Beint í efni

Kreppubrú

Ein af megin inngönguleiðum inn í þjóðgarðinn norðan jökuls er um Kreppubrú. Kreppa er ein af fjórum stórum jökulsám sem rennur undan vesturjaðri Brúarjökuls og sameinast Kverká nokkru norðar og svo Jökulsá á Fjöllum nyrst í Krepputungu. Áin var brúuð sumarið 1970. Þegar komið er yfir Kreppubrú inn í þjóðgarðinn tekur við áningarstaður þar sem gott er að teygja úr sér og nýta þurrsalernið fyrir áframhaldandi ferðalag.

Gönguleiðir

Horft yfir Kverkfjöll

Kverkfjöll

Kverkfjöll eru mikil megineldstöð í norðurbrún Vatnajökuls og þriðji hæsti fjallbálkur landsins á eftir Öræfajökli og Bárðarbungu.

Hvannalindir

Hvannalindir eru gróðurvin í um 640 m hæð norðan undir Lindahrauni í skjóli af Lindafjöllum og Krepputunguhraunum að vestan og Kreppuhrygg að austan. Lindaá fellur úr suðri niður með hraunjaðrinum við Kreppuhrygg. Í Hvannalindum bætist henni Lindakvísl úr suðvestri þar sem kvíslin liðast milli gróinna bakka fram hjá stökum gíghól sem nefnist Lindakeilir.

Askja

Askja er sigdæld í megineldstöðinni Dyngjufjöllum og miðja eldstöðvakerfis með mörgum gosspungum, m.a. Sveinagjárgígaröðinni. Dyngjufjöll hlóðust upp við gos undir ísaldarjökli en Askja myndaðist að stórum hluta í lok ísaldar við stórfellt gjóskugos en þá seig þak kvikuþróarinnar sem er hjarta megineldstöðvarinnar. Eftir varð djúp, hringlaga lægð er síðar tók við hraunum úr eldgosum er urðu á jöðrum sigdældarinnar. Botn Öskju, sem nefnd er eftir öskjulögun sinni, er nú í um 1.100 metra hæð yfir sjávarmáli en hæstir eru barmarnir í 1.300 til rúmlega 1.500 m hæð. Sams konar fyrirbæri í öðrum megineldstöðvum nefnast öll öskjur.

Herðubreiðarlindir