Beint í efni

Víðerni

Í Vatnajökulsþjóðgarði eru víðáttumikil óbyggð landsvæði og auðnir. Þau eru hluti af helstu víðernum Íslands en víðerni eiga undir högg að sækja, ekki eingöngu á Íslandi heldur um heim allan.

Gildi óbyggðra víðerna fyrir núverandi og komandi kynslóðir er ótvírætt; í auðninni er hægt að upplifa náttúru í nær óspilltu umhverfi, þar gefst tækifæri til einveru og þar getur maðurinn reynt á eigin hæfileika og kunnáttu fjarri nútímaþægindum. Þá eru víðerni einnig mikilvæg lífríkinu og þróun þess utan áhrifasvæðis mannsins.

Stærstu víðerni þjóðgarðsins er jökullinn sjálfur. Mörk víðerna fylgja ekki endilega jökulröndinni. Á stöku stað eru mannvirki svo nærri jöklinum að hluti hans næst mannvirkinu getur ekki talist til víðernis samkvæmt lagalegri skilgreiningu um óbyggð víðerni í náttúruverndarlögum 60/2013. Að sama skapi getur landsvæði utan jökuls við jökulröndina verið víðerni á þeirri forsendu að fjarlægð frá mannvirkjum er næg og jökulbreiðan gefur það landflæmi sem krafist er.