Beint í efni

Jökulsárgljúfur

  • Óvissustig vegna landriss í Öskju

    Ríkislögreglustjóri í samráði við Lögreglustjórann á Norðurlandi Eystra lýsir yfir óvissustigi vegna landriss í Öskju. Lesa meira

Um Jökulsárgljúfur
– Komdu í heimsókn

Jökulsárgljúfur voru friðlýst sem þjóðgarður árið 1973 og hafa frá 2008 verið hluti af Vatnajökulsþjóðgarði. Svæðið er í Norðurþingi og nær frá Dettifossi í suðri að Ásbyrgi í norðri. Jökulsá á Fjöllum, farvegir hamfaraflóða og augljós merki um eldvirkni setja sterkan svip á svæðið. Vistgerðir eru breytilegar: syðst eru melar og sandar, um miðbikið mó- og votlendi og nyrst er skóglendi einkennandi. Fuglalíf er þar af leiðandi fjölbreytt.

Aðgengi og þjónusta

Gott aðgengi er að Jökulsárgljúfrum hvort sem komið er eftir þjóðvegi 85 úr Kelduhverfi eða frá þjóðvegi 1 á Mývatnsöræfum. Vestanmegin Jökulsár á Fjöllum liggur Dettifossvegur (vegnúmer 862). Svæðið er aðgengilegt allt árið um kring svo lengi sem færð og veður leyfir. Svæðið er paradís göngufólks. Utan sumarmánaðanna geta aðstæður breyst hratt og nauðsynlegt að leita upplýsinga fyrir heimsókn. Góð salernisaðstaða er við helstu áfangastaði. Í Ásbyrgi er einkarekin veitingasala, kjörbúð og árstíðabundin ferðaþjónusta.

Fræðsla og upplýsingagjöf

Landverðir sinna eftirliti, fræðslu og upplýsingagjöf á svæðinu allt árið um kring. Rík og löng hefð er fyrir skipulagðri fræðsludagskrá landvarða í Jökulsárgljúfrum yfir sumarið. Gljúfrastofa, gestastofa Jökulsárgljúfra í Ásbyrgi, er opin allt árið um kring. Meðfram Dettifossvegi (862) eru áningarstaðir með fræðsluskiltum. Innst í botni Ásbyrgis er gestagata þar sem viðfangsefnið er nýting plantna og þjóðtrú í tengslum við plöntur.

Fræðsludagskrá Vatnajökulsþjóðgarðs er í gildi yfir sumarið þar sem boðið er uppá fjölbreyttar göngur og fræðslu vítt og breitt um þjóðgarðinn. Hægt er að kynna sér fræðslugöngur sumarsins í Jökulsárgljúfri með því að ýta á hlekkinn.

Gljúfrastofa í Ásbyrgi

Gljúfrastofa í Ásbyrgi er gestastofa Vatnajökulsþjóðgarðs í Jökulsárgljúfrum. Þar er falleg fræðslusýning og þar er hægt að nálgast allar upplýsingar um þjóðgarðinn og nágrenni hans; gönguleiðir, náttúrufar, sögu, þjónustu og afþreyingu.

Tjaldsvæði, Ásbyrgi

Tjaldsvæðið í Ásbyrgi

Í Ásbyrgi er stórt tjaldsvæði með aðstöðu fyrir tjöld, fellihýsi og húsbíla. Rafmagnstengi eru á tjaldsvæðinu. Tjaldsvæðið er opið frá maí til enda október ár hvert. Vorið 2024 verður tjaldsvæðið opnað 20. maí.

Náttúra og saga
- fræðsla og uppgötvun

Jökulsárgljúfur og umhverfi þeirra hafa heillað margan ferðalanginn. Fossasamstæða Jökulsár á Fjöllum með Selfoss, Dettifoss, Hafragilsfoss og Réttarfoss á sér fáa líka á jörðinni. Stórkostlegt umhverfi Jökulsárgljúfra er mótað af vatni, eldum og ís. Gífurleg hamfarahlaup eru talin hafa myndað og mótað gljúfur, gil, klappir og byrgi. Frægust þessara jarðmyndanna er Ásbyrgi. Hljóðaklettar eru innviðir fornra eldstöðva sem Jökulsá hefur sópað öllu lausa gosefninu í burtu en litlu norðar standa Rauðhólar, hinir upprunalegu gjallgígar.

Jökulsá á Fjöllum

Jökulsá á Fjöllum á upptök í Vatnajökli og rennur til sjávar í Öxarfjörð. Við hálendisbrúnina lækkar landið og áin steypist í stórum fossum niður í gljúfrin sem eru við hana kennd. Jökulsárgljúfur eru ein stærstu og hrikalegustu árgljúfur á Íslandi, um 25 km löng, ½ km á breidd og dýptin víða um eða yfir 100 m. Jökulsá á Fjöllum er skapanorn Jökulsárgljúfra. Í árþúsundir hefur áin grafið gljúfrin, dyggilega studd af hamfarahlaupum úr Vatnajökli. Vatnasvið Jökulsár á Fjöllum er það stærsta á landinu og nánast ósnortið af umsvifum mannsins. Á svæðinu gefst einstakt tækifæri til að öðlast skilning á eðli jökuláa og áhrifum þeirra á landmótun og lífríki lands og sjávar. Óvíða er hægt að upplifa krafta jökuláa eins sterkt og í námunda við Jökulsá á Fjöllum.

Rauðhólar, Jökulsárgljúfur
Jökulsárgljúfur, Hljóðaklettar, stuðlar

Eldvirkni og hamfarahlaup

Jökulsárgljúfur eru mynduð af einstöku samspili elda og vatns og má víða sjá jarðmyndanir sem bera þess vitni. Gljúfrin tengjast norðurgosbeltinu og þrír sprungusveimar, kenndir við Kröflu, Fremrináma og Öskju, liggja um svæðið. Á a.m.k. tveimur þeirra gaus eftir ísöld og víða í Gljúfrum má sjá ummerki þeirrar eldvirkni. Gríðarstór og kraftmikil hamfarahlaup með upptök undir Vatnajökli komu í Jökulsá á Fjöllum, síðast fyrir um 2000 árum, grófu út Jökulsárgljúfur og Ásbyrgi og breyttu varanlega því landslagi sem eldarnir höfðu áður mótað. Hlaupin voru með þeim stærstu sem orðið hafa á jörðinni frá síðustu ísöld og rofmáttur þeirra gríðarlegur. Fyrir tilstuðlan holunar – krafts sem splundrar bergi stuðul fyrir stuðul – plokkaðist úr basalthrauninu í þessum miklu hlaupum. Í Jökulsárgljúfrum má sjá ummerki þeirra krafta og aðrar jarðmyndanir sem einkenna forna farvegi hamfarahlaupa.