Tungnaáröræfi
Við fyrstu sýn virðast Tungnaáröræfi grá og líflaus en hér eins og annars staðar finnur lífið sér leið. Gráu tónarnir eru margslungnir og á milli þeirra má finna mórautt móberg og svartan vikur. Landið norðan Tungnaár allt til Vonarskarðs er eldbrunnin eyðimörk undir áhrifum frá eldstöðvakerfi Bárðarbungu. Svæðið er afar fáfarið og hér er öræfakyrrðin mikil. Hér er auðvelt að heillast af víðáttunni, auðninni og andstæðum svartra sanda, fagurgræns mosa og hins þrautseiga háfjallagróðurs sem leynist í auðninni, ef vel er að gáð.