Um Öskju

Askja er sigdæld í megineldstöðinni Dyngjufjöllum og miðja eldstöðvakerfis með mörgum gosspungum, m.a. Sveinagjárgígaröðinni. Dyngjufjöll hlóðust upp við gos undir ísaldarjökli en Askja myndaðist að stórum hluta í lok ísaldar við stórfellt gjóskugos en þá seig þak kvikuþróarinnar sem er hjarta megineldstöðvarinnar. Eftir varð djúp, hringlaga lægð er síðar tók við hraunum úr eldgosum er urðu á jöðrum sigdældarinnar. Botn Öskju, sem nefnd er eftir öskjulögun sinni, er nú í um 1.100 metra hæð yfir sjávarmáli en hæstir eru barmarnir í 1.300 til rúmlega 1.500 m hæð. Sams konar fyrirbæri í öðrum megineldstöðvum nefnast öll öskjur.

Botn Öskju er þakinn úfnum apalhraunum. Í suðausturhorninu er Öskjuvatn sem varð til við jarðfall (öskjusig) í eldsumbrotum 1875. Öskjuvatn er dýpsta stöðuvatn landsins, rúmlega 200 m á dýpt. Víða eru eldstöðvar í öskjunni og þeirra á meðal er sprengigígurinn Víti sem varð til í lok gossins 1875. Vatn hefur safnast í Víti og er hitastig þess breytilegt, allt eftir því hve mikið leysingarvatn rennur í það, en hitinn er jafnan yfir 30° C. Dýpt þess er mest í miðjunni, liðlega 8 metrar. Vinsælt er að baða sig á þessum einstaka stað en vert er að vara ferðamenn við, ef þeir hyggja á bað í Víti, að stígurinn niður er mjög háll í votviðri og verulegur hiti er í leðjunni í botninum sérstaklega við austurbakkann. Hætta getur verið á að grjót falli úr börmunum.

Eldsumbrot í Öskju hafa verið nokkur á sögulegum tíma og áttu þau m.a. sinn þátt í að hrekja fólk frá Austurlandi eftir 1875. Síðast gaus Askja 1961 þegar Vikrahraun rann. Bandarískir geimfarar voru þjálfaðir þá þessu svæði vegna þess að landslag þótti svipa til landslags á tunglinu. Stórbrotin og mikilfengleg náttúra Öskju verður ógleymanleg öllum þeim sem hana sækja heim.

Árið 1875, varð öflugt eldgos í suðurhorni Öskju, þar sem nú er Öskjuvatn. Um 2,5 km3 af gosefnum ruddust upp úr gossprungunni á nokkrum klukkutímum. Þarna varð svipuð atburðarás og myndaði Öskju. Þak kvikuþróarinnar undir suðurhluta öskjunnar tók að síga niður eftir gosið og þegar því lauk var sigið orðið um 250 metra djúpt. Sigdældin fylltist smám saman af vatni og til varð Öskjuvatn, sem er um 220 metra djúpt, dýpsta stöðuvatn á Íslandi. Á árabilinu 1922-1929 urðu nokkur lítil eldgos við jaðra þessarar nýju sigdældar. Einnig gaus í Vikraborgum árið 1961. Enn mælast jarðskorpuhreyfingar í Öskju og botn hennar hefur sigið nokkuð. Eitt er víst að þetta náttúrufyrirbæri er í "fullu fjöri" og mun í framtíðinni af og til minna á að landið er í sífelldri mótun.

Ódáðahraun, norðan Vatnajökuls, er um 5.000 ferkílómetra víðerni sem afmarkast af Bárðardalsdrögum í vestri og Jökulsá á Fjöllum í austri og af Mývatnsöræfum í norðri. Þar eru nokkrar gróðurvinjar, svo sem Surtlu- og Marteinsflæða suðvestan til, Suðurárbotnar norðan til en austan megin eru Grafarlönd og Herðubreiðarlindir. Um mitt hraunið liggur gosbelti úr suðvestri frá Dyngjufjöllum en hraunbreiðan er komin úr nokkrum eldstöðvum á mismunandi tímum.

Þeir sem telja sig þekkja landið fullyrða margir að Askja sé magnþrungnasti staður á Íslandi. Hún er ekki einungis stórbrotið náttúrufyrirbæri heldur á hún sér afar dularfulla sögu og harmþrungna. Árið 1907 hélt leiðangur þýskra vísindamanna inn í Öskju til rannsókna. Leiðangursstjóri var Walther von Knebel jarðfræðingur en auk hans voru þeir Hans Spethmann jarðfræðinemi og Max Rudloff málari. Skemmst er frá að segja að þeir Knebel og Rudloff munu hafa drukknað við rannsóknir í vatninu hinn 10. júlí 1907. Segldúksbátskrifli var kennt um dauða þeirra. Hans Spethmann var við jarðfræðiathuganir í fjöllunum norðaustan vatnsins daginn sem slysið varð. Vorið 1908 kom Ina von Grumbkow, unnusta Walthers von Knebels, hingað til lands til þess að leita ummerkja um þá félaga því að bæði voru sögusagnir á kreiki um hvarf þeirra og eins trúði hún því ekki að þeir gætu hafa horfið algerlega sporlaust. Eftir nokkra dvöl og leit við Öskjuvatn að unnusta sínum hvarf hún á braut. Hugsun hennar og orð á kveðjustundinni við vatnið lýsa þeim áhrifum sem umhverfið hefur á ferðalanginn:

Fáum dauðlegum mönnum er búin jafn konungleg gröf og þeim báðum, sem hér hvíla í þessu tígulega, bjarta fjallavatni. Konungar einir þarfnast eilífðar aðseturs í gröf sinni, þar sem þeir eru bornir til jarðneskrar hvíldar. Skyldu þeir, eftir mannlegum skilningi, njóta meira næðis sem hvíla í gullnum steinþróm Escorial-hallarinnar eða grafhýsum egypskra faraóa? Hér ríkir friður dýpstu alvöru á björtum sumardögum og dimmum vetrarstundum - öld eftir öld.

Áður en Ina yfirgaf Öskju hlóð hún og fylgdarlið hennar minnisvarða um þá félaga sem stendur enn. Hann er örskammt norðvestan við Víti og í honum er gestabók.

Við vesturbakka vatnsins, skammt frá Mývetningahrauni, er annar minnisvarði, varða með marmaraplötu í, kveðja frá austurrískum leiðangri sem stundaði rannsóknir sunnan Vatnajökuls 1950, til minningar um Walther von Knebel og Max Rudloff, en þar telja sumir að þeir hafi lagt í feigðarförina. Þangað er um 3-4 klst. ganga frá Víti.