Beint í efni

Vatnajökull

Vatnajökull er hveljökull, samsettur af jökulhettum og fjölda skriðjökla sem sumir hverjir hlaupa fram með óreglulegu millibili.

Vatnajökull er hveljökull, samsettur af jökulhettum og fjölda skriðjökla sem sumir hverjir hlaupa fram með óreglulegu millibili. Hann er svokallaður þíðjökull, þ.e. jökulísinn er við frostmark frá yfirborði niður á botn, nema snjór nærri yfirborði að vetri. Flatarmál jökulsins nú er um 7700 km2 (tæp 8% landsins). Sjö virkar megineldstöðvar leynast undir jöklinum, sem og djúpir dalir og trog. Eldvirkni og jarðhiti valda því að lón myndast við jökulbotn og jökuljaðar á nokkrum stöðum og eru lónin undir Skaftárkötlum og í Grímsvötnum þeirra þekktust. Í Kverkfjöllum er lón við jökuljaðar, myndað af jarðhita (Gengissig). Frá þessum lónum falla jökulhlaup með reglulegu millibili en einnig hafa komið hlaup frá jökulstífluðum lónum t.d. Grænalóni og Vatnsdalslóni. Frá jöklinum renna nokkrar af stærstu ám landsins og hluti þeirra er notaður til raforkuframleiðslu í vatnsaflsvirkjunum.

Nokkrar staðreyndir um Vatnajökul

Eldur og ís

Vatnajökull liggur að hluta yfir gosbeltinu og jökullinn hylur sjö megineldstöðvar að miklu eða öllu leyti, þar á meðal fjórar af þekktustu og virkustu eldstöðvum landsins, Grímsvötn, Bárðarbungu, Kverkfjöll og Öræfajökul. Jökullinn hefur mikil áhrif á gos úr þessum eldstöðvum og jarðmyndanir sem þau skilja eftir sig. Eldgos undir jökli eru með mikla sprengivirkni vegna snertingar gosefnanna við vatn og ís. Sundruð gosefnin límast fljótt saman í þursaberg eða móberg fyrir tilverknað hita og raka á gosstaðnum. Móbergsfjöll og hryggir eru jarðmyndanir sem einkenna gosbeltið á Íslandi en eru sjaldgæfar annars staðar í heiminum. Í Gjálpargosinu í Vatnajökli árið 1996 myndaðist 7 km langur móbergshryggur sem nú er hulinn ís. Stærstur hluti móbergsmyndunarinnar á Íslandi varð til á kuldaskeiðum ísaldar þegar þykkur jökull lá yfir landinu.

Breytingar

Mikil velta er í búskap Vatnajökuls, þ.e. hann safnar miklu á sig og að sama skapi er leysing hröð og hann er næmur fyrir breytingum í loftslagi. Rannsóknir á sögu loftslagsbreytinga og viðbrögðum jökulsins eru mikilvægar í alþjóðlegu samhengi. Þekking og skilningur á þeim ferlum sem eru að verki er nauðsynleg til þess að spá fyrir um framtíðarbreytingar. Rannsóknasaga Vatnajökuls nær nokkrar aldir aftur í tímann og fyrstu nákvæmu lýsingar á jöklinum eru frá seinni hluta 18. aldar. Auðvelt aðgengi er að jöklinum og góð aðstaða Jöklarannsóknafélags Íslands hefur greitt götu vísindamanna. Jökullinn og nærliggjandi svæði eru eins konar lifandi kennslustofa í jöklafræði og náttúrufræði og fjölmargir vísindaleiðangrar eru gerðir út á hverju einasta ári.

Myndun

Vatnajökull er ekki leifar ísaldarjökulsins sem huldi landið á hámarki síðasta jökulskeiðs fyrir um 18.000 árum. Vatnajökull tók á sig núverandi mynd þegar jöklar á fjallstindum í 1200–2000 m hæð runnu saman. Líkanreikningar gefa til kynna að þetta hafi gerst fyrir um 1000–1500 árum. Við landnám (874 e.Kr.) var Vatnajökull orðinn að samfelldum hveljökli. Litla ísöldv ar kalt tímabil frá um 1450 til 1900 þegar jöklar stækkuðu um allt norðurhvel jarðar. Skriðjöklar Vatnajökuls náðu þó ekki niður á láglendi fyrr en á 17. og 18. öld. Í lok 19. aldar hafði Vatnajökull náð mestri útbreiðslu áNútíma. Nokkru fyrir aldamótin 1900 tóku svo jöklarnir að hörfa frá ystu jökulgörðum og markaði það lok litlu ísaldar hérlendis.

