Beint í efni

Umhverfisvænar salernislausnir – Heinaberg, Hólmatungur og Langavatnshöfði

Á árinu 2021 er gert ráð fyrir uppsetningu þriggja þurrsalerna í Vatnajökulsþjóðgarði; á Heinabergi, í Hólmatungum og við nýtt bílastæði á Langavatnshöfða. Um er að ræða þurrsalernislausn samkvæmt finnskri hönnun.

26. febrúar 2021

Þurrsalerni í Vikraborgum við Öskju. Mynd: Jóhanna Katrín Þórhallsdóttir

Á árinu 2021 er gert ráð fyrir uppsetningu þriggja þurrsalerna í Vatnajökulsþjóðgarði; á Heinabergi, í Hólmatungum og við nýtt bílastæði á Langavatnshöfða. Um er að ræða þurrsalernislausn samkvæmt finnskri hönnun. Komin er góð reynsla af notkun sambærilegra salerna í Vikraborgum við Öskju sem tekin voru í notkun sumarið 2018. Eins styttist í opnun salernishúss við Dettifoss þar sem unnið er með sömu lausnir.

Notkun þurrsalerna er sjálfbærari útfærsla heldur en hefðbundin vatnssalerni, sérsaklega þar sem er takmarkað aðgengi að vatni og rafmagni, og ef fara þarf langa leið með úrgang. Á þurrsalernunum er ekkert vatn heldur safnast úrgangur í tunnur undir húsum og þvag fer áfram í sérstakan safntank. Úrgangsefnið verður svo meðhöndlað og nýtt til uppgræðslu í samstarfi við Landgræðsluna. Því má segja að jákvæð umhverfisáhrif verði af þessum nýju salernum. Uppbygging og rekstur þurrsalerna styður við 6. heimsmarkmið sameinuðu þjóðganna, um að tryggja aðgengi að og sjálfbæra nýtingu á vatni og salernisaðstöðu.

Annað sem telst vera kostur við þurrsalernislausnina er rekstraröryggi, því hvorki stíflast né frýs í lögnum. Í því samhengi ber að líta til þess að hvorki er hitaveita né veiturafmagn á þessum þremur stöðum og salernishúsin því óupphitað. Þar með er ekki sagt að húsin séu með öllu rafmagnslaus því sólar- og vindorka verður nýtt til lýsingar innandyra.

Áætlaður kostnaður við þetta verkefni er 57 milljónir króna og er fjármagnað með framlagi úr landsáætlun um uppbyggingu innviða til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum. Landsáætlunin er stefnumarkandi tólf ára áætlun sem fjallar um stefnumótun vegna uppbyggingar innviða á ferðamannastöðum, leiðum og svæðum. Alþingi samþykkti áætlunina sem þingsályktun í júní 2018.

Staðsetning nýrra þurrsalerna (bláir punktar) og staðsetning núverandi þurrsalerna (svartir punktar). Teikning af þurrsalerni og ljósmynd frá Vikraborgum. (Mynd: Jóhanna Katrín Þórhallsdóttir).