Beint í efni

Uppfærsla á skipuriti Vatnajökulsþjóðgarðs

Í febrúar 2023 tók í gildi uppfært skipulag á miðlægri skrifstofu Vatnajökulsþjóðgarðs.

7. mars 2023
Sviðsstjórar skrifstofu eru (frá vinstri) Jóhanna Katrín Þórhallsdóttir, sviðsstjóri stefnu og starfsháttasviðs, Ragnheiður Björgvinsdóttir, sviðsstjóri fræðslu- og mannauðsmála og Valbjörn Steingrímsson, sviðsstjóri fjármála og framkvæmda.

Stjórnfyrirkomulag þjóðgarðsins sem ríkisstofnunar hefur sérstöðu að ýmsu leyti. Sveitarstjórnir á landsvæði þjóðgarðsins og hagsmunaaðilar tilnefna aðal- og áheyrnarfulltrúa í stjórn og svæðisráð.

,,Aðkoma þessara aðila tryggir aðkomu sveitarfélaga, umhverfisverndarsamtaka og ýmissa hagaðila að stefnumótun og ákvarðanatöku sem getur varðað þeirra hagsmuni innan þjóðgarðs.‘‘

– Ingibjörg Halldórsdóttir, framkvæmdarstjóri Vatnajökulsþjóðgarðs.

Einn af meginkostum fyrirkomulagsins er virkt og víðtækt samtal um stefnumótun og önnur málefni landsvæðis sem nær til 15% landsins og er í eigu ríkisins að mestu leyti. Áskoranir felast m.a. í aðkomu margra að ákvarðanatöku, flækjustigi og tímafrekum ferli mála. Þá þarf ávallt að tryggja að virtar séu meginreglur stjórnsýsluréttarins og að málefnaleg sjónarmið og almannahagsmunir liggi að baki hverri ákvörðun. Einnig þarf fjárhagslegur rekstur þjóðgarðsins að vera innan fjárheimilda og í samræmi við lög um opinber fjármál og aðra viðeigandi löggjöf. Það er því viðvarandi verkefni að vanda stjórnhætti og tryggja skilvirka og lögmæta ákvarðanatöku og fyrirmyndar rekstur þjóðgarðsins. Efling miðlægrar stoðþjónustu undanfarin ár er mikilvægur liður í þessu átaki.

Þann 1. Febrúar 2022 tók í gildi skipurit á miðlægri skrifstofu Vatnajökulsþjóðgarðs og var skrifstofunni þá skipt niður í þrjú svið. Á vordögum 2021 var skerpt á stefnu Vatnajökulsþjóðgarðs og leiðin vörðuð til næstu fimm ára. Ein af þeim 25 lykilvörðum sem marka stefnuna er að „Yfirfara stjórnarhætti til að efla samspil stjórnar, svæðisráða og stjórnenda til að ná fram aukinni skilvirkni í starfsemi, bæta samráð og ákvarðanatöku“. Breyting á skipulagi miðlægrar skrifstofu er einn liður í að ná þessu markmiði. Helsta breytingin á skipuritinu sem nú er kynnt er að svið sem áður hét stjórnsýslusvið heitir nú svið stefnu og starfshátta ásamt því að Jóhanna Katrín Þórhallsdóttir hefur tekið við af Ingibjörgu Halldórsdóttur sem sviðstjóri en hún tók við framkvæmdarstjórastöðu þjóðgarðsins í desember.

Skipurit VJÞ er eftirfarandi og er hægt að nálgast lýsingu á hlutverkum einstakra skipulagseininga hér.

Skipurit þjóðgarðsins tengist heimsmarkmiði númer 8.

Skipurit Vatnajökulsþjóðgarðs 2023

Skipurit Vatnajökulsþjóðgarðs 2022