Beint í efni

Vatnajökulsþjóðgarður fagnar 15 árum

Vatnajökulsþjóðgarður á afmæli í dag 7. júní og í tilefni dagsins kynnum við fræðsludagskrá þjóðgarðsins.

7. júní 2023

Stofnun þjóðgarðsins markaði tímamót í sögu náttúruverndar á Íslandi. Hvorki fyrr né á síðar hefur jafn stórt landsvæði verið verndað. Að auki á stjórnun þjóðgarðsins sér enga samsvörun á Íslandi en þjóðgarðurinn er samvinnuverkefni ríkis og sjö sveitarfélaga, landeigenda og fjölda annarra hagsmunaaðila.

Vatnajökulsþjóðgarður er einstakur á heimsvísu vegna jarðsögu sinnar sem einkum er skrifuð af langvarandi átökum elds og íss. Í raun má segja að í þjóðgarðinum megi upplifa sköpun jarðar í beinni útsendingu. Sérstaðan leiddi til samþykktar Vatnajökulsþjóðgarðs á heimsminjaskrá UNESCO árið 2019.

Snorri Baldursson, líffræðingur og þjóðgarðsvörður, lýsti þjóðgörðum sem betri stofu í híbýlum manna: „...þar sem stássið er geymt og fjölskyldan kemur saman til að njóta samvista; í þjóðgörðum eru það menningarminjar og náttúrugersemar sem stofurnar prýða og allur almenningur nýtur“.

Á þessum fimmtán árum hefur þjóðgarðurinn vaxið og dafnað og verndar í dag um 15% landsins. Mikil þróun hefur átt sér stað í ferðamennsku, náttúruvernd og stjórnsýslu og öll starfsemi þjóðgarðsins tekið mið af því. Ferðmönnum, starfsfólki og atvinnutækifærum innan þjóðgarðs hefur fjölgað á undanförnum árum og faglegt starf aukist. Daglegar áskoranir í starfsemi þjóðgarðsins eru engu að síður þær að vinna með síbreytileika náttúrunnar og vanda til verka þannig að stássið, menningarminjarnar og náttúrugersemarnar, beri ekki skaða af og fá að þróast á sínum forsendum um ókomna tíð, allra að njóta.

Á afmæli þjóðgarðsins gefum við ávallt út fræðsludagskrá Vatnajökulsþjóðgarðs. Dagskráin inniheldur göngur og viðburði um allan garðinn í sumar og má nálgast hérna fyrir neðan en einnig mælum við með heimsókn í gestastofur þjóðgarðsins þar sem starfsfólk tekur á móti gestum með fróðleik og hjálpsemi..

Sjáumst í Vatnajökulsþjóðgarði í sumar!