Beint í efni

Endurskoðun á gjaldskrá Vatnajökulsþjóðgarðs

Vatnajökulsþjóðgarði eins og öðrum ríkisstofnunum ber að endurskoða og yfirfara gjaldskrá sína með reglubundnum hætti í takt við verðlagsbreytingar og kostnað vegna þjónustunnar sem veitt er

21. júlí 2018

Vatnajökulsþjóðgarði eins og öðrum ríkisstofnunum ber að endurskoða og yfirfara gjaldskrá sína með reglubundnum hætti í takt við verðlagsbreytingar og kostnað vegna þjónustunnar sem veitt er. Stjórn Vatnajökulsþjóðgarðs fer yfir og samþykkir tillögur að breytingum á gjaldskránni og síðan er hún send umhverfis- og auðlindaráðuneytinu til yfirferðar og birtingar.

Á fyrri hluta þessa árs fjallaði stjórn Vatnajökulsþjóðgarðs tvisvar um endurskoðun á gjaldskrá, annars vegar þann 10. apríl 2018 og hins vegar þann 14. maí 2018. Fundargerðir stjórnar Vatnajökulsþjóðgarðs eru öllum aðgengilegar á vefsíðu stofnunarinnar. Einnig eiga ferðamálasamtök á svæðum Vatnajökulsþjóðgarðs áheyrnarfulltrúa í stjórn þjóðgarðsins. Þann 13. júlí síðastliðinn var endurskoðuð gjaldskrá Vatnajökulsþjóðgarðs birt á vef Stjórnartíðinda. Gjaldskráin er sett samkvæmt heimild í 21. grein laga nr. 60/2007 um Vatnajökulsþjóðgarð vegna tjaldstæða og þjónustu í Vatnajökulsþjóðgarðs s.s. á gistingum í skálum, rafmagn fyrir húsbýla, hjólhýsi og fellihýsi.

Að gefnu tilefni vill Vatnajökulsþjóðgarður vekja athygli á því að flestir þættir gjaldskrár stofnunarinnar héldust óbreyttir að þessu sinni s.s. fyrir rafmagn, sturtur og fleira. Almennt gjald fyrir eina nótt á tjaldsvæði í tjaldi, fellihýsi, tjaldvagni, hjólhýsi eða húsbíla hækkaði úr kr. 1.700 kr. í kr. 1.900 eða um 12%. Almennt gjald fyrir börn 13-16 ára hélst óbreytt, 800 krónur. Verð á gistingu í skálum lækkaði.

Svæðisgjald, sem er innheimt af bifreiðum sem koma í Skaftafell, hækkaði úr kr. 600 í kr. 700 fyrir fólksbíla og úr kr. 900 í kr. 1.000 fyrir fólksbifreiðar 6-9 manna. Gjald fyrir 10-18 manna rútu hélst óbreytt, kr. 1.800, og gjald fyrir 19-35 manna rútur lækkaði úr kr. 3.600 í kr. 3.500. Tveimur nýjum gjaldflokkum var bætt við vegna stærri rúta til að gæta jafnræðis í samanburði við minni ökutæki. Annars vegar var bætt við gjaldflokki fyrir 33-64 manna rútur, kr. 6.400, og hins vegar fyrir 65-90 manna rútu, kr. 9.000. Svæðisgjaldið er innifalið í tjaldsvæðisgjöldum í Skaftafelli, en lengi vel hafa tjaldsvæðisgestir verið þeir einu sem greitt hafa fyrir veitta þjónustu á svæðinu.

Að lokum er rétt að minna á það að Skaftafell er ein af helstu náttúruperlum Íslands og þangað koma fjölmargir íslenskir og erlendir ferðamenn ár hvert. Mikið álag er á svæðinu bæði vegna fjölda ferðamanna og vegna ásóknar fyrirtækja sem vilja veita ferðamönnum þjónustu. Fjöldi ferðamanna í Skaftafelli hefur aukist til muna síðustu ár og nálgast gestafjöldinn nú eina milljón ár hvert. Þessum mikla fjölda ferðamann fylgir þung krafa um lágmarksþjónustu eins landvörslu, bílastæði, tjaldstæði og salerni. Svæðisgjöldum í Skaftafelli er ætlað að hjálpa til við að standa undir kostnaði vegna þessa. Jafnframt eru svæðisgjöldin tæki til stýringar ferðamanna og geta, sé þeim beitt á réttan hátt, hjálpað til við að varðveita náttúru og menningu Skaftafells og tryggja að þarf þrífist ferðaþjónusta með sjálfbærni að leiðarljósi.