Atvinnustefna

Vatnajökulsþjóðgarði hefur frá upphafi verið ætlað að styrkja byggð og atvinnustarfsemi í nágrenni þjóðgarðsins, m.a. með því að hvetja til sjálfbærrar nýtingar gæða svæðisins en sérstakt ákvæði þess efnis kom inn í lög um þjóðgarðinn við breytingu árið 2016.  

 

Sú atvinnustefna sem hér er sett fram lýsir afstöðu þjóðgarðsins til tiltekinna grundvallaratriða sem varða samstarf við atvinnulífið en auk hennar þarf reglugerð að innihalda ákvæði sem varða málsmeðferð. Einnig er mikilvægur grunnur í stjórnunar- og verndaráætlun þjóðgarðsins því þar er skilgreint hvernig þjónustu og aðgengi í þjóðgarðinum skuli háttað, þar á meðal hámarksumfang starfsemi á hverjum stað, ef ástæða er til.

Í atvinnustefnunni eru dregnar upp meginlínur en ýmislegt þarfnast nánari útfærslu og samráðs við hagaðila. Í þeim efnum þarf að tryggja sanngjarna niðurstöðu fyrir þá sem þegar veita þjónustu innan þjóðgarðsins.

Atvinnustefna var samþykkt af stjórn Vatnajökulsþjóðgarðs 24. júní 2019 

Samráð

Stjórn þjóðgarðsins vann að mótun atvinnustefnu til að tryggja tillit til sjónarmiða hagsmunaaðila við mótun hennar, samhliða vernd þjóðgarðsins.  Lögð var áhersla á að eiga gott samstarf við alla þá sem nýta þjóðgarðinn beint eða óbeint til atvinnusköpunar.  Stjórn Vatnajökulsþjóðgarðs lagði fram drög að atvinnustefnu fyrir þjóðgarðinn. Þau má opna með því að smella hérÓskað var eftir skriflegum ábendingum og athugasemdum í síðasta lagi 1. maí 2019. Samráðsfundir voru haldnir á öllum rekstrarsvæðum og í Reykjavík í febrúar og byrjun mars ásamt vefkönnun sem var opin til 12. mars 2019.  Miklar upplýsingar söfnuðust um viðhorf þátttakenda til ýmissa spurninga sem beint eða óbeint snertu atvinnustarfsemi í þjóðgarðinum og að lokum var atvinnustefna samþykkt af stjórn Vatnajökulsþjóðgarðs 24. júní 2019

Spurt og svarað

Hvað er atvinnustefna?

Með því að setja fram atvinnustefnu útskýrir stjórn þjóðgarðsins hvernig samstarfi hans við atvinnulífið á að vera háttað. Samkvæmt lögum um þjóðgarðinn er óheimilt er að reka atvinnutengda starfsemi í þjóðgarðinum án samnings um slíka starfsemi við Vatnajökulsþjóðgarð. Atvinnustefnan útskýrir m.a. hvers konar atriði verða sett í samninga varðandi réttindi og skyldur aðila.

Stendur til að takmarka atvinnustarfsemi í þjóðgarðinum?

Nei, þvert á móti. Með því að hafa allar leikreglur skýrar og gegnsæjar vonast stjórn þjóðgarðsins til þess að auðveldara verði að heimila atvinnustarfsemi sem virðir grunnreglur um vernd náttúru og góða starfshætti.

Hverjir munu þurfa að hafa samning við þjóðgarðinn?

Samkvæmt lögunum (sjá gr. 15.a í lögum nr. 60/2007) eru það allir þeir sem stunda atvinnutengda starfsemi í þjóðgarðinum. Það er hins vegar ljóst að ákvæðinu verður ekki skyndilega beitt á alla starfsemi sem til greina kemur. Fyrst verður lögð áhersla á starfsemi sem gefa þarf skýra umgjörð vegna náttúruverndar, öryggis gesta eða annarra mikilvægra sjónarmiða. Aðilar sem standa fyrir tímabundnum verkefnum innan þjóðgarðsins, t.d. kvikmyndatöku, munu þurfa að semja um slíkt.

Hvenær tekur atvinnustefnan gildi?

Stefnt er að því að hún taki gildi á vorið 2019.

Hvar og hvernig birtist atvinnustefnan?

Hluti af atvinnustefnunni birtist í ákvæðum reglugerðar um þjóðgarðinn, t.d. atriði varðandi opinber útboð. Önnur atriði verða í sérstöku atvinnustefnuskjali sem stjórn þjóðgarðsins birtir, líkt og stjórnunar- og verndaráætlun. Hugsanlega rennur atvinnustefnan inn í stjórnunar- og verndaráætlun í framtíðinni.