Jökulsárgljúfur

Tveggja daga gönguleið liggur um Jökulsárgljúfur, milli Dettifoss og Ásbyrgis. Fjölbreytileiki landslagsins er einstakur og andstæður í umhverfinu fanga augað við hvert fótspor: hrikaleg gljúfur, kyrrlátar tjarnir, tærar lindir, úfin jökulsá, gróskumikill skógur og grýttur melur.

Ásbyrgi - Dettifoss

Vegalengdir

  • Ásbyrgi - Dettifoss: 32 km (stysta leið)
  • Ásbyrgi - Vesturdalur: 12 km eða 13,6 km (sjá leiðarlýsingu)
  • Vesturdalur - Hólmatungur: 8 km
  • Hólmatungur - Dettifoss (um Hafragil): 11,5 km

Leiðarlýsing
Það þarf að ætla sér tvo daga í að ganga á milli Ásbyrgis og Dettifoss og þá er miðað við að náttstað í Vesturdal. Einungis er leyft að tjalda á tjaldsvæði í Vesturdal og við Dettifoss. Frá Ásbyrgi má velja tvær leiðir til Vesturdals: Annars vegar er það leiðin eftir barmi Ásbyrgis, um Klappir og Kvíar, rúmir 12 km. Hinsvegar má ganga austari leiðina, meðfram Jökulsá, en sú leið er um 13,6 km. Báðar leiðir hefjast við Gljúfrastofu í Ásbyrgi. Hægt er að fara tvær leiðir til að komast upp á barm Ásbyrgis. Auðveldari leiðin er að fara austur yfir golfvöllinn og beygja til suðurs á gatnamótum austan golfvallar, þaðan liggur leiðin upp á barminn þar sem hann er lægstur. Erfiðari leið er að fara beint í suður frá Gljúfrastofu að gatnamótum við Tófuklif, þar sem beygt er til austurs og klifrað upp vegginn með því að styðja sig við kaðal. Ekki er mælt með þessari leið ef fólk er með þungar byrðar. Við Tófuklif er síðan valið hvor leiðin er farin í Vesturdal.

Leiðin milli Vesturdals og Hólmatungna er um 8 km. Á þessum hluta er eina áin sem þarf að vaða á leiðinni, Stallá. Stallá er lindá sem rennur út í Jökulá. Hún er grunn og köld, en vaðið hressir aðeins þreytta fætur og gerir ferðina enn eftirminnilegri.

Frá Hólmatungum eru um 10 km suður að Dettifossi, ef farið er ofan í Hafragilsundirlendi. Sé gengið meðfram Hafragilinu er leiðin um 11,5 km. Ekki er mælt með að fólk fari með þungar byrðar ofan í Hafragilsundirlendið heldur er göngufólki ráðlagt að fara að tjaldsvæðinu við Dettifoss, létta þar byrðar síðan og ganga síðan Hafragilsundirlendið.

 

Gistimögleikar
Á leiðinni eru engir gönguskálar og eingöngu má tjalda á merktum tjaldsvæðum. Í Vesturdal er fallegt tjaldsvæði. Þar er salernisaðstaða og rennandi, kalt vatn, en ekki sturtuaðstaða. Vinsamlegast hafið samband við landverði áður en tjaldað er. Við Dettifoss er lítið tjaldsvæði eingöngu ætlað fyrir göngufólk. Tjaldsvæðið er rétt norður af bílastæðinu. Við Dettifoss er ekki rennandi vatn en landverðir koma daglega með drykkjarvatn í brúsa á tjaldsvæðið

Drykkjarvatn

  • Milli Ásbyrgis og Vesturdals er enginn lækur eða lind til að taka vatn úr og göngufólk þarf því að bera allt vatn með sér.
  • Í Vesturdal er rennandi vatn í salernishúsum. Ekki er mælt með að drekka vatn úr Vesturdalsánni sökum mikillar umferðar fólks um svæðið á sumrin.
  • Í Hólmatungum er mikið um lindár sem óhætt er að drekka vatn úr.
  • Milli Hólmatunga og Dettifoss er eina lindáin í Hafragili og er vatnið þar drykkjarhæft.
  • Við Dettifoss er ekkert rennandi vatn. Landverðir bera vatn í brúsa á tjaldsvæðið. Göngufólk er vinsamlega beðið um hófsama notkun á því vatni.

Sérstakar hættur
Gönguleiðin er að mestu greiðfær. Helstu hindranir á leiðinni eru:

  • Tófuklif í Ásbyrgi er leið sem liggur upp klettavegginn, upp stiga og kaðal, upp á barm Ásbyrgis. Hægt að velja aðra leið til að komast upp á barminn. Sjá leiðarlýsingu.
  • Stallá er eina áin sem þarf að vaða. Hún er grunn en köld og reynist ferðalöngum ekki mikil hindrun.
  • Hafragilsundirlendi er erfiðasta gönguleiðin í Jökulsárgljúfrum en jafnframt sú mikilfenglegasta. Þeim sem bera þungar byrðar er ekki ráðlagt að fara niður í undirlendið, þar sem ganga þarf um einstigi, yfir stórgrýti og í Sandal er kaðall sem þarf að styðjast við til að fara upp/niður undirlendið. Betra er að ganga alla leið að tjaldstæðinu við Dettifoss, skilja þar farangurinn eftir og ganga síðan um undirlendið. Einnig er þeim sem eru lofthræddir ráðlagt að fara ekki þessa gönguleið.

 

Ferðamöguleikar
Vinsamlegast athugið að SBA-Norðurleið hefur hætt föstum áætlunarferðum að Dettfossi, Ásbyrgi og um Jökulsárgljúfur. Fyrirtækið Nordic Natura í Kelduhverfi býður hins vegar upp á þjónustu við göngufólk og aðra ferðamenn: https://nordicnatura.is/portfolio/skutlthjonusta-fyrir-gongu-og-hjolreidafolk/