Beint í efni
  • Þjónustugátt
  • Kortasjá
  • Leit
  • Opna

Árið í Vatnajökulsþjóðgarði: Helstu vörður 2023

Árið hefur verið viðburðarríkt í þjóðgarðinum og er hér stiklað á stóru.

3. janúar 2024

Ingibjörg Halldórsdóttir skipuð í embætti framkvæmdastjóra Vatnajökulsþjóðgarðs

Strax á nýju ári tók skipaði Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra Ingibjörgu Halldórsdóttur í embætti framkvæmdastjóra Vatnajökulsþjóðgarðs frá og með 1. janúar 2023. Ingibjörg hafði þá verið settur framkvæmdastjóri þjóðgarðsins frá 1. september sama ár.

Jón Helgi Björnsson nýr stjórnarformaður Vatnajökulsþjóðgarðs

Jón Helgi Björnsson tók við sem nýr stjórnarformaður þegar Auður H. Ingólfsdóttir lét af störfum um áramótin.

Mannamót 2023 – Suðursvæði fer á Mannamót

Í janúar 2023 fór starfsfólk Vatnajökulsþjóðgarðs á suðursvæði á Mannamót sem haldið var í Kórnum í Kópavogi. Vatnajökulsþjóðgarður hefur tekið þátt undanfarin ár og hefur sú hefð skapast að skipta þátttöku á milli svæða. Í ár var komið að starfsfólki Skaftafells, Breiðamerkursands og Hafnar að kynna sitt svæði sem og þjóðgarðinn allan. Markmið og tilgangur viðburðarins er að skapa vettvang þar sem þjónustuaðilar og fyrirtæki á landsbyggðinni fá tækifæri til að kynna sig og vöruframboð sitt fyrir ferðaþjónustuaðilum sem staðsettir eru á höfuðborgarsvæðinu.

Málþing Ferðamálastofu og Félags Íslenskra fjallaleiðsögumanna um öryggi ferðafólks

Þjóðgarðurinn tók þátt í málþinginu með erindinu: Tækifæri í Vatnajökulsþjóðgarði: Fagmennskan byrgir brunnin. Erindið fluttu Jóhanna Katrín Þórhallsdóttir og Steinunn Hödd Harðardóttir.

Ný gjaldskrá – innheimta svæðisgjalda á Jökulsárlóni

Í sumar hóf Vatnajökulsþjóðgarður að innheimta þjónustugjöld á Breiðamerkursandi. Verkefnið tókst vel og hefur Vatnajökulsþjóðgarður með þessu styrkt rekstur svæðisins á Breiðamerkursandi svo um munar.

Uppfærsla á skipuriti

Í febrúar 2023 tók í gildi uppfært skipulag á miðlægri skrifstofu þjóðgarðsins. Helsta breytingin á skipuritinu frá því sem áður var er sú að svið sem áður hét stjórnsýslusvið heitir nú svið stefnu og starfshátta ásamt því að Jóhanna Katrín Þórhallsdóttir hefur tekið við sem sviðstjóri.

Umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra í heimsókn á Höfn

Þann 1. febrúar tók starfsfólk suðursvæðis og aðalskrifstofu Vatnajökulsþjóðgarðs á móti Guðlaugi Þór Þórðarsyni, umhverfis- orku- og loftslagsráðherra, á skrifstofu Vatnajökulsþjóðgarðs í Nýheimum á Höfn í Hornafirði. Nýr stjórnarformaður Vatnajökulsþjóðgarðs, Jón Helgi Björnsson, var einnig með í för ásamt starfsfólki ráðuneytisins. Starfsfólk þjóðgarðsins tók vel á móti ráðherranum þar sem farið var í kynningarferð um skrifstofur Vatnajökulsþjóðgarðs sem staðsettar eru í Nýheimum Þekkingarsetri.

Nýr vefur þjóðgarðsins fer í loftið

Uppfærður vefur þjóðgarðsins fór í loftið á apríl á þessu ári. Til að byrja með náði uppfærslan einungis til íslenska hluta vefsins en enski vefurinn fór í loftið í júní.

Eldur, ís og mjúkur mosi fær styrk frá Barnamenningarsjóði Íslands

Í vor fékk verkefnið Eldur, ís og mjúkur mosi styrk úr Barnamenningarsjóð. Verkefnið er samstarf Vatnajökulsþjóðgarðs og Náttúruminjasafn Íslands og verður það unnið í samstarfi við listafólk og skóla í nágrenni þjóðgarðsins. Verkefnið fellur vel að markmiðum þjóðgarðsins er varðar fræðslu til nærsamfélags og skóla. Einnig styrkir það listamenn í heimabyggð og skapar umræður og viðburði sem tengjast náttúruvernd.

