Loftslag og veður á Íslandi

Veður er síbreytilegt og aðeins hægt að spá fyrir um það nokkra daga fram í tímann. Loftslag er aftur á móti nokkurs konar meðalveður yfir langan tíma og það breytist hægt. Mæla þarf veðrið í marga áratugi til þess að geta sagt til um loftslagsbreytingar.

Ísland liggur í Norður-Atlantshafi, rétt sunnan norðurheimsskautsbaugs. Landið er á mörkum tveggja loftslagsbelta, tempraða beltisins og heimskautasvæðanna, og þar ríkir kaldtemprað úthafsloftslag. Hlýr hafstraumur úr suðri, Norður-Atlantshafsstraumurinn, veldur því að loftslagið er milt miðað við hnattstöðu landsins. Ársmeðalhiti á láglendi á tímabilinu 1971 til 2000 var á bilinu 2–5°C. Suðlægir vindar sem flytja með sér úrkomu ráða mestu um hvar stærstu jökla landsins er að finna. Meðalársúrkoma er meiri en 4000–5000 mm (að hámarki um 8000 mm) efst á Vatnajökli og Mýrdalsjökli, en nær 3500 mm á Hofsjökli og Langjökli.

Hiti á Norður-Atlantshafssvæðinu fyrr á öldum hefur verið áætlaður út frá súrefnissamsætum í ískjörnum frá Grænlandi og er talið að niðurstöðurnar endurspegli aðstæður á Íslandi. Loftslag var kaldast á litlu ísöld (1450–1900). Frá upphafi Íslandsbyggðar fram á 13. öld var hiti svipaður og um miðbik 20. aldar, eða um 1°C hlýrra en kaldasta tímabil litlu ísaldar. Fá svæði á Íslandi hafa orðið fyrir eins miklum áhrifum af loftslagsbreytingum eins og Suðausturland. Á seinni hluta litlu ísaldar gengu jöklar langt fram á láglendið og náðu hámarksútbreiðslu á sögulegum tíma.

 

Helstu sjávarstraumar í Norður-Atlantshafi. Heimild: Unnsteinn Stefánsson (1999).

Helstu sjávarstraumar í Norður-Atlantshafi. Heimild: Unnsteinn Stefánsson (1999).

 

Ársmeðalhiti í Stykkishólmi 1798–2016. Heimild: Veðurstofa Íslands.

Ársmeðalhiti í Stykkishólmi 17982016. Heimild: Veðurstofa Íslands.

 

Meðalárshiti á Íslandi síðustu 1100 ár. Appelsínugula línan sýnir hita áætlaðan út frá súrefnissamsætum í ískjörnum Grænlandsjökuls. Bláa línan er mat Sigurðar Þórarinssonar (1974). Heimild: Mynd teiknuð eftir Helga Björnssyni (2017).

Meðalárshiti á Íslandi síðustu 1100 ár. Appelsínugula línan sýnir hita áætlaðan út frá súrefnissamsætum í ískjörnum Grænlandsjökuls. Bláa línan er mat Sigurðar Þórarinssonar (1974). Heimild: Mynd teiknuð eftir Helga Björnssyni (2017).