Heimsminjaskrá UNESCO

 

Árið 1972 var Heimsminjasamningur Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNESCO) undirritaður. Hluti samningsins er svokölluð heimsminjaskrá sem hvílir á þeirri forsendu að ákveðnir staðir á jörðinni hafi ótvírætt alþjóðlegt gildi í menningarlegu eða náttúrufarslegu tilliti og að þá beri að vernda sem sameiginlega arfleið mannkyns. Heimsminjar eiga oft stóran sess í sögu og sjálfsmynd þjóða. Ísland fullgilti heimsminjasamninginn í desember 1995. Ráðuneyti mennta- og menningarmála og umhverfis- og auðlindamála bera ábyrgð á samningnum hér á landi og hafa frá upphafi unnið náið saman að innleiðingu hans.

Á heimsvísu hafa náttúru- og menningarminjar verið í mikilli hættu vegna heimstyrjalda, þéttbýlismyndunar, fátæktar, mengunar og náttúruhamfara. Einnig hafa nýir áhættuþættir bæst við, svo sem loftslagsbreytingar og aukin ásókn ferðamanna, en helsta ógnin sem steðjar að menningarminjum heimsins er þó vanræksla.

Til að komast á heimsminjaskrá UNESCO þarf staður eða fyrirbæri að hafa það sem kallað er einstakt gildi á heimsvísu (Outstanding Universal Value). Þetta einstaka gildi getur verið tengt menningarlegum þáttum eða náttúrufari. Vatnajökulsþjóðgarður var samþykktur á heimsminjaskránna á fundi heimsminjanefndarinnar í Bakú í Aserbaídsjan hinn 5. júlí 2019 á grundvelli einstakrar náttúru. Fyrir átti Ísland tvo staði á heimsminjaskrá, Þingvelli (2004) og Surtsey (2008).

 

Kortavefsjá heimsminja