Gerðir jökla

Jökla má flokka eftir lögun og flatarmálsdreifingu með hæð, hita, hreyfingu/virkni, eða staðsetningu á jörðinni:

Daljökull: Jökull sem skríður fram dal og fær oft ís frá hveljökli eða ísbreiðu. Daljöklar hafa vel skilgreint safnsvæði sem afmarkast af landslaginu. Skriðjöklar Öræfajökuls eru margir hverjir dæmigerðir daljöklar.

Virkisjökull og Falljökull. Ljósmynd: Snævarr Guðmundsson, 2006.

Virkisjökull og Falljökull. Ljósmynd: Snævarr Guðmundsson, 2006.

 

Falljökull: myndast þar sem jökull fellur fram af brún, yfirborðið er mjög sprungið og jökullinn brotnar í ísflykki. Morsárjökull, Svínafellsjökull, Falljökull falla allir fram af brattri brún þar sem jökullinn brotnar og nær síðan saman fyrir neðan.

Íshrun í Morsárjökli. Ljósmynd: Guðmundur Ögmundsson, 2012.

Íshrun í Morsárjökli. Ljósmynd: Guðmundur Ögmundsson, 2012.

 

Fjallsrótarjökull: Jökull sem er aðþrengdur ofarlega en breiðir úr sér þegar hann kemur niður á sléttlendi. Skeiðarárjökull og Múlajökull í Hofsjökli eru dæmigerðir fjallsrótarjöklar.

Skeiðarárjökull MODIS 4. ágúst 1999. Heimild: https://terra.nasa.gov/about/terra-instruments/modis.

Skeiðarárjökull MODIS 4. ágúst 1999. Heimild: https://terra.nasa.gov/about/terra-instruments/modis.

 

Grjótjökull (urðarjökull, þelaurð): Blanda íss og urðar sem hreyfist svipað og jöklar úr ís. Grjótjöklar myndast þar sem grjótkápa hylur jökul, t.d. í bröttum dölum, en geta einnig myndast þegar frosinn jarðvegur sígur niður brattlendi. Margvísleg ummerki grjótjökla er að finna norðvestan við Bárðarbungu.

 

Hengijökull/hangandi jökull: Þegar litlir daljöklar í hliðardölum hörfa missa þeir stundum samband við megindaljökulinn og verða eftir upp í hliðardalnum. Birkidalsjökull austan við Morsárjökul er dæmigerður hangandi jökull.

Birkidalsjökull efst til hægri, Morsárjökull fyrir miðri mynd og til vinstri. Ljósmynd: Matthew J. Roberts, 2007.

Birkidalsjökull efst til hægri, Morsárjökull fyrir miðri mynd og til vinstri. Ljósmynd: Matthew J. Roberts, 2007.

 

Hveljökull (jökulskjöldur): Jökull þar sem ísinn skríður í allar áttir út frá bungum og er minni en 50.000 km2. Hveljökla er aðallega að finna á heimskautasvæðum. Fimm stærstu jöklar landsins eru hveljöklar (Vatnajökull, Hofsjökull, Langjökull, Mýrdalsjökull og Drangajökull).

MODIS gervitunglamynd af Íslandi sem sýnir stærstu hveljökla Íslands. Heimild: https://terra.nasa.gov/about/terra-instruments/modis.

MODIS gervitunglamynd af Íslandi sem sýnir stærstu hveljökla Íslands. Heimild: https://terra.nasa.gov/about/terra-instruments/modis.

 

Hvilftarjökull (skálarjökull, hengijökull): Jökull sem fyllir upp í dældir og hvilftir, er gjarnan breiðari en sem nemur lengd hans og grefur sig lítið niður.

