Um Jökulsárgljúfur

Um þjóðgarðinn

Þjóðgarðurinn í Jökulsárgljúfrum var stofnaður árið 1973 . Hann er í Kelduneshreppi, Norður-Þingeyjarsýslu og nær með Jökulsá að vestan, frá Dettifossi norður að þjóðvegi 85, um 30 km vegalengd og flatarmál hans er um 120 km2. Þjóðgarðurinn er nú hluti Vatnajökulsþjóðgarðsins.  Gestastofa þjóðgarðsins, Gljúfrastofa, er í mynni Ásbyrgis. Þar er hægt að nálgast allar upplýsingar um þjóðgarðinn og nágrenni hans. Í Gljúfrastofu er sýning um náttúru og sögu Jökulsárgljúfra. 

 

Jökulsárgljúfur

Jökulsá á Fjöllum á upptök í Vatnajökli og rennur til sjávar í Öxarfjörð. Við hálendisbrúnina lækkar landið og áin steypist í stórum fossum niður í gljúfrin sem eru við hana kennd. Jökulsárgljúfur eru ein stærstu og hrikalegustu árgljúfur á Íslandi, um 25 km löng, ½ km á breidd og dýptin víða um eða yfir 100 m.

Jökulsárgljúfur og umhverfi þeirra hafa heillað margan ferðalanginn. Fossasamtæða Jökulsár á Fjöllum með Selfoss, Dettifoss, Hafragilsfoss og Réttarfoss á sér fáa líka á jörðinni. Stórkostlegt umhverfi Jökulsárgljúfra er mótað af vatni, eldum og ís. Gífurleg hamfarahlaup eru talin hafa myndað og mótað gljúfur, gil, klappir og byrgi. Frægust þeirra er Ásbyrgi. Hljóðaklettar eru innviðir fornra eldstöðva sem Jökulsá hefur sópað öllu lausa gosefninu í burtu en litlu norðar standa Rauðhólar, hinir upprunalegu gjallgígar.

Í Hólmatungum fara saman miklar andstæður, ótal lækir og lindir renna þar út í beljandi, aurugt stórfljótið. Í skjóli hamra og kletta þrífst fjölbreytt samspil gróðurs og dýralífs.

 

Ásbyrgi

Ásbyrgi er stórkostleg náttúrusmíð með allt að 100 m háum hamraþiljum, sem hækka eftir því, sem innar kemur í gljúfrið. Innst er Botnstjörn með mikilli grósku allt um kring. Ásbyrgi er 3,5 km langt og um 1,1 km breitt. Í miðju þess er standberg, Eyjan, sem er allt að 250 m breið. Byrgið er skógi vaxið, einkum birki og víðir auk reynis og nokkur þúsund barrtré voru gróðursett þar og dafna vel. Fýllinn verpir í þvernhníptum hömrunum en aðrir fuglar í trjáreitum og móum.

Talið er að Ásbyrgi hafi myndast við að minnsta kosti tvö hamfarahlaup úr norðanverðum Vatnajökli, annað fyrir 8-10 þúsund árum en hið síðara fyrir u.þ.b. 3 þúsund árum. Síðan hefur Jökulsá fært sig til austurs. Þjóðsagan segir að hinn áttfætti hestur Óðins, Sleipnir, hafi stigið þar niður fæti þegar goðið var á yfirreið.  Ásbyrgi er í eigu Skógræktar ríkisins, en er innan þjóðgarðsins og í umsjá hans.

 

Dettifoss

Dettifoss er talinn öflugasti foss Evrópu. Hann er 44-45 m hár og um 100 m breiður. Ofan hans er Selfoss, 10 m hár, og neðan hans er Hafragilsfoss, 27 m hár. Komast má að Dettifossi bæði að austanverðu og vestanverðu. Hvorum megin sem komið er að fossinum, verður að fara með gát.

Hugmyndir voru uppi um virkjun vatnsaflsins í gljúfrunum, en þær strönduðu á því að hraunlögin eru of gropin til að halda vatni í uppistöðulóni. Á austurbarmi Jökulsárgljúfra nálægt Hafragilsfossi er þversnið í gíg á gossprungu sem kennd er við Randarhóla.