Beint í efni

Sérstaða þjóðgarðsins

Náttúra og menningarsaga Vatnajökulsþjóðgarðs er einstæð á heimsvísu. Náttúran mótast af mikilli eldvirkni á Mið-Atlantshafshrygg og loftslagi á mörkum hlýrra og kaldra strauma í hafi og lofti.

Eldur & ís

Vatnajökulsþjóðgarður er einstakur á heimsvísu vegna jarðsögu sinnar sem einkum er skrifuð af langvarandi átökum elds og íss. Margir staðir skarta eldfjöllum eða jöklum og sumir hvoru tveggja en enginn þeirra státar af átökum flekaskila, möttulstróks og hveljökuls eins og Vatnajökulsþjóðgarður. Samspil þessara fyrirbæra og annarra landmótunarafla hefur skapað síbreytilegri og fjölbreyttari náttúru en finna má á nokkru öðru afmörkuðu svæði í heiminum. Í Vatnajökulsþjóðgarði má upplifa sköpun jarðar í beinni útsendingu.

Hvað er þjóðgarður?

Þjóðgarðar eru oftast stór svæði sem eru að mestu upprunalega eða lítt snortin og hafa sérstaka náttúru, lífriki, landslag, jarð- eða menningarminjar. Með því að gera svæðið að þjóðgarði er ákveðið að vernda svæðið til framtíðar og taka tillit til náttúru- og menningarminja við allar framkvæmdir, skipulag og athafnir. Þjóðgarðar eru eign þjóðarinnar og þar á útivist, fræðsla og upplifun sér stað. En til að vernda lífríki, upplifun, jarð- og menningarminjar þarf ákveðna innviði, skipulag og stundum að setja takmarkanir á aðgengi.

Heimsminjaskrá UNESCO

Vatnajökulsþjóðgarður var samþykktur á heimsminjaskrá UNESCO þann 5. júlí 2019 á grundvelli einstakrar náttúru.

Um Vatnajökulsþjóðgarð

Landslag þjóðgarðsins er mótað af samverkun jarðelda og jökuls. Það ber svip eldhrauna, jarðhita, móbergshryggja og stapa, jökulgarða, jökullóna og jökulsanda en yfir gnæfir jökulbreiðan. Við sunnanverðan Vatnajökul eru strandsvæði og opið haf.

Fræðsla um náttúru og náttúruvernd, sögu, mannlíf og menningarminjar í þjóðgarðinum er því eitt af meginmarkmiðum Vatnajökulsþjóðgarðs og hér fyrir neðan má finna ýmsan fróðleik um þjóðgarðinn.

Fræðsla um náttúru & sögu Vatnajökulsþjóðgarðs