 

Íshellur (ísþiljur, jökulþekja): Íshellur myndast þar sem jökull skríður út í sjó og flýtur. Þær teljast hluti af jökli á landi sem fæðir þær. Ákoma safnast líka ofan á þær og einnig getur sjór frosið við botninn. Þar sem jökullinn losnar frá undirlaginu kallast flotlína. Ísþiljur eru um 7% af flatarmáli Suðurskautslandins og umlykja það að mestu. Litlar íshellur hylja Grímsvötn og Skaftárkatla og fremsta hluti Breiðamerkurjökuls.

Íshellan í Grímsvötnum við Grímsfjall. Ljósmynd: Hrafnhildur Hannesdóttir.

Íshellan í Grímsvötnum við Grímsfjall. Ljósmynd: Hrafnhildur Hannesdóttir.

 

Ísstraumar: Hraðskreiðir taumar í ísbreiðum sem hreyfast mun hraðar en nærliggjandi ís. Ísstraumar flytja mikið ísmagn frá ákomusvæði ísbreiðunnar út í sjó. Þá er einkum að finna á Grænlandi og Suðurskautslandinu.

Byrd ísstraumurinn á Suðurskautslandinu. Heimild: USGS/Landsat.

Byrd ísstraumurinn á Suðurskautslandinu. Heimild: USGS/Landsat.

 

Jökulbreiða/meginlandsjökull: Mikill og samfelldur jökull sem þekur undirliggjandi landslag og er stærri en 50.000 km2. Dæmi um slíka jökla eru t.d. Suðurskautslandið og Grænlandsjökull.

Gervitunglamynd af Suðurskaustslandinu. Heimild: NASA Blue marble gagnasafnið

Gervitunglamynd af Suðurskaustslandinu. Heimild: NASA Blue marble gagnasafnið.

 

Jökulkápa: Jökull sem þekur fjalllendi, en er ekki nægilega þykkur til þess að afmá áhrif botnlandslags á jökulyfirborðið. Þar af leiðandi er ísflæðið ekki út frá hæstu svæðum eins og á hveljöklum og jökulbreiðum.

 

Jökulleif: Lítill jökull, sem hreyfist lítið sem ekkert og hefur ekki vel afmörkuð safn- og leysingarsvæði.

Hofsjökull eystri. Ljósmynd: Snævarr Guðmundsson.

Hofsjökull eystri. Ljósmynd: Snævarr Guðmundsson, 2006.

 

Jökulsvuntur: Litlir jöklar sem hanga utan í fjallshlíðum. Slíka jökla er að finna utan í Þverártindsegg, í Jökulgili, Tungutindum og víða annars staðar í Vatnajökulsþjóðgarði.

Jökulgilstindar. Ljósmyndari: Oddur Sigurðsson, 2002.

Jökulgilstindar. Ljósmyndari: Oddur Sigurðsson, 2002.

 

Sjávarfallajökull: Jökultunga sem skríður í sjó fram og kelfir. Breiðamerkujökull kelfir í Jökulsárlón sem er blanda af ferskvatni og sjó.

Breiðamerkurjökull og Jökulsárlón. Ljósmynd: Oddur Sigurðsson, 2002.

Breiðamerkurjökull og Jökulsárlón. Ljósmynd: Oddur Sigurðsson, 2002. 

 

Skriðjökull: Jökull sem skríður niður dal út frá hveljökli eða jökulbreiðu. Samtals er að finna um 40 skriðjökla í Vatnajökli.

Flugljósmynd af Öræfajökli, Kotárjökull o.fl. Ljósmynd: Snævarr Guðmundsson.

Flugljósmynd af Öræfajökli, Kotárjökull o.fl. Ljósmynd: Snævarr Guðmundsson, 2006. 

 

Urðarkápujöklar: Jöklar huldir jökulruðningi sem getur einangrað jökulísinn og hægt á eða komið í veg fyrir leysingu. Hrútárjökull er dæmigerður urðarkápujökull.

Rjúpnabrekkujökull. Ljósmynd: Snævarr Guðmundsson, 2010.

Rjúpnabrekkujökull, að hluta til hulinn urðarkápu. Ljósmynd: Snævarr Guðmundsson, 2010.