Beint í efni

Ársskýrsla 2021

Vatnajökulsþjóðgarður, þjóðgarður okkar allra

Vatnajökulsþjóðgarður er þrettán ára gömul stofnun í stöðugri þróun. Þjóðgarðurinn nær til Vatnajökuls og stórra svæða í nágrenni hans, þar á meðal þjóðgarðanna sem fyrir voru í Skaftafelli og Jökulsárgljúfrum. Sumarið 2019 var stigið mikilvægt skref í þróun þjóðgarðsins þegar hann var samþykktur á heimsminjaskrá UNESCO sem staðfestir að hann er einstakur á heimsvísu.

Í aðdraganda Alþingiskosninga haustið 2021 kom Vatnajökulsþjóðgarður oft við sögu í umræðum og skrifum um miðhálendisþjóðgarð og friðlýsingar. Þó mikilvægt sé að svo stór mál fái góða umræðu og að tekist sé á um stefnur og aðferðir er miður ef sá málflutningur byggir á vanþekkingu um starfsemi núverandi þjóðgarða.

Í stjórn og fjórum svæðisráðum Vatnajökulsþjóðgarðs situr fólk fyrir hönd sveitarstjórna og hagsmunasamtaka á viðkomandi svæðum. Þetta fólk hefur mikla þekkingu á aðstæðum í heimabyggð sem er afar mikilvægt til að þróa starfsemi þjóðgarðsins og til að skapa samstöðu og sátt.

Gestir Vatnajökulsþjóðgarðs eru fjölbreyttur hópur sem vill upplifa og stunda útivist á margvíslegan hátt. Hlutverk þjóðgarðsins er að tryggja vernd náttúru og menningarminja, bjóða gesti velkomna og veita fræðslu auk þess að viðhalda gönguleiðum og reka gestastofur, skála, salerni og tjaldsvæði. Vatnajökulsþjóðgarður á einnig í mikilvægu samstarfi við fjölmarga sem stunda atvinnustarfsemi í eða við þjóðgarðinn enda er það eitt af markmiðum starfseminnar.

Innan Vatnajökulsþjóðgarðs eru ríflega 1000 km af aksturleiðum, flestar á ábyrgð og undir veghaldi Vegagerðarinnar. Ágreiningur um hvort slóðar eigi að vera opnir eða ekki á aðeins við um 1-2% vega og slóða í þjóðgarðinum.

Ný svæði bættust við Vatnajökulsþjóðgarð á árinu. Sunnan jökuls bættust við hluti af jörðinni Sandfelli og þjóðlendan Hoffellslambatungur. Norðan jökuls nam stækkunin hluta af Bárðdælaafrétt austari. Alls er flatarmál Vatnajökulsþjóðgarðs nú 14.967 km2.

Vatnajökulsþjóðgarður hefur verið rekinn með rekstrarafgangi á árunum 2018 til 2021 og er stofnunin skuldlaus við ríkissjóð. Innan marka Vatnajökulsþjóðgarðs á sér stað mikil uppbygging innviða og má áætla að ríflega einum milljarði hafi verið varið í þetta mikilvæga verkefni á árunum 2020 og 2021. Dæmi um stór verkefni eru bygging gestastofu á Kirkjubæjarklaustri og innrétting gestastofu og skrifstofuhúsnæðis á Skútustöðum við Mývatn.

Framtíðin er björt hjá Vatnajökulsþjóðgarði og það er mikilvægt að hann sé þjóðgarður okkar allra sem við getum talað um af stolti.

Magnús Guðmundsson, framkvæmdastjóri Vatnajökulsþjóðgarðs

Árið í þjóðgarðinum

Gljúfrastofa & Jökulsárgljúfur

Einstök veðurblíða einkenndi sumarið 2021, eftir fremur kalt vor. Fyrir vikið fylltist Ásbyrgi af ferðaglöðum og sólþyrstum landsmönnum og dag eftir dag var tjaldsvæðið þar yfirfullt af fólki. Til marks um það voru gistinætur fleiri en nokkurn tíma áður og það þrátt fyrir að fjöldatakmarkanir vegna COVID-19 tækju gildi undir lok júlí og vöruðu út sumarið. Önnur tímamót í starfsemi þjóðgarðsins í Jökulsárgljúfrum þetta sumarið voru að framkvæmdum lauk við Dettifossveg milli Kelduhverfis og Mývatnsöræfa. Áhrif nýs vegar höfðu þegar komið í ljós með auknum gestafjölda við Dettifoss vestanverðan, en víst má telja að full áhrif komi ekki fram fyrr en eftir 3-5 ár, þ.m.t. á fjölda gesta í Ásbyrgi og á öðrum áfangastöðum ofar í Jökulsárgljúfrum.

Gestastofa á Skútustöðum, Herðubreiðarlindir & Askja

Árið 2021 einkenndist af miklum umsvifum. Nýr þjóðgarðsvörður tók til starfa í lok árs 2020 og ráðið var í nýja stöðu aðstoðarmanns þjóðgarðsvarðar. Landvarðastöðugildi voru þau sömu og árið áður en fljótt varð ljóst að áhrif COVID-19 voru ekki eins mikil á ferðamennsku og árið á undan. Gestir voru því töluvert fleiri en lagt var upp með og álagið líka. Þegar umferðin fór minnkandi í september var sett á óvissustig almannavarna í Öskju sem hafði einnig mikil áhrif á reglubundin störf á svæðinu. Óvenju mikið álag verður ekki einungis skýrt með óvissu sem fylgdi áætluðum gestafjölda og landrisi heldur einnig blíðskapaveðrinu sem einkenndi sumarið. Hiti náði margoft 20 gráðum og lítið sem ekkert rigndi. Heilt yfir gekk sumarið mjög vel og gott veður hafði mjög jákvæð áhrif á gesti og starfsfólk.

