Kverkfjöll

Í Kverkfjöllum hefur byggst upp þjónusta við ferðamenn og má finna þar áhugaverðar gönguleiðir um eitt öflugasta háhitasvæði landsins. Góður búnaður er nauðsynlegur og gæta þarf ítrastu varúðar á leið að íshelli og á jökul vegna hruns, jökulsprungna og dimmviðris. Mikil hrunhætta er í íshellinum og því er ekki ráðlagt að fara þangað inn. Brýnt er að hafa öll nauðsynleg hjálpartæki með á jökul, svo sem áttavita eða GPS-tæki, línur, brodda og sólgleraugu.

Sigurðarskáli - Kverkjökull
Um þrír kílómetrar eru að sporði Kverkjökuls, eftir gönguleið yfir jökulruðning eða eftir bílaslóð inn á jökulurðina skammt frá ánni Volgu. Gæta þarf ítrustu varúðar vegna hruns við jökuljaðarinn.

Virkisfell - Biskupsfell
Gengið er inn og upp frá Sigurðarskála úr suðri á Virkisfell (1108 m). Biskupsfell (1240 m) er hálfum öðrum kílómetra austar, einnig auðvelt uppgöngu sunnan frá. Þaðan blasir við Tvíhyrna (1240 m).

Sigurðarskáli - Kverkfjallarani - Hveragil
Frá Sigurðarskála er gengið milli fella og hnjúka til austurs yfir eldgjár og hrauntauma, um 12 km leið. Í Hveragili eru volgrur á nokkrum stöðum, allt að 62 gráðu heitar. Þaðan inn að Þorbergsvatni við jaðar Brúarjökuls eru um 8 km.
Auk gönguleiðarinnar liggur jeppaslóð af Kverkfjallavegi innan við Hvannalindir um 38 km leið að Hveragili vestur af Vatnahrygg. Liggur hún um melöldur, fram hjá tjörnum og yfir fimm hrauntauma.

Gönguferð á Kverkfjöll vestari
Frá Sigurðarskála er haldið að Kverkjökli norðan við ánna Volgu og gengið sniðhallt upp og suður yfir jökulinn fram hjá sprungusvæðum að jaðarurðum í um 1260 m hæð. Þaðan er gengið beint upp brekkuna á milli skerja þar til um 1750 m hæð er náð. Þá gengið í vesturátt og hæð haldið þar til komið er að neðri Hveradal. Í jöklinum eru djúpar sprungur og svelgir. Aldrei skal halda á jökul nema að hafa meðferðis nauðsynlegan öryggisbúnað og í fylgd reyndra jöklaleiðsögumanna.

Skarphéðinstindur - Kverk - Sigurðarskáli
Frá skála Jöklarannsóknafélagsins við Hveradal er hæg ganga suðaustur yfir öskju Kverkfjalla á Skarphéðinstind (1936 m) en þaðan er afar víðsýnt. Í bakaleið má ganga niður vestan við Kverk. Gæta þarf þess að þoka getur skollið yfir uppi á Kverkfjöllum þá minnst varir.

Við Kverkfjöll og í grennd geta verið snögg veðrabrygði, þar sem þoka, stórviðri og sandbyljir geta skollið á fyrirvaralítið. Leitið til landvarða eða skálavarða til að fá upplýsingar um veðurfar.