Lakagígar eru um 25 kílómetra löng gígaröð sem varð til fyrir tæplega 250 árum síðan. Gígarnir eru friðlýst náttúruvætti sem þykir einstakt á heimsvísu. 

Eldgjá er hluti af gossprungu sem nær frá Mýrdalsjökli langleiðina að Vatnajökli. Eldgjá er um 8 km að lengd, 600 m á breidd og 150 m þar sem hún er dýpst. Hún varð til í einu mesta gosi Íslandssögunnar árið 934.

Langisjór er stöðuvatn í jaðri Vatnajökuls. Vatnið er um 20 km að lengd og 2 km þar sem það er breiðast. Mesta mælda dýpi er 73,5 m. Skaftfellskir leitarmenn fundu vatnið árið 1878 og gaf Þorvaldur Thoroddsen því nafnið Langisjór. 

Vegasamgöngur

Vegir á vestursvæði þjóðgarðsins eru fjallvegir sem aðeins eru færir fjórhjóladrifnum bílum og sumir aðeins breyttum jeppum. Víða er lausamöl og grýttir eða holóttir kaflar og sums staðar þarf að fara yfir dragár eða jafnvel jökulár sem geta vaxið fyrirvaralítið og orðið varhugaverðar eða ófærar.

Svæðið er opið ferðamönnum allan ársins hring en það ræðst af snjóalögum og veðurfari hversu lengi vegir eru opnir. Venjulega eru þeir opnir frá því í byrjun júní og eitthvað fram eftir hausti. Aðeins má aka þá vegi sem merktir eru á meðfylgjandi korti, aðrir vegir og slóðar á svæðinu eru lokaðir fyrir almennum akstri. Hér sem annars staðar er stranglega bannað að aka utan vega.

Vegurinn að Lakagígum (F206) liggur frá þjóðvegi 1 við Hunkubakka í Skaftárhreppi.

Til að komast að Eldgjá og Langasjó er farin Fjallabaksleið nyrðri (F208) sem hefst að austanverðu við bæinn Búland í Skaftártungu og vestan frá við Sigöldu á Sprengisandsvegi (F26). Afleggjarinn að Langasjó (F235) liggur af Fjallabaksleið nyrðri um 3 km vestan Eldgjár. Að Jökulheimum á Tungnaáröræfum liggur vegur F229 frá Veiðivötnum og einnig vegslóði að norðan frá Sprengisandsleið um Þórisós.

Almenningssamgöngur

Á sumrin fer áætlunarbifreið frá Skaftafelli í Laka, með viðkomu á Kirkjubæjarklaustri, og er ferðinni þá heitið að Tjarnargíg (sjá www.re.is).

Kynnisferðir (www.re.is) aka á milli Landmannalauga og Skaftafells daglega frá því að Fjallabaksleið nyrðri opnast á sumrin og fram í september. Rútan hefur stutta viðkomu í Eldgjá og gefst farþegum tækifæri til að ganga að Ófærufossi.

Engar reglubundnar ferðir eru að Langasjó eða Jökulheimum.