Ný skýrsla um talningar gefin út

Skýrslan ,,Talningar í Vatnajökulsþjóðgarði 2018-2022” var gefin út í apríl á árinu. Í skýrslunni er ferðamennska á hálendinu og á mið-Suðurlandi greind sérstaklega. Einnig er í skýrslunni að finna yfirlit um fjölda fyrir hvern og einn talningastað í þjóðgarðinum.

Sumarstarfsfólk mætir til starfa

Á hverju vori flykkist sumarstarfsfólk til okkar, eins og farfuglarnir, og gefur svæðinu meiri lit og líf. Sumarstarfsfólk er gríðarlega mikilvægur hlekkur í starfsemi okkar allsstaðar í þjóðgarðinum. Það sinnir mikilvægu viðhaldi á göngustígum, fer í fræðslugöngur með ferðafólk hvaðanæva úr heiminum, upplýsir ferðafólk og aðstoðar ásamt því að halda svæðinu snyrtilegu fyrir gesti.

15 ára afmæli Vatnajökulsþjóðgarðs og 50 ára afmæli þjóðgarðsins í Jökulsárgljúfrum

Vatnajökulsþjóðgarður fagnaði 15 ára afmæli 7. júní. Stofnun þjóðgarðsins markaði tímamót í sögu náttúruverndar á Íslandi. Hvorki fyrr né síðar hefur jafn stórt landsvæði verið verndað. Að auki á stjórnun þjóðgarðsins sér enga samsvörun á Íslandi en þjóðgarðurinn er samvinnuverkefni ríkis og sjö sveitarfélaga, landeiganda og fjölda annara hagsmunaaðila. Starfsfólk þjóðgarðsins gerði sér glaðan dag ýmist með grillveislu eða gæddi sér á afmælisköku.

Í tilefni 50 ára afmælis þjóðgarðs í Jökulsárgljúfrum var boðið til afmælishátíðar í botni Ásbyrgis sunnudaginn 18. júní. Mikið líf og fjör var á hátíðinni og veðurguðirnir komu gestum sífellt á óvart með fjölbreytilegu en mildu veðri.

Alþjóðlegur dagur landvarða

Alþjóðadagur landvarða er haldinn hátíðlega til að fagna störfum landvarða um allan heim sem leggja sig alla fram við að vernda náttúru- og menningarleg verðmæti. En einnig er dagurinn til að minnast landvarða sem hafa látist eða slasast við skyldustörf. Landverðir á Íslandi starfa víðsvegar um landið og hjá Vatnajökulsþjóðgarði eru um 80 landverðir að störfum yfir sumarið. Landverðir buðu í kaffi, kleinur og fræðslugöngur um garðinn í tilefni dagsins.

Þingeyjarsveit verður formlegur aðili að Gíg og sýningin Landvörður opnar

Í júlí undirrituðu Vatnajökulsþjóðgarður og Þingeyjarsveit samning um aðstöðu sveitarfélagsins í Gíg í Mývatnssveit. Í Gíg má finna gestastofu þjóðgarðsins og Umhverfisstofnunar en í húsnæðinu er einnig sameiginlegt skrifstofurými stofnananna sem og rannsóknarstofa Náttúrurannsóknarstöðvarinnar við Mývatn. Í gegnum Þingeyjarsveit öðlast Þekkingarnet Þingeyinga og HULDA náttúruhugvísindasetur einnig formlegan aðgang að Gíg.

Á sama tíma opnaði sýningin Landvörður eftir listakonuna Jessicu Auer í sýningarrými Gígs, en hún hefur áður verið sett upp í Ljósmyndasafni Reykjavíkur og Sláturhúsinu á Egilsstöðum. Sýningin stóð á gestastofunni fram á haustið og glæddi rýmið miklu lífi. Nú tekur við hönnun á sýningarrýminu og framkvæmdir í kjölfarið.

Auglýst eftir samningum um atvinnutengda starfsemi

Þann 1. ágúst var auglýst eftir umsóknum um samninga um atvinnutengda starfsemi í Vatnajökulsþjóðgarði. Samningarnir eru fyrir rekstraraðila sem vilja bjóða upp á íshellaferðir og/eða jöklagöngur á Breiðamerkursandi, Falljökli/Virkisjökli og/eða Skeiðarárjökli. Samningarnir gilda frá 1. október 2023 til 30. september 2024. Ekki var um eiginlegan umsóknarfrest að ræða, en markmiðið var að umsóknir sem bárust eftir 1. október myndu verða afgreiddar á 30 dögum. Því miður hefur ferlið dregist dálítið, en þegar þetta er ritað eru átján fyrirtæki með fullfrágengna samninga. Eitthvað vantar enn þá upp á hjá níu fyrirtækjum til viðbótar, en það horfir vonandi til betri vegar fljótlega.

