Beint í efni

Eldur, ís og mjúkur mosi á Barnamenningarhátíð og Hönnunarmars

Náttúruminjasafn Íslands og Vatnajökulsþjóðgarður tóku þátt í Barnamenningarhátíð og Hönnunarmars í ár með sýningunni Eldur, ís og mjúkur mosi.

30. apríl 2024
Sýningin Eldur, ís og mjúkur mosi stendur til 6. maí 2024 í sýningarrými Náttúruminjasafns Íslands á 2. hæð Perlunnar.

Náttúruminjasafn Íslands og Vatnajökulsþjóðgarður tóku þátt í Barnamenningarhátíð og Hönnunarmars í ár með sýningunni Eldur, ís og mjúkur mosi. Sýningin er afrakstur samstarfs stofnananna við sex grunn- og leikskóla í nágrenni þjóðgarðsins auk eins á höfuðborgarsvæðinu, og breiðs hóps hönnuða og listafólks í heimabyggð skólanna.
Sýningin, sem stendur yfir 23. apríl – 6. maí í sýningarrými Náttúruminjasafns Íslands á 2. hæð Perlunnar, er samsýning nemenda í Egilsstaðaskóla, Grunnskóla Hornafjarðar, Grunn- og leikskólans í Hofgarði, Kirkjubæjarskóla á Síðu, Reykjahlíðarskóla, Urriðaholtsskóla og Öxarfjarðarskóla.


Nemendur í 1.-3. bekk í Kirkjubæjarskóla á Síðu unnu með hugmyndir um furðuverur þar sem ímyndunaraflinu var gefinn laus taumur.

Þessa geimfara bjuggu nemendur í Reykjahlíðarskóla til eftir að hafa fengið fræðslu frá starfsfólki Vatnajökulsþjóðgarðs um geimæfingar Nasa við Öskju á sumrin.

Ísjakarnir sem nemendur í Grunnskóla Hornafjarðar gerðu eru út frá sjónarhorni sela.

Verkefnið hlaut styrk frá Barnamenningarsjóði Íslands og síðastliðinn vetur hafa verið haldnar skapandi og fjölbreyttar smiðjur í grunn- og leikskólum í nágrenni Vatnajökulsþjóðgarðs og á höfuðborgarsvæðinu.Nemendur skólannaþróuðu síðan verkefnin sín í samvinnu við listafólk og kennara í allan vetur. Verkefnið miðaði að því að beisla sköpunarkraft barnanna, sem fengu vettvang til að túlka náttúru garðsins, verndargildi hans og sögu með aðstoð hönnuða og listafólks í fremstu röð. Í gegnum listræn ferli sköpuðust dýrmætar tengingar milli barnanna og Vatnajökulsþjóðgarðs, sem auka á meðvitund framtíðarkynslóðanna um þá sameign þjóðarinnar sem þjóðgarðurinn er.

Nemendur í 5.-10. bekk í Öxarfjarðarskóla endursköpuðu Jökulsárgljúfur í stóru textílverki með listakonunni Jennifer Patricia Please.

Nemendur í Egilsstaðaskóla gerðu listaverk innblásið af ferðalagi Flumbru í skáldsögunni Ástarsaga úr fjöllunum eftir Guðrúnu Helgadóttur.

Listafólkið sem tók þátt í verkefninu með nemendum voru Brynhildur Kristinsdóttir, Eva Bjarnadóttir, Hanna Dís Whitehead, Íris Lind Sævarsdóttir, Jennifer Patricia Please, Sigríður Sunna Reynisdóttir í ÞYKJÓ, Sóley Stefánsdóttir, Una Margrét Árnadóttir og Örn Alexander Ámundason.Starfsfólk Vatnajökulsþjóðgarðs og Náttúruminjasafnsins voru í virku samtali við skóla og listafólk meðan á verkefninu stóð, ýmist buðu stofnanirnar nemendum í heimsókn á gestastofur og sýningar eða komu í skólana og kynntu þjóðgarðinn.

Í tilefni sýningarinnar og hátíðanna beggja var blásið til fjölskylduviðburðar laugardaginn 27. apríl í sýningarrými Náttúruminjasafnsins. Hanna Dís Whitehead, hönnuður sem vann í vetur með Grunnskóla Hornafjarðar í verkefninu, stóð fyrir skapandi hönnunarsmiðju þar sem börn og fjölskyldur bjuggu til fugla sem tókust á loft. Leikið var með vikur, ís og vatn og mosi skoðaður í víðsjám. Mörg lögðu leið sína til safnsins til þess að taka þátt í viðburðinum og til að skoða glæsilega listasýningu barnanna sem túlkuðu náttúru Vatnajökulsþjóðgarðs á frábæran og skemmtilegan hátt.

Nemendur í Grunn- og leikskólanum í Hofgarði veltu fyrir sér hvernig fáninn okkar væri ef hann væri gerður út frá eld, ís og mjúkum mosa.

Nemendur í 7.-8. bekk í Urriðaholtsskóli túlkuðu Vatnajökulsþjóðgarð í fjölbreyttum verkum sem gefa hvert á sinn hátt innsýn inn í hinn heillandi heim þjóðgarðsins.

Hanna Dís Whitehead, hönnuður, leiddi fuglasmiðju á fjölskylduviðburði Náttúruminjasafnsins og Vatnajökulsþjóðgarðs laugardaginn 27. apríl

Starfsfólk Náttúruminjasafn Íslands og Vatnajökulsþjóðgarðs vill nýta tækifærið og þakka nemendum, listafólki og kennurum kærlega fyrir samstarfið og við hvetjum ykkur öll til að gera ykkur ferð á sýninguna í Perlunni!

Fleiri myndir og nánari upplýsingar um verkefnið er að finna hér á vef Náttúruminjasafnsins