Beint í efni

Ársskýrsla Vatnajökulsþjóðgarðs 2021 - þjóðgarður okkar allra

"Framtíðin er björt hjá Vatnajökulsþjóðgarði og það er mikilvægt að hann sé þjóðgarður okkar allra sem við getum talað um af stolti", segir Magnús Guðmundsson, framkvæmdastjóri Vatnajökulsþjóðarðs, í ávarpi sínu í nýútkominni ársskýrslu þjóðgarðsins fyrir árið 2021.

31. maí 2022

Í ársskýrslu kemur fram að Vatnajökulsþjóðgarður hefur verið rekinn með rekstrarafgangi á árunum 2018, 2019, 2020 og 2021 og er stofnunin skuldlaus við ríkissjóð. Innan marka Vatnajökulsþjóðgarðs á sér stað mikil uppbygging innviða og má áætla að ríflega einum milljarði hafi verið varið í þetta mikilvæga verkefni á árunum 2020 og 2021.

Ný svæði bættust við Vatnajökulsþjóðgarð á árinu 2021. Sunnan jökuls bættust við hluti af jörðinni Sandfelli og þjóðlendan Hoffellslambatungur. Norðan jökuls nam stækkunin hluta af Bárðdælaafrétt austari. Alls er flatarmál Vatnajökulsþjóðgarðs nú 14.967 km2.

Hjá Vatnajökulsþjóðgarði voru 31 fastráðnir starfsmenn í lok árs 2021 með mikla þekkingu og reynslu og eru 26 þeirra á starfsstöðvum á landsbyggðinni. Mannauðurinn er lykill að góðum árangri og því er lögð áhersla á fræðslu, starfsánægju og nýsköpun í starfseminni. Á sumrin bætast við um 80 starfsmenn sem sinna landvörslu, þjónustu og fræðslu til gesta þjóðgarðsins og eru þau störf öll unnin á landsbyggðinni.

Á árinu 2021 voru unnin um 50 ársverk hjá Vatnajökulsþjóðgarði og eru um 90% þeirra á landsbyggðinni.

Fjölbreyttur hópur gesta heimsótti þjóðgarðinn sumarið 2021 og voru Íslendingar stór hluti þeirra. Veðurblíðan á norður- og austurhluta landsins dró til sín ferðaglaða og sólþyrsta landsmenn, hvar slegin voru met í fjölda gistinátta og gestakoma.

Ný stefna var gefin út á vormánuðum 2021. Með stefnunni er skerpt á þeim metnaði sem einkennir starfsemi þjóðgarðsins er snýr að verndun einstakrar náttúru og sjálfbærri nýtingu. Þjóðgarðurinn leggur mikla áherslu á að einstaklingar, samfélög og komandi kynslóðir njóti gæða garðsins sér til heilsubótar og aukinnar lífsgæða. Ný stefna leiðir ársskýrsluna áfram að þessu sinni og verkefni þjóðgarðsins falla undir meginmarkmið hennar: Verndun, upplifun, sköpun og stjórnun.