Beint í efni

Askja & Herðubreiðarlindir

Um Öskju & Herðubreiðarlindir
- Komdu í heimsókn

Askja er sigdæld í megineldstöðinni Dyngjufjöllum. Dyngjufjöll hlóðust upp við gos undir ísaldarjökli en Askja myndaðist að stórum hluta í lok ísaldar við stórfellt gjóskugos en þá seig þak kvikuþróarinnar sem er hjarta megineldstöðvarinnar. Eftir varð djúp, hringlaga lægð er síðar tók við hraunum úr eldgosum er urðu á jöðrum sigdældarinnar. Botn Öskju, sem nefnd er eftir öskjulögun sinni, er nú í um 1.100 metra hæð yfir sjávarmáli en hæstir eru barmarnir í 1.300 til rúmlega 1.500 m hæð. Sams konar fyrirbæri í öðrum megineldstöðvum nefnast öll öskjur.

Innviðir, fræðsla og þjónusta

Yfir sumartímann hafa landverðir aðsetur í Drekagili og Herðubreiðarlindum og veita upplýsingar, fræðslu og sinna eftirliti með hálendinu norðan Vatnajökuls. Við Vikraborgir hjá Öskju er bílastæði og salerni en yfir háannatímann er landvörður með daglega viðveru í Öskju og fer í skipulagðar gönguferðir með gesti.

Fræðsludagskrá Vatnajökulsþjóðgarðs er í gildi yfir sumarið þar sem boðið er uppá fjölbreyttar göngur og fræðslu vítt og breitt um þjóðgarðinn. Hægt er að kynna sér fræðslugöngur sumarsins í Öskju og Herðubreiðarlindum með því að ýta á hlekkinn.

Gisting

Ferðafélag Akureyrar rekur tjaldsvæði og skála í Herðubreiðarlindum og við Drekagil nærri Öskju. Í Dreka er gistirými fyrir 55 manns, tjaldsvæði og snyrtiaðstaða með sturtu. Í Herðubreiðarlindum er gistirými fyrir 25 manns, tjaldsvæði og snyrting. Fleiri skálar ferðafélagsins á svæðinu eru Bræðrafell og Dyngjufjalladalur og panta þarf afnot að þeim hjá félagsins.

Ferðafélag Fljótsdalshéraðs og Ferðafélag Húsavíkur reka Sigurðarskála í Kverkfjöllum. Við skálann er tjaldsvæði. Þar eru líka vatnssalerni og sturtur. Engin verslun, veitingasala eða eldsneytissala er í Kverkfjöllum né Öskju.

Fleiri skálar á svæðinu eru t.d. Kistufell sem rekið er af björgunarsveitinni Stefáni.

Náttúra og saga
- fræðsla og uppgötvun

Áhrif eldgosa

Áhrifa eldgosa norðurhálendisins gætir bæði á land og fólk. Gosefni úr eldgosum á svæðinu berast langar leiðir með tilheyrandi öskufalli og loftmengun. Við gosið í Öskju 1875 barst vikur og aska langan veg, gróður eyddist og byggðir á Jökuldalsheiði og víðar lögðust í eyði. Þessar náttúruhamfarir voru meðal annars hvatinn að fólksflutningum Íslendinga til Vesturheims. Eldgosið í Holuhrauni 2014-2015 minnti á ógnarmátt eldgosa og sendi frá sér miklar eiturgufur sem rýrðu verulega loftgæði í byggð allt í kringum jökulinn.

Askja

Eldsumbrot í Öskju hafa verið nokkur á sögulegum tíma og áttu þau m.a. sinn þátt í að hrekja fólk frá Austurlandi eftir 1875. Síðast gaus Askja 1961 þegar Vikrahraun rann. Bandarískir geimfarar voru þjálfaðir á þessu svæði vegna þess að landslag þótti svipa til landslags á tunglinu. Stórbrotin og mikilfengleg náttúra Öskju verður ógleymanleg öllum þeim sem hana sækja heim.

Botn Öskju er þakinn úfnum apalhraunum. Í suðausturhorninu er Öskjuvatn sem varð til við jarðfall (öskjusig) í eldsumbrotum 1875. Öskjuvatn er dýpsta stöðuvatn landsins, rúmlega 200 m á dýpt. Víða eru eldstöðvar í öskjunni og þeirra á meðal er sprengigígurinn Víti sem varð til í lok gossins 1875. Vatn hefur safnast í Víti og er hitastig þess breytilegt, allt eftir því hve mikið leysingarvatn rennur í það, en hitinn er jafnan yfir 20° C. Dýpt þess er mest í miðjunni, liðlega 8 metrar. Vinsælt er að baða sig á þessum einstaka stað en vert er að vara ferðamenn við, ef þeir hyggja á bað í Víti, að stígurinn niður er mjög háll í votviðri og verulegur hiti er í leðjunni í botninum sérstaklega við austurbakkann. Hætta getur verið á að grjót falli úr börmunum.