þess að hugsa um þau því þannig dafni þau. Jóhannes Gissurarson, oddviti Skaftárhrepps, óskaði þjóðgarðinum til hamingju með nýja gestastofu. Hann tilkynnti einnig að sveitarfélagið hygðist gefa fána og fánastöng til að reisa við bygginguna.

Ýmsir fleiri tóku til máls og að því loknu söng Kirkjukór Prestbakkakirkju eitt lag.

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis- orku- og loftslagsráðherra, ávarpar samkomuna / Guðrún Stefanía Vopnfjörð Ingólfsdóttir

Fjölmargir gestir sóttu opnunina / Guðrún Stefanía Vopnfjörð Ingólfsdóttir

Seinni hluti hátíðarinnar var svo tileinkaður Skaftáreldum, en þann 7. febrúar síðastliðinn voru 240 ár liðin frá goslokum. Þorvaldur Þórðarson, prófessor í eldfjallafræði hjá Háskóla Íslands, fór yfir sögu Skaftárelda og áhrif þeirra á Íslandi sem og í Evrópu, og bar magn gjósku og hrauns saman við það sem við höfum séð á Reykjanesinu á undanförnum misserum.

Steinunn Sigurðardóttir, rithöfundur og fulltrúi í svæðisráði flutti ljóð og Lilja Magnúsdóttir kynnti vefinn sinn www.eldsveitir.is sem inniheldur ýmsan fróðleik um Skaftárhrepp, t.d. sögur um Kötlugos og lífið á svæðinu á árum áður.

Þorvaldur Þórðarson, prófessor í eldfjallafræði / Guðrún Stefanía Vopnfjörð Ingólfsdóttir

Steinunn Sigurðardóttir, rithöfundur / Guðrún Stefanía Vopnfjörð Ingólfsdóttir

Að lokum sagði Fanney frá höfðinglegri gjöf Kára Kristjánssonar, en hann afhenti Vatnjökulsþjóðgarði nýlega ljósmyndasafn sitt, sem inniheldur um 10.000 ljósmyndir, frá störfum hans sem landvörður, víðsvegar um hálendið. Gestir fengu svo að njóta hluta þeirra á meðan þeir gæddu sér á léttum veitingum í lok dagskrár.

Við þökkum gestum kærlega fyrir komuna og samveruna á opnunarhátíðinni.
Hlökkum til að taka á móti ykkur í Skaftárstofu.

Gestir að njóta veitinga eftir dagskrárlok / Helga Mattína