Beint í efni

Ný jöklavefsjá

Síðasta sunnudag var ný og glæsileg jöklavefsjá opnuð í Perlunni í samstarfi við Náttúruminjasafn Íslands. Helgi Björnsson og Oddur Sigurðsson jöklafræðingar opnuðu jöklavefsjána og sérfræðingar frá Veðurstofu Íslands, Jarðvísindastofnun Háskólans og Landsvirkjunar fjölluðu um jöklamælingar, virkni og gögn vefsjárinnar. Í lokin var gestum boðið á sýninguna Vatnið í náttúru Íslands og „Vorferð“, sérsýningu um sögu Jöklarannsóknafélags Íslands (JÖRFÍ).

22. mars 2022

Jöklavefsjáim birtir mælingar og yfirlit um rannsóknir og breytingar á íslenskum jöklum, þar á meðal sporðamælingar og gögn um útbreiðslu og afkomu jöklanna. Vefsjáin birtir einnig fjölmargar ljósmyndir frá mismunandi tímum. Samanburðarljósmyndir sem teknar eru á sama stað með sama sjónarhorni sýna skýrt breytingarnar sem eru að verða á íslensku jöklunum með sívaxandi hraða. Jöklavefsjáin er samstarfsverkefni Veðurstofu Íslands, Jarðvísindastofnunar Háskólans, Landsvirkjunar, JÖRFÍ, Landmælinga Íslands og Náttúrustofu Suðausturlands.Loftslagssjóður og verkefnið „Hörfandi jöklar“ á vegum umhverfis- og auðlindaráðuneytisins styrkja smíði og rekstur jöklavefsjárinnar. Aðrir samstarfsaðilar eru Vatnajökulsþjóðgarður og Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Hornafirði.En fræðsluvef Hörfandi jökla má nálgast hér á vefnum.

Upphafsskjár jöklavefsjár með þekjuvali, útlínum jökla undir lok 19. aldar og árið 2019 og punktum sem bjóða upp á upplýsingar um jökla og sporðamælingar þegar smellt er á þá.

Jöklavefsjáin kemur upplýsingum um jökla og jöklabreytingar á framfæri við almenning og áhugafólk um náttúruvísindi og áhrif loftslagsbreytinga á náttúru landsins. Hún gefur jafnt vísindamönnum, nemendum í skólum landsins og áhugasömum almenningi kost á að kynna sér jöklamælingar og nálgast mæligögn og aðrar upplýsingar. Undirliggjandi vefþjónustur sem sýna útlínur jökla á mismunandi tímum og fleiri mælingar bjóða upp á hagnýtingu hjá ýmsum aðilum sem fást við greiningu landupplýsinga og rannsóknir á náttúru landsins, m.a. sérfræðingum í orkuiðnaði, samgöngum, ferðaþjónustu og á fleiri sviðum. Gögn í jöklavefsjá eru opin til afnota í hvers kyns verkefnum með stöðluðum skilmálum sem nú eru að ryðja sér til rúms í vísindaheiminum í tengslum við opið aðgengi að vísindagögnum. Jöklavefsjáin veitir opinn aðgang í fyrsta sinn að mörgum gagnanna sem hún sýnir.

Jöklavefsjáin býður upp á fjölmargar ljósmyndir af jöklum sem sýna vel þær sláandi breytingar sem orðið hafa á jöklum hér á landi á síðustu áratugum. Meðal þeirra eru samanburðarmyndir sem teknar eru á sama stað með sama sjónarhorni eða unnar í tölvu til þess að sýna slíkan samanburð. Myndirnar af Fjallsjökli hér að ofan eru unnar af Kieran Baxter við Háskólann í Dundee og byggja á loftmynd frá Landmælingum Íslands frá 1988 og ljósmynd tekinni úr flygildi árið 2021

Falljökull 1988Falljökull 2021

Jón Eyþórsson hóf skipulegar mælingar á stöðu jökulsporða víða um land árið 1930 og fékk heimamenn til liðs við sig við mælingarnar. Sjálfboðaliðar JÖRFÍ hafa séð um mælingarnar frá stofnun félagsins 1950. Afkoma Vatnajökuls, Hofsjökuls og Langjökuls er mæld árlega af starfsmönnum Jarðvísindastofnunar, Veðurstofunnar og Landsvirkjunar og afkoma Mýrdalsjökuls af félögum JÖRFÍ. Útlínur jökla á ýmsum tímum hafa verið dregnar eftir loftmyndum, gervitunglamyndum, kortum og leysimælingum á yfirborði jökla en einnig raktar með GPS-mælingum og greiningu á jökulgörðum og öðrum jarðfræðilegum ummerkjum um fyrri stöðu jökulsporða.

Við hvetjum alla til að skoða þessa nýju og gagnlegu vefsjá hér undir islenskirjoklar.is