Beint í efni

Ársskýrsla 2018

Vatnajökulsþjóðgarður í rétta átt

Vatnajökulsþjóðgarður varð 10 ára þann 7. júlí 2018 og því má segja að þjóðgarðurinn hafi slitið barnsskónum og framundan séu unglingsárin. Þjóðgarðurinn er einn sá stærsti í Evrópu, spannar um 14% af flatarmáli Íslands og nær yfir Vatnajökul og stór svæði í nágrenni hans.

Hjá Vatnajökulsþjóðgarði störfuðu á árinu 2018 um 20 starfsmenn á heilsárgrundvelli og við þann hóp bættust tímbundið um 80 landverðir og aðrir starfsmenn yfir sumarið. Starfsmennirnir búa yfir mikilli þekkingu á rekstri þjóðgarða og því er ekki ofmælt að þeir séu dýrmæt auðlind.

Meginmarkmiðið er að gestir Vatnajökulsþjóðgarðs geti notið náttúrunnar og fengið góða þjónustu á stóru og fjölbreytilegu svæði. Mikilvægt er að standa vörð um náttúruna, fræða gesti og stuðla að atvinnusköpun í og við þjóðgarðinn. Þetta er ögrandi verkefni fyrir fáa starfsmenn í þjóðgarði sem nær bæði yfir víðáttumikil og torfær svæði sem og fjölsótta ferðamannastaði.

Árið 2018 var viðburðaríkt hjá Vatnajökulsþjóðgarði og náðust margir mikilvægir og jákvæðir áfangar. Einnig var tekist á við tímabundinn mótvind vegna frávika í rekstri og var á miðju ári birt úttekt sem var unnin að beiðni umhverfis- og auðlindaráðuneytisins. Þar komu fram ýmsar ábendingar um það sem betur mætti fara. Þessar ábendingar tók stofnunin strax til umfjöllunar með það að markmiði að færa til betri vegar auk þess sem stjórn óskaði eftir aðstoð Ríkisendurskoðunar til að greina vandann enn frekar. Þegar á árinu 2018 voru stigin mikilvæg skref við að bæta reksturinn og efla miðlæga skrifstofu þjóðgarðsins.

Það er grunnmarkmið hjá Vatnajökulsþjóðgarði að búa yfir hæfum, vel þjálfuðum og metnaðarfullum starfsmönnum. Stofnunin vill vera fjölskylduvænn vinnustaður með hvetjandi starfsumhverfi þar sem meðal annars er stuðlað að nýsköpun og starfsþróun. Áfram verður haldið að byggja upp góðan og sveigjanlegan vinnustað.

Framundan eru spennandi tímar hjá Vatnajökulsþjóðgarði og hjá öllum sem unna íslenskri náttúru m.a. vegna þess að sú ríkisstjórn sem nú er við stjórnvölinn hefur sett sér metnaðarfull markmið á sviði náttúruverndar. Gleymum því samt aldrei að lykillinn að því að ná metnaðarfullum markmiðum eru skýr markmið, framtíðarsýn og fólk með þekkingu og dýrmæta reynslu.

Magnús Guðmundsson, framkvæmdastjóri Vatnajökulsþjóðgarðs frá 11. júní 2018

Vatnajökulsþjóðgarður á afmælisári

Vatnajökulsþjóðgarður var stofnaður 7. júní 2008 og fagnaði því 10 ára afmæli á árinu

Vatnajökulsþjóðgarður spannar nú tæp 14% af flatarmáli Íslands og nær yfir Vatnajökul og stór svæði í nágrenni hans. Þar á meðal þjóðgarðana sem fyrir voru í Skaftafelli og Jökulsárgljúfrum. Á árinu var einnig fagnað 50 ára afmæli þjóðgarðs í Skaftafelli með afmælishátíð í Skaftafelli þann 24. nóvember. Þar var mikið um dýrðir, flutt fræðsluerindi og hugleiðingar, spilað og sungið og að lokum gæddu afmælisgestir sér á dýrindisveitingum úr smiðju heimamanna.

Tilnefning til UNESCO

Í janúar 2018 var Vatnajökulsþjóðgarður og hluti gosbeltisins tilnefnd á heimsminjaskrá UNESCO. Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra og Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra. Undirrituðu tilnefninguna fyrir hönd íslenska ríkisins við Hoffellsjökul þann 28. janúar. Við athöfnina sagði umhverfis- og auðlindaráðherra meðal annars:

„Friðlýst svæði eru mörg hver segull fyrir ferðamenn á sama tíma og þau tryggja vernd náttúrunnar. Tilnefning Vatnajökulsþjóðgarðs er lóð á þessa vogarskál og afar ánægjulegt skref. Rannsóknir hérlendis sýna að þjóðgarðar skila okkur raunverulegum efnahagslegum ávinningi bæði fyrir Ísland í heild og í heimabyggð. Náttúruverndin er óumdeilanlega ein grunnundirstaða ferðaþjónustunnar. Í þessu samhengi má nefna að stofnun miðhálendisþjóðgarðs er næsta stóra verkefnið okkar.“

Auk ráðherranna tveggja voru viðstaddir fulltrúar sveitarfélaga, Vatnajökulsþjóðgarðs og höfunda umsóknar, ásamt verkefnisstjórn. Í tilnefningunni er lögð áhersla á rekbeltið og heita reitinn undir landinu og samspil elds og íss, sem talið er einstakt á heimsvísu. Vonast er til að ákvörðun af hálfu heimsminjanefndar UNESCO liggi fyrir um mitt ár 2019. Fyrir á Ísland tvo staði á heimsminjaskránni, Þingvelli (2004) og Surtsey (2008).

