Langisjór

Langir, áberandi móbergshryggir einkenna svæðið við Langasjó og er slíkt landslag einstakt á heimsvísu. Móbergshryggirnir mynduðust við gos undir jöklum ísaldar og eru Fögrufjöll, Tungnaárfjöll og Grænifjallgarður mest áberandi. Vestan við Fögrufjöll liggur svo Langisjór, í stefnu norðaustur - suðvestur. Nafn sitt dregur vatnið af lengd sinni sem er um 20 km. Á fyrri hluta tuttugustu aldar rann kvísl úr Skaftá í vatnið og var það þá jökullitað en vegna hörfunar Síðujökuls falla allar kvíslar Skaftár nú austan Fögrufjalla og er Langisjór því fagurblár og með tærustu vötnum landsins.

Þjónustuhús er við suðurenda Langasjávar, rétt við Sveinstind og eru nokkrar stuttar gönguleiðir þar í kring.  Auk þeirra eru nokkrar lengri gönguleiðir:

Sveinstindur

Vegalengd: 2 km (önnur leið)
Göngutími: 2-3 klst. (leiðin upp)
Erfiðleikastuðull gönguleiðar: Krefjandi leið  (rauð leið)

Gönguleiðin upp á Sveinstind er um 2 km og nokkuð brött. Bílastæði er við rætur fjallsins að vestan og þaðan liggur stikuð leið upp á fjallið. Sveinstindur er 1.090 metra hár og eitt flottasta útsýnisfjall landsins ef skyggni er gott.

 

Gengið í kringum Sveinstind

Vegalengd: 11 km (hringleið)
Göngutími: 4 klst. 
Erfiðleikastuðull gönguleiðar: Krefjandi leið (rauð leið)

Frá bílastæðinu við suðurenda Langasjávar er genginn vegslóði inn með Sveinstindi að norðan, meðfram Langasjó og síðan beygt til suðurs við enda Fagralóns. Fljótlega er komið að smalaslóða og hann genginn til baka og suður fyrir Sveinstind. Leiðin er óstikuð. 

 

Sveinstindur - Skælingar - Eldgjá 

Vegalengd: 30 - 40 km
Göngutími: 2-3 dagleiðir
Erfiðleikastuðull gönguleiðar: Krefjandi leið (rauð leið)

Gönguleiðin um Sveinstind og niður með Skaftá um Skælinga og Eldgjá hefur unnið sér sess sem ein af fegurstu gönguleiðum landsins. Leiðin er 30-40 km eftir því hvaða útgáfa er valin og tekur tvo til þrjá daga. Skálar eru við Sveinstind, í Stóragili á Skælingum og í Hólaskjóli. Hinir fyrrnefndu eru í umsjón Útivistar (utivist hjá utivist.is) en Hólaskjól er í umsjón Veiðifélags Skaftártungumanna (holaskjol hjá holaskjol.com). Panta þarf næturgistingu fyrir fram. Leiðin er aðeins stikuð að hluta.

 

Langisjór

Vegalengd: 50 km
Göngutími: 3 dagleiðir
Erfiðleikastuðull gönguleiðar: Krefjandi leið (rauð leið)

Nokkuð er um að gengið sé í kringum Langasjó eða keyrt inn fyrir Langasjó og Fögrufjöll gengin til baka.  Slíkar göngur eru nokkuð langar og oftast er farangurinn borinn á bakinu. Þeir sem leggja í slíka ferð eru beðnir um að hlífa viðkvæmum mosagróðrinum og náttúrunni eins og hægt er, ganga á þeim stígum sem fyrir eru og tjalda ekki á mosabreiðum heldur á vikrinum sem jafnar sig fljótt. Frekari upplýsingar fást hjá landvörðum og starfsfólki vestursvæðis (fanney hjá vjp.is eða jonabjork hjá vjp.is)