Rannsóknir

Setlagakjarnar úr Lagarfljóti varðveita samfellda 10.000 ára sögu bræðsluvatns frá jöklinum, en afrennsli Eyjabakkajökuls rennur í vatnið. Fyrir um 9000 árum er ekki að finna nein merki um jökulættað set og á hlýjasta tímabili Nútíma (fyrir um 5000–8000 árum) er talið að ísaldarjökullinn hafi nánast horfið af landinu og þá hafa líklega aðeins verið jöklar á hæstu tindum. Jökulvatn fór að berast í vatnið aftur fyrir um 4500 árum. Það er í samræmi við önnur gögn frá Íslandi sem sýna að veðurfar fór kólnandi fyrir um 5000 árum og jöklar tóku að myndast og stækka á hálendinu. Um 2000 ára gamlir trjádrumbar hafa fundist framan við Fláajökul og Skaftafellsjökul, sem gefa til kynna að dalir þessara jökla hafi verið íslausir fram að þeim tíma.

Sambúð fólks & jökla

Í 1100 ár hefur byggðin sunnan Vatnajökuls þurft að aðlagast síbreytilegri náttúru, landeyðingu og náttúruhamförum af völdum jökla sem gengu fram, eldgosum undir jökli og jökulhlaupum. Sveitin milli sanda, Öræfi, sem upphaflega nefndist Litla-Hérað, þurrkaðist út í Öræfajökulsgosinu 1362 og varð fyrir endurteknum áföllum af völdum gossins úr Öræfajökli 1727 og Skeiðarárhlaupa sem fóru stækkandi á 19. öld. Sem dæmi um aðlögun byggðarinnar má nefna flutning húsakosts, akra og túna á staði sem voru öruggir fyrir jökulhlaupum í Skeiðará og á svæði í skjóli við hlaup samfara eldgosum í Öræfajökli, þar á meðal bæirnir í Skaftafelli, Svínafelli, Hofi, Fagurhólsmýri, Hnappavöllum og Kvískerjum.

Austan Öræfa, hafa náttúruhamfarir líka markað samfélögin. Þegar Breiðamerkurjökull gekk sem mest fram á litlu ísöld (1450–1900) eyddi hann m.a. landnámsjörðunum Fjalli og Breiðá en þar bjó Kári Sölmundarson, ein af sögupersónum Njáls sögu. Vegna hlýnunar loftslags, hefur stórt svæði fyrir framan Breiðamerkurjökul komið aftur undan jökli og er nú einn vinsælasti ferðamannastaður landsins. Enn austar, við Steinavötn, Heinabergsá og Hornafjarðarfljót, olli landbrot af völdum jökulhlaupa miklum búsifjum á litlu ísöld og á fyrri hluta 20. aldar. Á síðustu áratugum hafa stór svæði, sem áður voru svartir sandar, ýmist verið grædd upp með aðstoð mannsins, sbr. Skógey við Höfn í Hornafirði, eða gróið upp af sjálfsdáðum eins og Skeiðarársandur.

Ferðir yfir jökulvötnin

Sum héruð sunnan jökuls voru lengi meðal þeirra einangruðustu á Íslandi, umkringd beljandi jökulfljótum. Skeiðará var ekki brúuð fyrr en 1974, Jökulsá á Breiðamerkursandi 1967 og Hornafjarðarfljót 1961. Fleiri ár á þessu svæði, svo sem Kolgríma, Heinabergsá, Hólmsá og Jökulsá í Lóni, gátu verið erfiðir farartálmar. Áður en brýr komu til voru ferjur notaðar á sumum þessara áa, en ferðalög og flutningar á hestum voru frá fornu fari meginleið íbúanna til þess að tengjast nágrannabyggðum og umheiminum. Að þvera vatnsmiklar jökulár á hestum var ekki á allra færi og krafðist þjálfunar bæði hesta og manna.

Hörfandi jöklar

Markmið verkefnisins, sem er hluti af sóknaráætlun Íslands í loftslagsmálum, er að auka vitund fólks um loftslagsbreytingar og áhrif þeirra á jökla á Íslandi sem og annars staðar á jörðinni.