Skaftafellsstofa & Skaftafell

Tímamót urðu á suðursvæði þegar ákveðið var að ráða þjóðgarðsvörð og aðstoðarmann með aðsetur í Skaftafelli en frá stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs 2008 hafði verið einn þjóðgarðsvörður á öllu suðursvæði. Árið fór rólega af stað í Skaftafelli og fremur fáir gestir á ferðinni miðað við einn fjölsóttasta stað landsins. Veturinn var því nýttur í ýmis verkefni sem setið höfðu á hakanum vegna anna eins og að skipta út eldhúsinnréttingu á kaffistofunni, mála skrifstofur og taka til í skjölum starfsstöðvarinnar. Veturinn var nokkuð mildur en mesta sólarhringsúrkoma ársins á mannaðri úrkomustöð mældist í Skaftafelli 16. apríl, eða 164,5 mm. Úrkoman hafði slæm áhrif á stígakerfið í Skaftafelli og eiga landverðir mikið verk fyrir höndum í stígaviðgerðum.

Gamlabúð & Breiðamerkursandur

Vatnaskil urðu þegar ráðinn var þjóðgarðsvörður á Höfn en áður hafði svæðið deilt þjóðgarðsverði með Skaftafelli. Sumarstarfsemi á svæðinu gekk vel. Nokkur fjölgun gesta varð við Jökulsárlón. Ferðaglaðir Íslendingar voru stór hluti gesta, en einnig jókst umferð erlendra ferðamanna um 55% frá 2020. Það voraði fremur seint á svæðinu og lítið var farið að grænka í byrjun júní. Sumarið varð þó ágætt veðurfarslega séð þó gróður hafi tekið talsvert seinna við sér en í meðalári. COVID-19 setti mark sitt á stóran hluta ársins, en þó var hægt að halda Gömlubúð opinni allt árið.

Snæfellstofa, Snæfell & Krepputunga

Mikið gleðiefni var að ráða inn yfirlandvörð í fullt starf á svæðið í fyrsta sinn. Einnig var ráðinn inn landvörður í fullt starf sem er unnið til helminga með suðursvæði. Þrátt fyrir það hefur mönnun á svæðinu sjaldan staðið jafn tæpt og þetta starfsár. Því var mikið álag á starfsfólk bæði á hálendi og í Snæfellsstofu. Með frábæru starfsfólki og samvinnu gekk sumarið þó vel. Veðrið á Austurlandi var vægast sagt frábært, dag eftir dag var sól og yfir 20 stiga hiti. Fólk alls staðar af landinu flykktist austur og útivist blómstraði. Gunnar gæs slóst í hópinn með okkur og vakti mikla lukku meðal gesta. Áframhaldandi samstarf var við Fljótsdalshrepp um landvörslu við Hengifoss og einnig við Landsvirkjun um upplýsingagjöf við Kárahnjúka.

Skaftárstofa, Nýidalur, Hrauneyjar, Tungnaáröræfi, Eldgjá, Langisjór og Lakagígar

Vestursvæði

Árið byrjaði rólega, ferðamenn voru örfáir vegna heimsfaraldursins og gestastofan var því lokuð fyrstu þrjá mánuðina. Yfirlandvörðurinn á Skaftárstofu nýtti tímann meðal annars í heimsóknir í nágrannaskólana, kynningar- og fræðsluverkefni. Skrifstofa þjóðgarðsins flutti milli húsa þegar Kirkjubæjarstofa, þekkingarsetur flutti á efri hæð í gömlu heimavistarálmuna í Kirkjubæjarskóla. Um vorið opnaði gestastofan, sólin mætti til okkar og dvaldi fram á haust. Í veðurblíðunni fylltist allt af hamingjusömum ferðamönnum, sem margir dvöldu óvenju lengi á svæðinu. Öll tjaldsvæði á Kirkjubæjarklaustri og nágrenni yfirfylltust helgi eftir helgi og ásóknin var svo mikil að inni í Blágil komu óvenju margir tjaldgestir af því öll önnur tjaldsvæði voru full. Þegar fólk ákveður að dvelja um kyrrt á svæðinu í nokkra daga nýtir það sér upplýsingagjöf landvarða í meira mæli og algengt að fólk leiti til landvarða eftir ferðahugmyndum og afþreyingu dag eftir dag. Þetta er jákvæð þróun og við tökum því fagnandi að fá tækifæri til að fræða og veita upplýsingar til sem flestra sem fara um svæðið. Síðustu mánuði ársins var gestagangur aftur orðinn í lágmarki og hefur heilsársstarfsfólk notað lausar stundir til að hefja undirbúning að hönnun á sýningu og skipulagi starfsemi í nýrri gestastofu sem nú er að rísa við Sönghól, í nágrenni Kirkjubæjarklausturs. Starfsárið gekk vel á vestursvæðinu þó mönnun á landvarðarstöðvunum hafi verið í lágmarki m.a. vegna óvissu um sértekjur vegna áhrifa COVID-19 heimsfaraldurs. Allir starfsmenn lögðust á eitt um að láta hlutina ganga en ljóst er að ekki er hægt að halda óbreyttum rekstri með svo fáum landvarðastöðum annað sumar.

Ársskýrslur Vatnajökulsþjóðgarðs

Skoðaðu aðrar ársskýrslur Vatnajökulsþjóðgarðs hér