Beint í efni

Nýidalur & Tungnaáröræfi

Um Nýjadal
– komdu í heimsókn

Nýidalur (Jökuldalur) er nánast á miðju hálendi Íslands. Ferðalanga sem farið hafa yfir auðnir Sprengisands eða Dyngjufjallaleiðar rekur jafnan í rogastans þegar dalurinn birtist eins og gróin vin í eyðimörkinni, í 820 metra hæð yfir sjó. Þó lengi hafi verið farið yfir Sprengisand má segja að Nýidalur hafi uppgötvast seint. Áður lágu leiðir um sandinn talsvert vestar en þjóðvegurinn liggur í dag og því varð dalurinn ekki almennt þekktur fyrr en bændur úr Bárðardal fóru lengra en vant var að leita fjár. Þeir nefndu dalinn Jökuldal en aðrir kölluðu hann síðar Nýjadal og eru bæði heitin nú í notkun.

Aðgengi, þjónusta & fræðsla

Eftir langt ferðalag er kjörið að staldra við í Nýjadal, teygja úr sér, hvíla sig og njóta þeirra undra sem náttúran hefur upp á að bjóða. Í Nýjadal er rekin skálagisting og tjaldsvæði á vegum Ferðafélags Íslands. Þar hafa landverðir Vatnajökulsþjóðgarðs jafnframt aðsetur og veita gestum á svæðinu upplýsingar um færð á helstu leiðum, spennandi áfangastaði og tillögur að gönguleiðum um svæðið. Umhverfi Tungnafellsjökuls er í senn töfrandi og fáfarið þar sem náttúra landsins skartar sínu fegursta.

Landverðir eru einnig með viðveru og upplýsingagjöf í hálendismiðstöðinni Hrauneyjum. Svæðið er að mestu á hálendi þar sem hratt getur vaxið í óbrúuðum ám og er aðeins fært fjórhjóladrifnum jeppum yfir sumartímann.

Fræðsludagskrá Vatnajökulsþjóðgarðs er í gildi yfir sumarið þar sem boðið er uppá fjölbreyttar göngur og fræðslu vítt og breitt um þjóðgarðinn. Hægt er að kynna sér fræðslugöngur sumarsins á vestursvæði þjóðgarðsins með því að ýta á hlekkinn.

Símanúmer landvarða Í Nýjadal er 842 4377

Hrauneyjar

Í Hálendismiðstöðinni í Hrauneyjum er upplýsingamiðstöð Vatnajökulsþjóðgarðs og Umhverfisstofnunar á sumrin. Þar veita landverðir upplýsingar um áhugaverða áningarstaði, gönguleiðir, færð og aðstæður á Sprengisandi og Fjallabaki auk nærsvæða.

Símanúmer landvarða Í Hrauneyjum er 842 4238

Gisting, skáli, FÍ, Nýidalur

Gisting

Ferðafélag Íslands rekur gistiskála og tjaldsvæði í mynni Nýjadals. Þar eru vatnssalerni og sturtur, sjá nánar um skálann á heimasíðu ferðafélagsins. Hvorki er matsala né eldsneytissala í Nýjadal.

Á Tungnaáröræfum á Jöklarannsóknafélag Íslands skála. Hann er læstur en þar er þurrsalerni. Allar upplýsingar um skálann fást hjá jorfi hjá jorfi.is. Að öðru leyti er engin þjónusta á Tungnaáröræfum.

Náttúra og saga
- fræðsla og uppgötvun

Landsvæðið er að mestu ógróin eyðimörk en þó finnast gróðurflákar og blettir sem eru ósnortnir af umsvifum manna. Tungnaáröræfi bera nafn með rentu en landið norðan Tungnaár allt til Vonarskarðs er eldbrunnin eyðimörk undir áhrifum frá hinu mikla eldstöðvakerfi Bárðarbungu; hraun og gígar, orpin svörtum sandi og vikri. Stór hluti svæðisins er fáfarinn og öræfakyrrðin mikil. Þeir fáu gestir sem heimsækja svæðið heillast af víðáttunni, auðninni og andstæðum svartra sanda, fagurgræns mosa og hins þrautseiga háfjallagróðurs sem leynist í auðninni og teygir sig upp suður- og austurhlíðar Tungnafellsjökuls. Hvort sem er að nóttu eða degi, sumri eða vetri verða gestir fyrir miklum hughrifum í þessu óbyggða en jafnframt fágæta víðerni sem svæðið geymir.

Möttulstrókur, eldvirkni og jarðhiti – samspil elds og íss

Nálægð svæðisins við gosbeltið og heita reitinn yfir möttulstróknum undir Íslandi mótar jarðfræðilega sérstöðu þess. Miðja möttulstróksins er nú talin vera undir norðvestanverðum Vatnajökli þar sem eru tvær af stærstu og virkustu megineldstöðvum Íslands, Bárðarbunga og Grímsvötn. Eldstöðvakerfi Bárðarbungu tengjast tvær af mestu gosreinum landsins, Veiðivatnareinin til suðvesturs og Dyngjuhálsreinin til norðausturs, en á þeim báðum hafa orðið stórgos á sögulegum tíma.

Á svæðinu má finna og sjá fjölda stórkostlegra jarðminja sem bera þess vitni að hér liggja flekaskil við heitan reit, að hluta hulin jökli. Þó svæðið sé langt frá byggð geta eldgos þar, með tilheyrandi öskufalli og jökulhlaupum, haft víðtæk og varanleg áhrif á stóran hluta Íslands.

Heitur lækur í Vonarskarði, Auður Lilja Arnþórsdóttir

Vonarskarð

Í Vonarskarði er háhitasvæði í um 950 – 1100 metra hæð yfir sjávarmáli með óvenjulega fjölbreyttum gróðri, litskrúðugu hverasvæði og sjaldgæfum háhitalífverum með hátt verndargildi. Þar finnst einnig ein hæsta mýri landsins í yfir 900 m hæð yfir sjó. Landslag er óvenjulegt, stórbrotið og fjölbreytt; jöklar og há fjöll, sandsléttur og áraurar, jökulár, bergvatnsár og volgar lindir og litfagrir hverir. Í Vonarskarði eru vatnaskil Skjálfandafljóts og Köldukvíslar sem rennur í Tungnaá. Um sendinn öskjubotninn renna lækir að því er virðist hlið við hlið sem síðar eiga eftir að falla til sjávar ýmist á Suður- eða Norðurlandi. Einstök náttúra Vonarskarðs, víðerni og kyrrð lætur engan ósnortinn.

Tungnaáröræfi

Tungnaáröræfi

Við fyrstu sýn virðast Tungnaáröræfi grá og líflaus en hér eins og annars staðar finnur lífið sér leið. Gráu tónarnir eru margslungnir og á milli þeirra má finna mórauttmóberg og svartan vikur. Landið norðan Tungnaár allt til Vonarskarðs er eldbrunnin eyðimörk undir áhrifum frá eldstöðvakerfi Bárðarbungu. Svæðið er afar fáfarið og hér er öræfakyrrðin mikil. Hér er auðvelt að heillast af víðáttunni, auðninni og andstæðum svartra sandaog hins þrautseiga háfjallagróðurs sem leynist í auðninni, ef vel er að gáð.