Laki

Áttunda júni 1783 hófst gos við fjallið Laka, lítið móbergsfjall sunnan við Skaftá. Í gosinu opnaðist um 25 km löng gossprunga og stendur Laki nokkurn veginn í miðri gígaröðinni sem nefndir eru Lakagígar.  Margar merktar gönguleiðir liggja um Lakagíga og nágrenni en gangandi umferð  utan merktra göngustíga er óheimil vegna þess hve viðkvæmur mosagróðurinn er fyrir átroðningi.

Laki

Vegalengd: 2 km (4 km hringleið)
Göngutími:  1 - 1 ½ klst. hringleið
Erfiðleikastuðull gönguleiðar:
Krefjandi leið (rauð leið)

Vinsælasta gönguleiðin liggur frá  bílastæðinu og upp á fjallið Laka. Gangan tekur 1 til 1,5 klst og þaðan er stórkostlegt útsýni yfir gígaröðina.

 

Gestagatan

Vegalengd: 500 m. hringleið
Göngutími: ½ klst. 
Erfiðleikastuðull gönguleiðar:
 Krefjandi leið (rauð leið)

Við Laka hefur verið lögð gestagata sem segir sögu Skaftárelda og frá náttúrunni við Lakagíga. Gatan er um það bil 500 m löng og liggur í gegnum einn gíganna, vörðuð númeruðum stöðvum. Við upphaf götunnar er kynningarspjald og litlir bæklingar sem fólk tekur með sér á gönguna. Á hverri stöð má lesa lítið sögubrot eða stuttan texta um tiltekið náttúrufyrirbæri sem sjá má í nánasta umhverfi. Gestagötunni er ætlað að bæta upplifun gesta og auka tilfinningu þeirra fyrir náttúru svæðisins. Sambærilegar gestagötur eru í Ásbyrgi, við Brúarjökul og í Skaftafelli. Verkefnið er styrkt af Vinum Vatnajökuls.

Gestagötubæklingur á íslensku er hér.

Bæklingur á ensku er hér.

 

Tjarnargígur

Vegalengd: 500 m önnur leiðin
Göngutími: ½ klst. báðar leiðir
Erfiðleikastuðull gönguleiðar:
 Auðvelt (blá leið)

Stutt og mjög falleg gönguleið sem liggur frá bílastæðinu inn að barmi Tjarnargígs þar sem fallegt útsýni er inn í gíginn.

 

Tjarnargígur - Eldborgarfarvegur

Vegalengd: 4,5 km. hringleið
Göngutími: 2 klst. 
Erfiðleikastuðull gönguleiðar:
Krefjandi leið (rauð leið)

Gönguleiðina inn að Tjarnargíg má lengja með því að ganga áfram niður hrauntröðina (Eldborgarfarveg) inn í stóran nafnlausan gíg og síðan akveginn að bílastæðinu við Tjarnargíg.

 

Lambavatn - Kambar

Vegalengd: 11 km. hringleið
Göngutími:  4 - 5 klst. hringleið
Erfiðleikastuðull gönguleiðar: Krefjandi (rauð leið)

Gengið er frá bílastæði við Lambavatn meðfram Kambavatni að austan og upp á Kamba. Þar er gengið niður og meðfram Kömbunum að norðan í austurátt, við enda fjallsins er beygt í suður að Kambavatni og sama leið gengið frá Kambavatni að bílastæðinu.

 

Úlfarsdalur - Snagi (Skaftárgljúfur) - Kambar

Vegalengd: 11 km. hringleið
Göngutími: 4 - 5 klst. hringleið
Erfiðleikastuðull gönguleiðar:
Krefjandi (rauð leið)

Gengið er frá bílastæði vestan við Lakagíga í vestur í átt að Skaftá sunnan Uxatinda. Þar er gengið meðfram Skaftárgljúfri og í átt að Kömbum og loks niður Úlfarsdalssker.