Um Kverkfjöll

Kverkfjöll eru mikil megineldstöð í norðurbrún Vatnajökuls og þriðji hæsti fjallbálkur landsins á eftir Öræfajökli og Bárðarbungu. Tvær jökulfylltar öskjur eru taldar vera í Kverkfjöllum og á Kverkfjallahrygg. Er syðri askjan jökli hulin en rimar þeirrar nyrðri eru að mestu íslausir nema að sunnanverðu; liggja þeir í um og yfir 1800 m hæð. Hæst rís Skarphéðinstindur á austanverðu fjallinu í 1936 metra hæð yfir sjávarmál. Skipta má Kverkfjöllum í eystri og vestari hluta um Kverk sem er mikið skarð í fjöllin norðanverð með geysiháum þverhníptum hamraveggjum. Út um Kverk skríður Kverkjökull til norðvesturs niður undir hásléttuna í um 900 metra hæð. Beggja vegna Kverkfjalla falla frá ísaskilum langt suður á Vatnajökli afar stórir skriðjökulskildir aflíðandi norður á hásléttuna, í vestri er Dyngjujökull en Brúarjökull í austri.

Kverkfjallarani er að meginhluta byggður upp af samsíða móbergshryggjum, 5-6 talsins, og fara hnjúkar hækkandi eftir því sem nær dregur Kverkfjöllum. Sigdalur sem Hraundalur kallast liggur um ranann endilangan með stefnu á Kverk og skiptir honum í Austur- og Vesturrana. Niður í innsta hluta hans skríða urðarjöklar frá Kverkfjöllum eystri.

Jökuláin Kreppa fellur undan vesturjaðri Brúarjökuls en Jökulsá á Fjöllum í mörgum kvíslum undan Dyngjujökli. Vatnsmestu kvíslar Jökulsár koma undan jökli rétt vestan Kverkfjalla en lengra til vesturs hverfa kvíslar niður í sandorpin hraun. Þar sest til fínn jökulleir sem þyrlast upp í vindi og verða af miklir misturstrókar sem taka fyrir útsýni og geta borist langar leiðir.

Leiðir til Kverkfjalla

Fornar heimildir og munnmæli benda til mannaferða yfir Vatnajökul á miðöldum en jökullinn var þá nokkru minni en síðar varð, sbr. nafnið Klofajökull. Ekki er ólíklegt að leið Norðlendinga suður yfir jökul hafi legið upp austan Kverkfjalla. Fyrstur til að ganga á Kverkfjöll var þýski jarðfræðingurinn Trautz árið 1910. Sumarið 1970 var Kreppa brúuð suðvestur af Arnardal og rudd akslóð inn Krepputungu um Hvannalindir og Kverkhnjúkaskarð að Kverkfjöllum. Þar vestan undir Virkisfelli var reistur Sigurðarskáli í gamalli gígskál sumarið 1971 með sameiginlegu átaki Ferðafélags Fljótsdalshéraðs, Vopnafjarðar og Húsavíkur, kenndur við Sigurð Egilsson, forgöngumann í ferðamálum á Húsavík.

Vestan úr Ódáðahrauni liggur svonefnd Austurleið [F910] yfir brú sem byggð var yfir Jökulsá á Fjöllum rétt sunnan Upptyppinga árið 1986. Út frá henni liggur Kverkfjallaleið [F902] suður til Kverkfjalla. Austurleið heldur áfram austur yfir Krepputungu en við Kreppuháls greinist frá henni Hvannalindavegur [F903] suður í Hvannalindir.

Jarðfræði Kverkfjalla

Kverkfjöll eru við austurjaðar Norðausturlandsrek- og gosbeltisins sem teygir sig norður í Öxarfjörð og Sléttu. Svo sem títt er um megineldstöðvar liggja út frá aðaleldfjallinu sprungureinar, nánast til suður og norðurs. Á síðasta jökulskeiði hlóðust þar upp móbergshryggir og hnjúkaraðir á gossprungum undir jökli. Kverkfjallahryggur gengur til suðvesturs undir Vatnajökul en Kverkfjallarani blasir við sem feiknamikil hnjúkaþyrping sem teygir sig 30 km til norðausturs frá Kverkfjöllum. Að meginhluta til hafa Kverkfjöll byggst upp í eldgosum á síðasta jökulskeiði. Er talið að goshrinur hafi verið um 40 talsins og hver þeirra skilað að meðaltali um 0,1 rúmkílómetrum af gosefnum.

Í Kverkfjallarana er afar mikið um misgengi. Þar hafa orðið nokkur hraungos eftir að jökla leysti fyrir um 10 þúsund árum og er Biskupsfellgossprungan og svo aftur Lindahraun taldar yngstu gosmenjarnar, þær fyrrnefndu 1000 - 2000 ára en Lindahraun yngra en 2800 ára. Hraunin hafa oftast verið þunnfljótandi og liðast nú eins og ár í steingerðum fossum og flúðum niður um hlíðar móbergshnjúkanna en þeir hafa margir úðast hraunkleprum og gjalli.

Eldgosum í Kverkfjöllum og undir Dyngjujökli hafa á liðnum árþúsundum fylgt mikil flóð í Jökulsá á Fjöllum.

Jarðhiti í Kverkfjöllum

Eitt öflugasta háhitasvæði landsins er að finna í Kverkfjöllum vestari. Tengist það misgengi með sigstalli. Hverasvæðið er um 3 km á lengd og allt að 1 km á breidd og liggur í 1600 -1700 m hæð yfir sjó. Efst og syðst er Hveradalur, aðskilinn með Þrengslum frá Hveraskál [Neðri-Hveradal], sem er víð geil mót norðvestri að Dyngjujökli. Norðan í skarðinu er Gámur, einn öflugasti gufuhver landsins. Norður frá Hveraskál liggur hryggur og ofan við hann lægð og mynda þau til samans jarðhitarein sem nefnd hefur verið Hveratagl. Gönguleið frá Kverkjökli liggur skáhallt upp Löngufönn inn á hrygginn og áfram með brúnum upp í skála Jöklarannsóknafélagsins.

Innst í Hveradal er allstórt lón, oft ísi lagt en tæmist stundum. Annað lón eða stöðuvatn er í ketilsigi í jöklinum rétt austur af skála Jöklarannsóknafélagsins. Er sigið um 600 m breitt og 100 m djúpt. Það myndaðist árið 1959 í eins konar sprengigosi í tengslum við jarðhita. Þá eru og hitur ofarlega í Skarphéðinstindi og víðar í Kverkfjöllum eystri.

Austan Kverkfjalla er jarðhita að finna í Hveragili á um 2 km löngum kafla og eru þar víða 40 til 60 gráðu heitar laugar. Í gilinu eru fallegar kalkútfellingar og bólstraberg.

Í ánni sem kemur undan Kverkjökli er vottur af jarðhitavatni sem veldur því að íshellir myndast yfir farveginum. Mikil hellakerfi eru í Kverkjökli og nágrenni og hafa franskir hellakönnuðir komist um hluta þeirra.

Gróður í Kverkfjöllum

Kverkfjöll og Kverkfjallarani liggja hærra en svo að þar þrífist samfelldur gróður. Þar er því aðeins að finna mela- og fjallaplöntur á stangli og ná einstaka tegundir í um og yfir 1400 metra hæð, t.d. jöklasóley. Nokkuð er um lágplöntur, svo sem mosa og skófir. Á hraunum er víða áberandi ljósgrá skóf sem nefnist öræfaostur (Stereocaulon arcticum). Við volgar lindir í Hveragili er gróskumikið á blettum og stingur það í stúf við auðnina allt um kring.