Sprungan á Snæfelli – 90m frá aðalgönguleið
Landverðir í Snæfelli hafa metið aðstæður á fjallinu eftir að sprunga fannst nálægt aðalgönguleiðinni á fjallið 24. ágúst síðastliðinn. Sprungan er um 90 metra frá aðalgönguleiðinni og ef skyggni er gott þá sést hún vel, meðan að ekki bætir í snjó.
Snæfell séð frá Drekagili. Mynd: Stefanía Eir Vignisdóttir.
Göngufólk er þó enn beðið að gæta varúðar við göngu á fjallið, sérstaklega ef skyggni er ekki gott. Eins er göngufólki bent á að hafa viðeigandi búnað til fjallaferða og þekkingu á notkun hans.
Undanfarna daga hafa aðstæður verið góðar á svæðinu, færið gott og Snæfell skartað sínu fegursta á góðum veðurdögum.