Í lok september komu svo fullltrúar IUCN til landsins í úttektarferð og ferðuðust víða um þjóðgarðinn, ásamt fulltrúum stjórnar og starfshóps um tilnefninguna. Opnir upplýsinga- og samráðsfundir voru haldnir með svæðisráðum samhliða ferðunum, á Kirkjubæjarklaustri, Höfn og Egilsstöðum, í Mývatnssveit og Reykjavík.

Fræðsluáætlun

Í þjóðgarðinum skal veita fræðslu um náttúru og náttúruvernd, sögu, mannlíf og menningarminjar svæðisins. Stuðla að rannsóknum til að efla þekkingu á þessum þáttum (reglugerð um Vatnajökulsþjóðgarð nr.608/2008).

Fræðsluáætlun Vatnajökulsþjóðgarðs leit dagsins ljós og var samþykkt af stjórn hans þann 14. ágúst. Með áætluninni er stigið stórt skref í átt að þeim markmiðum er lúta að fræðslustarfi þjóðgarðsins og er m.a. kveðið á um í lögum og reglugerð um Vatnajökulsþjóðgarð. Fræðsla er einn af hornsteinum náttúruverndar og henni er ætlað að ýta undir aukinn skilning almennings á gæðum og sérstöðu svæðisins. Með aukinni þekkingu og skilningi eykst áhugi Íslendinga og erlendra gesta á Vatnajökulsþjóðgarði, náttúru hans og sögu. Sem mun aftur leiða til aukinnar virðingar og umhyggju fyrir svæðinu. Fræðsluáætlunin gegnir lykilhlutverki í að ná þessu markmiði. Vinna við hana hefur staðið yfir síðan 2016 og verkefnið var styrkt af Vinum Vatnajökuls. Fræðsluáætlunin er til fimm ára og verður endurskoðuð fyrir lok þess tímabils. Fyrsta stóra verkefnið í tengslum við áætlunina er ráðning fræðslufulltrúa þjóðgarðsins til að fylgja fræðsluáætluninni eftir. Stefnt er að því að hann taki til starfa á árinu 2019. Kynning á fræðsluáætluninni er hafin og tóku þjóðgarðsverðir meðal annars þátt í kennaraþingum grunnskólakennara til að ræða hvernig efla mætti samstarf skóla og þjóðgarðsins.

Loftslagsbreytingar

Umhverfi Vatnajökulsþjóðgarðs býður upp á einstakt tækifæri til að auka vitund gesta um áhrif og afleiðingar loftslagsbreytinga á náttúru og samfélag. Vatnajökulsþjóðgarður leggur því ríka áherslu á að vekja gesti til umhugsunar um áhrif loftslagsbreytinga með fjölbreyttri fræðslu og styðja við vöktunarrannsóknir.

Breytingar á jöklum vegna hlýnandi loftslags og afleiðingar þeirra á land eru óvíða eins miklar, hraðar og áþreifanlegar og við sunnanverðan Vatnajökul. Jökullinn þynnist, skriðjöklar hörfa, land rís, jökulsker myndast, afrennsli eykst, jökullón stækka, ár breyta um farveg, brýr standa eftir á þurru landi. Nýtt land kemur í ljós og gróður og annað líf skýtur þar rótum. Gögn um jöklabreytingar á Íslandi eru mikilvægar vísbendingar um hnattrænar loftslagsbreytingar.

Hörfandi jöklar

Hörfandi jöklar er samvinnuverkefni Vatnajökulsþjóðgarðs og Veðurstofu Íslands. Fjármagnað af umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, og unnið með Náttúrustofu Suðausturlands og Jöklahóp Jarðvísindastofnunar Háskólans. Markmið verkefnisins, sem er hluti af sóknaráætlun Íslands í loftslagsmálum. Til að auka vitund fólks um loftslagsbreytingar og áhrif þeirra á jökla á Íslandi sem og annars staðar á jörðinni. Verkefnið er til að byrja með bundið við suðursvæði Vatnajökulsþjóðgarðs og ferðamenn kynnast því fyrst í Skaftafelli. Á leiðinni frá Skaftafelli til Hafnar í Hornafirði, alls um 134 km leið, skarta skriðjöklarnir sínu fegursta í góðu skyggni, þar verða settar upp nokkrar stöðvar með fræðsluefni. Vonast er til að hægt verði að miðla upplýsingum um loftslagsbreytingar á sem flestum svæðum þjóðgarðsins.

Ársskýrslur Vatnajökulsþjóðgarðs

Skoðaðu aðrar ársskýrslur Vatnajökulsþjóðgarðs hér