Samstarf um stikun slóða á austurhálendi

Nú í sumar hófst samstarfsverkefni Vegagerðarinnar, Ferðaklúbbsins 4x4 og austursvæðis Vatnajökulsþjóðgarðs um stikun slóða á austurhálendinu. Ferðaklúbburinn átti frumkvæði að verkefninu þegar hann bauð síðastliðið sumar fram aðstoð sína við að sporna við utanvegaakstri á hálendinu.

Laugardaginn 2. september mættu sjálfboðaliðar frá austurlandsdeilds Ferðaklúbbsins og settu niður um 250 vegstikur á leiðinni frá Kárahnjúkavegi að Snæfellsskála og áfram í átt að Brúarjökli. Vegstikun sem þessi styður við náttúruvernd, er talin draga úr utanvegaakstri og eykur öryggi ferðafólks. Þetta á sérstaklega við í ferðalögum að vetri og þegar fennir á svæðinu að sumri. Mikil ánægja var með samstarfið hjá öllum sem að því komu og stefnt er að því að halda því áfram næstu sumur.

Innviðir styrktir í Lambhaga

Í Lambhaga einum vinsælasta áfangastað ferðafólks í Skaftafelli voru innviðir uppfærðir í takt við álag og náttúru.

Hvað býr í þjóðgarði opnar

Þann 31. ágúst opnaði sýningin Hvað býr í þjóðgarði? í sérsýningarrými Náttúruminjasafns Íslands í Perlunni. Sýningin er samstarfsverkefni Náttúruminjasafnsins og Vatnajökulsþjóðgarðs og er innblásin túlkun á þjóðgarðinum í heild sinni, landslagi hans, sögu og samfélaginu umhverfis garðinn. Sýningin er hönnuð sem farandssýning og mun ferðast um þjóðgarðinn á næstu árum.

Árleg ráðstefna Samtaka norrænna heimsminjastaða haldin í Skaftárhreppi

Árleg ráðstefna Samtaka norrænna heimsminjastaða, fór fram hérlendis, dagana 5.-8. september sl. Vatnajökulsþjóðgarður var gestgjafi ráðstefnunnar í ár og fór hún fram í nýrri gestastofu vestursvæðis þjóðgarðsins í Skaftárhreppi.

Hörfandi jöklar fréttabréf kemur út

Jöklar á Íslandi hafa hopað hratt í um aldarfjórðung og er rýrnun þeirra einhver skýrasti vitnisburður hérlendis um hlýnandi loftslag. Í fréttabréfinu er gerð stutt grein fyrir breytingum á jöklunum síðan um aldamótin 1900 og lýst niðurstöðum mælinga á stöðu jökulsporða, afkomu jökla og landlyftingu á síðustu árum.

40 ára afmælissýning Ferðaklúbbsins 4x4 og Uppspretta

Þjóðgarðurinn var með kynningarbás á 40 ára glæsilegri afmælissýningu Ferðaklúbbsins 4x4. Einnig var tekið þátt í Uppsprettu, kynningarfundi um fræðsluframboð til skóla ásamt Náttúruminjasafni Íslands.

Afmælisráðstefna SAF

Ingibjörg Halldórsdóttir tók þátt í pallborðsumræðum um álagsstýringu á ferðamannastöðum á afmælisráðstefnu samtaka ferðaþjónustunnar á 25 ára afmæli þeirra.

Tillaga S(P)RINT STUDIO og Nissen Richards vinnur samkeppni um sýningar

Sama teymi vann samkeppnir um sýningar í nýrri gestastofu Vatnajökulsþjóðgarðs á Kirkjubæjarklaustri og gestastofu Vatnajökulsþjóðgarðs og Umhverfisstofnunar í Mývatnssveit

Uppsetning á nýrri fræðslusýningu í Skaftafelli og uppfærsla á Snæfellsstofu

Búið er að hanna nýja sýningu inn í gestastofuna í Skaftafelli og í desember hófst vinna við við að koma henni upp. Árið 2022 var lokið við uppsetningu á nýju fræðslutorgi framan við Skaftafellsstofu þar sem gestir geta kynnt sér fróðleik af ýmsu tagi varðandi Skaftafell, Vatnajökul og Vatnajökulsþjóðgarð. Uppfærsla á sýningu, texta og tækjabúnaði í Snæfellsstofu hefur einnig verið unnin á árinu og er vinnan á lokametrunum.