Ný reglugerð fyrir Vatnajökulsþjóðgarð
Reglugerð um Vatnajökulsþjóðgarð hefur verið endurútgefin með viðbót sem fjallar um atvinnutengda starfsemi í þjóðgarðinum. Tilgangurinn er að móta samræmdar reglur fyrir atvinnustarfsemi innan þjóðgarðsins á grunni atvinnustefnu hans.
Með atvinnustefnu útskýrir stjórn þjóðgarðsins hvernig samstarfi hans við atvinnulífið á að vera háttað. Samkvæmt lögum um þjóðgarðinn er óheimilt er að reka atvinnutengda starfsemi í þjóðgarðinum án samnings um slíka starfsemi við Vatnajökulsþjóðgarð. Atvinnustefnan útskýrir m.a. hvers konar atriði verða sett í samninga varðandi réttindi og skyldur aðila.
Með þessum breytingum á reglugerðinni eru því skapaðar forsendur fyrir innleiðingu atvinnustefnunnar. Einnig skapast betri forsendur fyrir atvinnustarfsemi í þjóðgarðinum og grundvöllur styrkist fyrir stjórnsýslu Vatnajökulsþjóðgarðs um atvinnutengda starfsemi. Þjóðgarðurinn hefur samtímis unnið að gerð verkferla við gerð samninga og útgáfu þeirra leyfa sem kveðið er á um í reglugerðinni. Með þessum umbótum á regluverki þjóðgarðsins er því verið að skapa forsendur fyrir fjölbreytta og öfluga atvinnutengda starfsemi í tengslum við hann með vernd náttúru og sjálfbærni að leiðarljósi.
Almennt leitast Vatnajökulsþjóðgarður við að hafa virkt og skipulagt samráð við þá sem stunda atvinnurekstur í Vatnajökulsþjóðgarði og nágrenni hans. Er það yfirlýst markmið þjóðgarðsins að miðla upplýsingum, tímanlega og ítarlega, um fyrirætlanir sínar og stjórnsýslu.
- Skoða nýja reglugerð um Vatnajökulsþjóðgarð, 300/2020
- Nánar um Atvinnustefnu á vef Vatnajökulsþjóðgarðs
Reglugerðin fékk númerið 300/2020 og einfaldar og skýrir mjög löggjöf þjóðgarðsins eins og sjá má á listanum hér fyrir neðan yfir reglugerðir sem falla úr gildi:
- Reglugerð nr. 608/2008 um Vatnajökulsþjóðgarð með síðari breytingum sbr.
- Reglugerð nr. 755/2009,
- Reglugerð nr. 764/2011,
- Reglugerð nr. 463/2013,
- Reglugerð nr. 724/2013,
- Reglugerð nr. 749/2013,
- Reglugerð nr. 457/2014,
- Reglugerð nr. 730/2017,
- Reglugerð nr. 663/2019,
- Reglugerð nr. 739/2019