Beint í efni

25 samningar um atvinnutengda starfsemi veturinn 2021-2022

Samkvæmt lögum um Vatnajökulsþjóðgarð eiga allir þeir sem reka atvinnutengda starfsemi í Vatnajökulsþjóðgarði að gera samning við þjóðgarðinn þar sem sett eru skilyrði fyrir starfseminni m.a. með tilliti til verndar umhverfis og öryggis gesta. Þann 9. júlí 2021 var auglýst eftir umsóknum um gerð samninga um íshellaferðir og jöklagöngur á Breiðamerkurjökli (vestan og austan Jökulsárlóns), Falljökli/Virkisjökli og Skeiðarárjökli.

13. janúar 2022

Verkefnið er þróunarverkefni og hluti af innleiðingu atvinnustefnu Vatnajökulsþjóðgarðs. Er þetta annar veturinn sem viðlíka samningar eru gerðir. Samningar eru gerðir fyrir eitt tímabil í senn. Mikið hefur safnast í reynslubanka þjóðgarðsins og munu samningarnir bæta og efla umsóknarferlið og samningagerð vegna atvinnutengdrar starfsemi í þjóðgarðinum til framtíðar.

Alls bárust 26 umsóknir um íshellaferðir og jöklagöngur veturinn 2021 - 2022 frá fyrirtækjum á þeim fjórum svæðum sem auglýst voru. Afgreiðslu umsókna lauk um miðjan október. Eitt fyrirtæki dró umsókn sína til baka. Öll tuttugu og fimm fyrirtækin með virka umsókn töldust uppfylla skilyrði til íshellaferða og jöklagangna að loknu mati á umsóknargögnum og fengu þau öll jákvætt svar um gerð samnings við þjóðgarðinn. Tuttugu og þrjú þeirra höfðu áður gert samning við þjóðgarðinn á síðasta tímabili, en tvö ný fyrirtæki bættust við.

Samningar um íshellaferðir og jöklagöngur renna út 30. apríl n.k. en unnið er að auglýsingu fyrir umsóknir um starfsemi á og við skriðjökla á suðursvæði sumarið 2022.

Sjá meiri upplýsingar um atvinnutengda starfsemi hér.

Yfirlit yfir fyrirtæki með samning veturinn 2021-2022

 • Arcanum Fjallaleiðsögumenn ehf.
 • Arctic Exposure ehf.
 • Blue Iceland Suðursveit ehf.
 • Fallastakkur ehf. (Glacier Journey)
 • Glacier Adventure ehf.
 • Glacier Travel ehf.
 • Glacier Trips ehf.
 • Háfjall ehf.
 • Hidden Iceland ehf.
 • Huldusteinn ehf.
 • Ice Cave Guides ehf.
 • Ice Cave in Iceland ehf.
 • Ice Journey ehf.
 • Iceguide ehf.
 • Iceland Event
 • Local Guide ehf.
 • Local Icelander ehf.
 • Marina Travel ehf.
 • Melrakki Adventures ehf.
 • Niflheimar ehf.
 • Öræfaferðir ehf.
 • South East ehf.
 • Straumhvarf ehf. (Arctic Adventure)
 • Tindaborg ehf.
 • Tröllaferðir ehf.

Vatnajökulsþjóðgarður og heimsmarkmiðin

Samningar um atvinnutengda starfsemi tengast eftirfarandi heimsmarkmiðum

8. Góð atvinna og hagvöxtur

11. Sjálfbærar borgar og samfélög