Landslag

Landslag þjóðgarðsins er mótað af samverkun jarðelda og jökuls. Það ber svip eldhrauna, jarðhita, móbergshryggja og stapa, jökulgarða og jökulsanda en yfir gnæfir jökulbreiðan.

Landslagi í þjóðgarðinum má skipta í nokkra meginflokka í stórum dráttum (mynd 3.4). Utan við sjálfan jökulinn er háslétta og upp úr henni rísa stök fjöll, mörg jökulsorfin. Nyrst og syðst eru flóðsléttur en heiðalönd í suðvestri og norðaustri. Móbergshryggir eru áberandi í vestri en nyrst gljúfur og ásar.

Auk þessara grófu landslagsdrátta er smágerðari ásýnd mótuð af eldvirkni, rofi og framburði jökla og jökulvatna, einnig af jarðhita. Allt skapar þetta sundurleita umhverfi lífríki sem birtist í fjölbreyttum gróðri og fuglalífi.

Norðan Vatnajökuls eru eldbrunnin víðerni með margvíslegum eldstöðvum, móbergsmyndunum, brunahraunum, svörtum jökulsöndum og ljósum vikurbreiðum. Hyldjúpt Öskjuvatn er með fegurstu fjallavötnum. Norðan jökuls sjást einnig margs konar ummerki hamfarahlaupa í Jökulsá á Fjöllum, allt frá Kverkfjallarana í suðri til Jökulsárgljúfra og ósa Jökulsár í Öxarfirði í norðri.

Í Jökulsárgljúfrum eru miklar andstæður: kjarr- og blómgróður, blátærar lindir en kolmórauð Jökulsá í hrikalegum gljúfrum að baki. Þar er einstök fossaröð: Hafragilsfoss, Dettifoss og Selfoss. Í Kverkfjöllum mætast jökull, jarðhiti og fjölbreyttar gosmyndanir. Austar eru framhlaupsjöklarnir Brúarjökull og Eyjabakkajökull og megineldstöðin, Snæfell, hæst fjalla utan jökla á Íslandi, gnæfir formfögur yfir víðáttum Snæfellsöræfa. Við framrás jöklanna hafa ýst upp miklir hraukar úr jökulruðningi og jarðvegi.

Við jaðra jökulsins á Suðausturlandi eru líparítskriður og djúpbergsinnskot og einnig fjölbreyttar jökulminjar: jökulgarðar, jökullón, jökulkambar, jökulker og malarásar. Gróskumikill gróður og hávaxinn birkiskógur í hlíðum og dölum stendur andspænis svörtum jökulsöndum og hvítum jöklinum.

Gróðurauðnir einkenna landslag vestan jökulsins, móbergshryggir sem urðu til við gos undir ísaldarjökli, langar gossprungur frá nútíma, vikursandar en einnig gamburmosahraun. Móbergshryggirnir Fögrufjöll og Grænifjallgarður ramma af Langasjó við jaðar þjóðgarðsins. Lakagígar, 25 km löng gossprunga, ásamt hluta Eldhrauns sem rann í Skaftáreldum 1783–1784, eru innan þjóðgarðsins. Við Vatnajökul rís megineldstöðin Tungnafellsjökull með marglitar líparítsmyndanir og háhita og í Vonarskarði er litskrúðugt jarðhitasvæði; þar eru vatnaskil milli Norður- og Suðurlands.