Beint í efni

Breiðamerkursandur

Breiðamerkursandur varð hluti af Vatnajökulsþjóðgarði árið 2017 og er staðsettur í Sveitarfélaginu Hornafirði, vestur af Höfn. Jökulsárlón er eitt helsta kennileiti Breiðamerkursands ásamt Fjallsárlóni.

Náttúra

Á Breiðamerkursandi er vitnisburður um landmótun jökla hvað aðgengilegastur hér á landi. Svo orkuríkt er landið að á fremur stuttum tíma er hægt að nema atburðarás landbreytinga. Hraðastar eru breytingarnar á Breiðamerkurjökli, sérstaklega þar sem jökullinn kelfir í Jökulsárlón. Ísjakarnir eru eitt megin aðdráttarafl lónsins, sem ferðamenn sækjast eftir. Hitt er þó ekki síður mikilvægara að á Breiðamerkursandi eru varplönd ýmissa fuglategunda. Í svo svipmiklu og síbreytilegu landi eru stundaðar vísindarannsóknir, bæði á landmótun og þróun auk landnáms lífríkisins.

Á svæðinu er fjölbreytt dýralíf en nokkrar hreindýrahjarðir halda sig á austanverðum Breiðamerkursandi yfir vetrartímann og þarf þá að hafa aðgát þegar ekið er í gegnum svæðið þar sem þau eiga til að hlaupa yfir veginn.

Saga

Breiðamerkursandur er á milli Kvíár og Fellsár og var áður nefndur Breiðársandur eftir býlinu Breiðá. Örnefni í umhverfi sandsins eru vitnisburður um búsetu, allt frá fyrstu öldum Íslandsbyggðar. Þá voru jöklar minni en síðar varð og sandurinn þakinn gróðri. Á 13. öld tók veðurfar að kólna og í kjölfarið gengu jöklar fram. Breiðamerkurjökull gekk lengst fram á 18. og 19. öld. Munaði um 250 metrum þar sem styst var, að sporðurinn næði í sjó fram. Gríðarleg landmótun hefur átt sér stað á Breiðamerkursandi eftir að jökullinn fór að hopa í byrjun 20. aldar. Lón tóku að myndast upp úr 1930. Stærstu lónin eru Jökulsárlón, Breiðárlón og Fjallsárlón. Jökull kelfir í þau og lónin stækka með hverju ári við áframhaldandi hop. Landið sem birtist við hopið einkennist af setmyndunum, sem mótast hafa undir jökli.

Samkvæmt Landnámu hófst búseta á Breiðamerkursandi strax við upphaf landnáms fyrir tæpum 1100 árum síðan. Þá var landið skógi vaxið milli fjalls og fjöru að sögn Ara fróða er ritaði Íslendingabók. Erfitt er að gera sér í hugarlund að halda úti búskap á Breiðamerkursandi, hvað þá að reisa bæ á miðjum sandinum, eins og við þekkjum hann í dag. Skilyrðin hafa breyst svo um munar og náttúrufar erfiðara fyrir búskap en var á fyrstu öld landnámsins.

Gönguleiðir

B1

Jökulsárlón

1,2 km
15 mín
Auðveld

Gengið er frá aðalbílastæði í norður í átt að jöklinum og upp á jökulruðninginn sem er kallaður Helguhóll.

B2

Eystri-Fellsfjara

1 km
40 mín.
Auðveld

Falleg gönguleið sem liggur um Eystri-Fellsfjöru þar sem virða má fyrir sér ísjaka í svörtum sandi.

B3

Breiðármörk

15 km
4-5 klst.
Krefjandi

Þessi 15 km gönguleið liggur milli Fjallsárlóns og Jökulsárlóns.

B4

Fjallsárlón

1,5 km
45 mín
Krefjandi

Þessi gönguleið liggur um Fjallsárlón þar sem hægt er að virða fyrir sér fallegt lónið og Fjallsjökul.