Beint í efni

43 skólahópar á árinu 2021

Eitt af okkar skemmtilegustu verkefnum í Vatnajökulsþjóðgarði er móttaka skólahópa og fáum við heimsóknir frá öllum stigum skólakerfisins. Skipulögð fræðsla til skóla og móttaka skólahópa er stunduð á öllum starfsvæðum Vatnajökulsþjóðgarðs. Nokkrir skólar í nágrenni Vatnajökulsþjóðgarðs heimsækja hann árlega.

5. janúar 2022

Skólahópar heimsækja gestastofur, fá kynningu frá starfsfólki og vinna þematengd verkefni. Gönguferðir og útivera í náttúru er hluti af heimsókn í Vatnajökulsþjóðgarð. Gestastofur bjóða líka skólum að koma í heimsókn til dæmis í kringum Dag íslenskrar náttúru. Starfsfólk þjóðgarðsins fer í skólaheimsóknir og kynnir náttúru og sögu þjóðgarðsins. Lögð er áhersla á að kynna nemendum nærumhverfi sitt, fræða um náttúruvernd, umhverfismál og sjálfbærni.

Árið 2021 var tekið á móti 43 skólahópum og fengu um 700 nemendur að kynnast Vatnajökulsþjóðgarði. Öll skólastig fengu fræðslu, frá leikskóla upp í háskóla. Fjölmennasti hópurinn sem fékk kynningu voru grunnskólabörn. Algengast er að grunnskólabörn komi í skólaheimsókn á vorin eða haustin.

Fræðsla um náttúru og náttúruvernd, sögu, mannlíf og menningarminjar er eitt að meginmarkmiðum Vatnajökulsþjóðgarðs. Við erum stolt af því að geta veitt skólum í nærumhverfi garðsins góða þekkingu á sinni heimabyggð og í samstarfi við skóla styrkt þekkingu og menntum barna og unglinga.

Starfsmenn Grunnskóla Hornafjarðar ásamt Sigrúnu landverði við Sjónarnípu í Skaftafelli, hvar nemendur skólans fóru í gönguferð haustið 2021.

Við tökum fagnandi á móti skólahópum á öllum aldrei sem vilja heimsækja Vatnajökulsþjóðgarð. Allar heimsóknir og kynningar eru skólum að kostnaðarlausu. Best er að hafa sambandi við næstu gestastofu Vatnajökulsþjóðgarðs ef áhugi er að fá að koma í heimsókn eða fá heimsókn frá þjóðgarðinum.

Heildarfjöldi nemenda sem heimsótti gestastofur Vatnajökulsþjóðgarðs á árinu 2021. Við birtingu fréttar var rangt súlurit sett inn. Súluritið var uppfært 10.1.2022.

Vatnajökulsþjóðgarður & heimsmarkmiðin

Heimsóknir skólahópa tengast eftirfarandi heimsmarkmiðum

4. Menntun fyrir alla

13. Aðgerðir í loftslagsmálum