Tillaga að deiliskipulagi vegna fyrirhugaðrar smávirkjunar við Drekagil liggur nú frammi til umsagnar.

Neyðarlínan ohf áformar að koma upp smávirkjun í ána sem rennur úr Drekagili í þeim tilgangi að rafvæða fjarskiptastöð fyrirtækisins á Vaðöldu. Gert er ráð fyrir að sumarrennsli dugi fyrir um 30 kW orkuframleiðslu, og áætlað vetrarrennsli fyrir um 10 kW. Áætlað er að fjarskiptastöðin muni nota um 5 kW, og umframorka yrði nýtt til að halda varma á skálunum í Dreka.   Fyrirhuguð fallpípa frá inntaki yrði um 300 m að lengd og 0,5 m í þvermál og er hún niðurgrafin alla leið, norðan árinnar, að um 8 m² stöðvarhúsi sem staðsett yrði um 600 m suðaustan við skálana.  Gert er ráð fyrir að leggja um 10 km langan jarðstreng frá fyrirhugaðri virkjun að fjarskiptastöðinni á Vaðöldu.  Tillögunni fylgir umhverfisskýrsla sem er unnin skv. lögum um umhverfismat áætlana nr. 105/2006.

Tillöguuppdráttur ásamt greinargerð munu liggja frammi á skrifstofu Skútustaðahrepps, Hlíðavegi 6, 660 Mývatni frá og með fimmtudeginum 26. apríl til og með fimmtudeginum 7. júní 2018.  Þá eru tillögurnar einnig aðgengilegar á heimasíðu Skútustaðhrepps:  http://www.skutustadahreppur.is undir Skipulagsauglýsingar (efst á forsíðu).

Frestur til að skila inn athugasemdum rennur út fimmtudaginn 7. júní 2018.  Þeim sem telja sig eiga hagsmuna að gæta er gefinn kostur á að gera athugasemdir við tillöguna innan tilskilins frests.  Skila skal athugasemdum skriflega til skrifstofu Skútustaðahrepps, Hlíðavegi 6, 660 Mývatni og/eða í tölvupósti á netfangið: bjarni@thingeyjarsveit.is.  Þeir sem ekki gera athugasemdir við tillöguna teljast henni samþykkir.

Greinargerð [343 KB]

deiliskipulag - uppdráttur [16 mb]


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?