Aðvaranir

Þrjár miklar jökultungur setja svip sinn á svæðið sem samanstendur af Hjallanesi vestan Kolgrímu og Heinabergi austan hennar. Er fágætt að finna jökla í jafnmiklu návígi við heilt byggðarlag. Ekki er óvanalegt að rekast á stórar hjarðir hreindýra á svæðinu.

Í Nesjum skammt norðan Hafnar í Hornafirði er Hoffell; fornt höfuðból í jaðri mikilla fjalla og Vatnajökull þar að baki. Hluti jarðarinnar er innan Vatnajökulsþjóðgarðs og hafa landeigendur byggt upp aðstöðu sem gerir ferðalöngum kleift að njóta svæðisins.

 

Vegasamgöngur

Hjallanes: Skammt vestan Kolgrímu er ekin heimreiðin að Skálafelli þar sem gönguleiðin um Hjallanes hefst.

Heinabergssvæðið: Frá þjóðvegi 1 liggur ruddur vegslóði um Heinabergssvæðið, fær velflestum bílum. Slóðinn hefst um 1,5 kílómetra austan við brúna yfir Kolgrímu og um þrjá kílómetra fyrir vestan Flatey á Mýrum. Er hann auðkenndur með skilti Vegagerðarinnar sem vísar á Heinabergsjökul og öðru skilti frá Vatnajökulsþjóðgarði sem vísar á Heinaberg.

Vegslóðinn liggur frá þjóðvegi 1 að bílastæði framan Heinabergsjökuls og þar er þurrsalerni sem gestum er velkomið að nota. Einnig er hægt að aka afleggjara til hægri skömmu áður en komið er að Heinabergsjökli og er þá hægt að keyra að bílastæðum við Heinaberg, Heina og Bólstaðafoss. Vegalengdir og áætlaður aksturstími eru sem hér segir:

Þjóðvegur 1 – Heinabergsjökull: 7,7 km, 15 mínútur.
Þjóðvegur 1 – Heinaberg: 7,2 km, 14 mínútur.
Þjóðvegur 1 – Heinar: 8,4 km, 16 mínútur.
Þjóðvegur 1 – Bólstaðafoss: 9,4 km, 18 mínútur.
Þjóðvegur 1 – öll bílastæðin – aftur að þjóðvegi: 24,6 km, 50 mínútur.


Hoffell: Frá þjóðvegi 1 eru um fjórir kílómetrar að ferðaþjónustunni í Hoffelli. Skömmu áður en þangað er komið má beygja til vinstri inn á vegslóða sem liggur að Hoffellsjökli. Leiðin að jöklinum er 4,5 km og tekur um 10 mínútur að aka hana. Hún er oftast fær flestum bílum, en þó getur litla áin sem rennur um dalinn vaxið mjög í rigningum. Áin, sem er kölluð Landræsi, flæðir þá yfir bakka sína og getur þá orðið talsvert vatn á veginum. 

 

Almenningssamgöngur

Strætó bs. er með reglubundnar ferðir milli Reykjavíkur og Hafnar í Hornafirði. Upplýsingar um áætlun eru á vefsíðu Strætó (www.straeto.is).

 

Gisting og veitingasala

Upplýsingar um gistingu og veitingar má finna á vefsíðu Ríkis Vatnajökuls.