Vatnajökulsþjóðgarður var stofnaður árið 2008. Hann nær yfir allan Vatnajökul og stór svæði í nágrenni hans. Þjóðgarðar eru friðlýst svæði sem teljast sérstæð vegna náttúrufars eða sögulegrar helgi. Sérstaða Vatnajökulsþjóðgarðs felst einkum í fjölbreytilegum landslagsformum sem samspil eldvirkni, jarðhita, jökuls og vatnsfalla hafa skapað.

Þjóðgarðurinn rekur nú fimm gestastofur. Þær eru: Gljúfrastofa í Ásbyrgi, Snæfellsstofa á Skriðuklaustri, Gamlabúð á Höfn í Hornafirði, Skaftafellsstofa í Skaftafelli og Skaftárstofa á Kirkjubæjarklaustri, sem rekin er í húsnæði og samvinnu við Skaftárhrepp, þangað til ný verður byggð. Yfir sumartímann teygir starfsemi þjóðgarðsins sig vítt um garðinn en á veturna, þegar hálendinu er lokað, einskorðast hún við færri staði. Á kortinu hér sjást landvörslu- og starfsstöðvar þjóðgarðsins. Landvörslustöðvar eru merktar með appelsínugulum kössum. Aðalskrifstofa þjóðgarðsins er til húsa í Garðabæ og reikningshaldi er sinnt í Fellabæ.