Velkomin á vestursvæði Vatnajökulsþjóðgarðs
Svæðið er hálent, eldbrunnið og ógróið að mestu. Helstu samfelldu gróðurflákarnir eru í Tómasarhaga/Nýjadal (800 m y.s.) og Snapadal í Vonarskarði (900 m y.s.). Allt svæðið er undir áhrifum frá fjórum megineldstöðvum: Tungnafellsjökli í norðvestri, Bárðarbungu í norðaustri, Hamrinum í suðri og miðsvæðis er eldstöð sem kennd er við Vonarskarð.
Nýidalur er á miðri Sprengisandsleið og þar hefur Ferðafélag Íslands byggt upp gistiaðstöðu. Nýidalur er kjörin bækistöð fyrir þá sem vilja njóta útivistar á svæðinu umhverfis Tungnafellsjökul eða staldra við á leiðinni yfir Sprengisand.
Frá skálum FÍ liggja gönguleiðir um næsta nágrenni t.d. upp á Þvermóð, á Háhyrnu, um Mjóháls og fleiri leiðir. Landvörður hefur aðsetur í skálunum við Nýjadal á sumrin.
GPS-hnit landvörslustöðvarinnar eru N64° 44.110' - W018° 04.372'.
Símanúmer landvarða er 842 4377
Vonarskarð er meðal annars merkilegt fyrir þær sakir að þar eru vatnaskil milli Norður og Suðurlands og upptök bæði Skjálfandafljóts og Köldukvíslar. Á vestursvæði Vonarskarðs er háhitasvæði og finnast þar nær öll þekkt fyrirbrigði sem finnast á slíkum svæðum. Svæðið er afskekkt, sumir telja að Gnúpa-Bárður hafi farið í gegnum skarðið á landnámsöld en fyrsta skráða ferð um svæðið var um 1839. Enginn akvegur er í Vonarskarð en hægt að ganga þangað frá Kolufelli, Gjóstu og Nýjadal.
Tungnaáröræfi er svæði milli Tungnaár og Tungnafellsjökuls. Það er eldbrunnið og eiga þar mestu hraun sem runnið hafa á nútíma upptök sín. Meðal þeirra er Þjórsárhraun hið mikla sem rann fyrir um 9000 árum. Líklegasta uppkomusvæði þess er í eða við Heljargjá. Hún er mikill sigdalur sem liggur frá Landmannalaugum og norðaustur í Vatnajökul með stefnu á eldstöðina Hamarinn. Gjáin er sýnilegust frá vegslóða sem liggur í norðaustur frá sprengigígnum Mána. Á þessu svæði er mikið um gömul hraun og gíga.
Vega- og almenningssamgöngur
Sprengisandsleið (F26) liggur að Nýjadal. Engar almenningssamgöngur eru á svæðinu.
Allir vegir í þessum hluta þjóðgarðsins eru fjallvegir sem aðeins eru færir fjórhjóladrifnum bílum og sumir aðeins stórum jeppum. Víða er lausamöl og grýttir eða holóttir kaflar og sums staðar þarf að fara yfir dragár og jafnvel jökulár sem geta vaxið fyrirvaralítið og orðið varhugaverðar eða ófærar.
Opnun fjallvega er mismunandi milli ára, sjá nánari upplýsingar á vef Vegagerðarinnar.
Gisting, matur og eldsneyti
Ferðafélag Íslands rekur gistiskála og tjaldsvæði í mynni Nýjadals. Þar eru líka vatnssalerni og sturtur. (Sjá nánar um skálann á www.fi.is).
Hvorki matsala né eldsneytissala er í Nýjadal.