Beint í efni

Ný skýrsla um talningar innan Vatnajökulsþjóðgarðs

Skýrslan Talningar í Vatnajökulsþjóðgarði 2018-2022 er komin út

24. apríl 2023

Skýrslan Talningar í Vatnajökulsþjóðgarði 2018-2022 er komin út. Í skýrslunni er ferðamennska á hálendinu og á mið-Suðurlandi greind sérstaklega. Einnig er í skýrslunni að finna yfirlit um fjölda fyrir hvern og einn talningastað í þjóðgarðinum.

Ferðamennska á Íslandi jókst mikið fram til ársins 2018 en minnkaði aðeins árið 2019 (Ferðamálastofa, 2022). Í mars 2020 fór Covid-19 faraldurinn á fullt skrið á Íslandi eins og víðar um heiminn sem hafði gífurleg áhrif á þann fjölda sem ferðaðist til Íslands. Það tímabil sem hér er tekið saman um fjölda í Vatnajökulsþjóðgarði er því mikið umbreytingatímabil, það er frá árinu 2018 til 2022. Því er afar áhugavert og mikilvægt að skoða hvernig þróunin hefur verið.

Vatnajökulsþjóðgarður nýtir talningarnar á margan hátt, til dæmis við skipulag starfsins, vegna framkvæmda og til upplýsingamiðlunar. Í lok árs 2022 voru 52 teljarar á vegum Vatnajökulsþjóðgarðs, 42 bifreiðateljarar og 10 gönguteljarar.

Þetta er fjórða skýrslan sem Vatnajökulsþjóðgarður gefur út um fjölda í Vatnajökulsþjóðgarði, sú síðasta með gögnum út árið 2017 (Gyða Þórhallsdóttir & Rögnvaldur Ólafsson, 2018). Þessi skýrsla er því sjálfstætt framhald fyrri útgáfa. Fyrir nánari útskýringu á aðferðafræði talninganna er vísað í fyrstu útgáfu skýrslunnar (Gyða Þórhallsdóttir & Rögnvaldur Ólafsson, 2015). Aðferðafræðin hefur einnig verið skilgreind í tveimur vísindagreinum (Thórhallsdóttir & Ólafsson, 2017; Thórhallsdóttir, Ólafsson, & Jóhannesson, 2021).

Skýrsluna má nálgast hér ásamt fyrri skýrslum