Beint í efni

Ár á heimsminjaskrá UNESCO

Vatnajökulsþjóðgarður var tilnefndur og skráður á heimsminjaskrá í júlí 2019 fyrir náttúruminjar undir áttunda viðmiði(criteria viii)sem kallar á að viðkomandi staður sé einstakt dæmi um mikilvægt stig í þróun jarðarinnar. Svæðið er því viðurkennt sem einstakt á heimsvísu vegna samspils elds og íss sem hefur leitt til stórbrotinnar náttúru og fjölbreyttra fyrirbæra.

7. júlí 2020

Stjórnvöld í hverju landi tilnefna staði á heimsminjaskrá. Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, og Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, undirrituðu tilnefningu Vatnajökulsþjóðgarðs fyrir hönd íslenska ríkisins hinn 28. janúar 2018 og var tilnefning send inn til skrifstofu heimsminjasamningsins í lok þess mánaðar.

Undirbúningur vegna tilnefningarinnar hófst síðla árs 2016 er Snorri Baldursson var ráðinn sem verkefnastjóri og sérstakri verkefnastjórn falið að stýra vinnu við tilnefninguna í samræmi við reglur UNESCO. Í tilnefningunni var áhersla lögð á rekbeltið, heita reitinn undir landinu og eldstöðvakerfi í gosbeltunum ásamt samspili elds og íss sem talið er einstakt á heimsvísu. Umsókn Vatnajökulsþjóðgarðs fékk því nafnið Samspil elds og íss.

Vatna​jök​ulsþjóðgarður var svo skráður á heims​minja​skrá UNESCO á heims​minjaráðstefnu sam​tak​anna í júlí 2019. Skráning Vatnajökulsþjóðgarðs á heimsminjaskrá staðfestir mikilvægi náttúru garðsins. Líta má á skráninguna sem æðstu gæðavottun sem völ er á. Skráninging Vatnajökulsþjóðgarðs á heimsminjaskrá hindrar ekki útivist eða önnur umsvif í þjóðgarðinum umfram þær takmarkanir sem þegar eru til staðar í Stjórnunar- og verndaráætlun hans. Umfram allt er það markmið heimsminjaskráningar að vel sé hugsað um viðkomandi svæðið til framtíðar.

Alþjóðlegu náttúruverndarsamtökin IUCN gerðu ítarlega úttekt á umsókn Íslands um skráningu Vatnajökulsþjóðgarðs á heimsminjaskrá og mæltu með skráningu þjóðgarðsins auk þess að fara fram á að bætt væri úr t.d. ferðamannaaðstöðu við Jökulsárlón og Dettifoss, mannauður þjóðgarðsins yrði efldur og friðlöndunum í Herðubreiðalindum og Lónsöræfum yrði formlega bætt við þjóðgarðinn. Þegar hefur verið bætt við mannauð þjóðgarðsins meðal annars með Gæða- og mannvirkjafulltrúa sem hefur umsjón með innviðauppbyggingu við Dettifoss og Jökulsárlón. Herðubreiðarlindir urðu hluti af þjóðgarðinum í júní 2019 og starfsfólk vinnur að úrbótum á fleiri atriðum.

NÁNAR UM HEIMSMINJASKRÁNINGU VATNAJÖKULSÞJÓÐGARÐS

Áhugavert myndband sem útskýrir heimsminjaskrá UNESCO á einfaldan hátt, athugið að myndabandið er á ensku.