Beint í efni

Fráveituframkvæmdir í Skaftafelli

Vatnajökulsþjóðgarður fékk árið 2019 úthlutað 130 milljónir úr landsáætlun um uppbyggingu innviða til að betrumbæta fráveitumannvirki í Skaftafelli. Undirbúningur framkvæmda hefur staðið yfir síðan um mitt ár 2019 og stefnt er að því að framkvæmdum ljúki vorið 2021.

25. nóvember 2020

Útboð vegna hreinsimannvirkja fór fram vorið 2020 og var tilboði Varma og Vélaverks tekið. Kostnaður vegna kaupa á hreinsimannvirkjum er 57 milljónir. Í sumar fór svo fram útboðsferli vegna jarðvinnu og lagna sem lauk í byrjun október 2020 og framkvæmdir eru hafnar. Lægstbjóðandi var Rósaberg ehf og var tilboðið hljóðaði upp á rétt rúmlega 61 milljón króna. Eftir framkvæmdirnar verður áfram þörf á að tæma seyru sem fellur til en hreinsibúnaðurinn gerir þjóðgarðinum kleift að nýta seyruna til uppgræðslu. Möguleikar á niðurfellingu á seyru eru nú í skoðun.

Önnur verkefni tengd Skaftafelli

Nefna má að mörg önnur verkefni eru í gangi í Skaftafelli en Vatnajökulsþjóðgarður fékk úthlutað 70 milljóna aukafjárveitingu vegna átaksverkefna sem tengjast Covid19 faraldrinum. Meðal þeirra verkefna sem unnið er að má nefna nýja 240 m² skemmu sem mun m.a. rýma varaafl, vatnsveitu og rafmagnsdreifingu í Skaftafelli, nýja 340 kW varaaflsstöð, dælubúnað vegna vatnsveitu og hitaveitu ásamt lagfæringu á gönguleið frá Hundafossi að Svartafossi. Einnig er hafin vinna við að skýra framtíðarsýn fyrir Skaftafell sem lykilþjónustustað á suðursvæði þjóðgarðsins ásamt framkvæmdum við útisýningu sem mun efla fræðslu á svæðinu og er styrkt og unnin í samstarfið við Vini Vatnajökuls.

Árin 2020 til 2021 verða því mjög annasöm í Skaftafelli vegna verkefna sem stefnt er að ljúki vorið 2021.

Verkefnið tengist neðangreindum heimsmarkmiðum, nánar um Vatnajökulsþjóðgarður & heimsmarkmiðin